Alþingisrímur – fyrsta ríma (Þinghúsríma) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alþingisrímur 1

Alþingisrímur – fyrsta ríma (Þinghúsríma)

ALÞINGISRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Dísin óðar, himins Hlín
Bragarháttur:Stikluvik – hringhent - framrímað - táskeytt - misvíxlað - vikframhent
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902

Skýringar

Talið er að Valdimar hafi lagt til efni rímnanna en fengið Guðmund skólaskáld til að yrkja þær.
1.
Dísin óðar, himins Hlín,
hell mér glóð í blóðið;
eg í ljóðum leita þín,
líttu góða’, í náð til mín.
2.
Hertu strengi hörpunnar,
háa ljá mér tóna;
syngdu um drengi sögunnar
sætt og lengi um vökurnar.
3.
Herjar kera kneyfi’ eg bjór,
kalla á allar vættir;
mögnum hér vorn kvæða-kór
um kappa’ er bera völdin stór.
4.
Eg vil syngja óðinn minn,
æðin blæði Kvásis,
um vort þing í þetta sinn
með þróttar-slyngu afrekin.
5.
Út við grænan Austurvöll,
sem angar lengi’ á vorin,
stendur væn og vegleg höll,
vonin mænir þangað öll.
6.
Húsið vandað háveggjað
hlær við skærum röðli,
Bald á sandi byggði það,
Bald hefur landið margsnuðað.
7.
Þar er stríðið þunga háð,
þar eru skörungarnir,
þar sjá lýðir þor og dáð,
þar fæst tíðum biti’ af náð.
8.
Brandar gjalla góma þar,
glymja’ og ymja salir,
ræður snjallar, stórorðar
stökkva’ af palli mælskunnar.
9.
Hetjur þá er halda á þing
húfur og skúfar glitra;
margir slá um húsið hring,
horfa’ á knáa skrautfylking.
10.
Magnús prúði fremstur fer,
frækinn mæki gyrtur;
ljósin Úðar leika sér
um Löndungs skrúðann, sem hann ber.
11.
Hvíti fjaðurhatturinn
háan lágan gerir;
krossum hlaðinn höfðinginn
hefur aðals baksvipinn.
12.
Lágur á velli og lotinn er
lundur Þundar bála;
aðköst, hrelling, hulin sker
hefur elli í för með sér.
13.
Völdin háu heykja þá,
sem hreinir reyna’ að sýnast,
vegsemd þrávalt vandi’ er hjá
og vant að sjá, hve treysta má.
14.
Stríð er að fást við stjórn og þjóð,
sem standa andvíg jafnan;
kóngaást er einatt góð,
en oft það sást að skammt hún stóð.
15.
Fagurt skein á forsetann
fríðan neðri deildar;
skortir einurð aldrei þann
íturhreina sæmdarmann.
16.
Doktor Valtýr víðfrægur
var og þar í flokki,
hæstur talinn herkóngur,
Herjans sala máttviður.
17.
Brandinn nautinn Nellemanns
nakinn skók í mundum;
var í þraut sá vinur hans
vopnagautur utanlands.
18.
Þar var herra Hallgrímur,
herlega forkláraður,
og líkur Sverri Sigurður,
svartur og snerrinn ísfirskur.
19.
Klemens slyngur korðann sinn
kreisti og hvessti augun
oft á þingmenn íbygginn
Eyfirðinga höfðinginn.
20.
Völdin há og virðing ber
vopna-Þráinn knái,
enda tjá það margir mér,
að maðurinn sá veit hver hann er.
21.
Guðjón rauðan hristi haus
með hrotta-glott á vörum,
aldrei blauður, óttalaus
öskraði, sauð og vall og gaus.
22.
Andar þutu óhreinir
út af beiti spjóta;
fram er brutust berserkir,
blóðgir flutu valkestir.
23.
Hollur tiggja’, er var til von,
vanur fénu að býta
rammur Yggjar reið þar kvon
riddarinn Tryggvi Gunnarsson.
24.
Margir stefna í húsið hátt,
en hér um fleiri ei getur;
þá, sem efna eggja slátt,
eg mun nefna og lýsa brátt. —
25.
Stríðsöl teygað óspart er
áður en stríðið byrjar;
glóa veigar, glampa ker,
gott er að eiga sæti hér.
26.
Stirnir presta alda á,
Íslands vísu syni,
þar má flesta saman sjá,
sæmd er mesta vilja fá.
27.
Þar hin hreina þjóðrækni
þykir mikils virði,
einlæg meining, mannhylli,
mögnuð eining, sjálfstæði.
28.
Þvílík björg ei bifast hót,
búinn þó sé hætta,
efla að hörgum heilög blót,
hamast vörgum grimmum mót.
29.
Því skal minnast maklega
málmþings álma snjallra,
en – Hrundin tvinna hýreyga,
eg hætti um sinn við rímuna.