Við Valagilsá | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Norður fjöll (ferðakvæði) 7

Við Valagilsá

NORÐUR FJÖLL (FERÐAKVÆÐI)
Fyrsta ljóðlína:Hefur þú verið hjá Valagilsá
Höfundur:Hannes Hafstein
bls.54–56
Bragarháttur:Sjö línur (þríliður) fer- og þríkvætt: aBaBccB
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1882

Skýringar

Birtist upphaflega í Verðandi, 1. árg. 1882, bls. 137–138
1.
Hefur þú verið hjá Valagilsá
um vordag í sólheitri blíðu?
Kolmórauð, freyðandi þeytist hún þá
og þokar fram stórbjörgum gilinu frá,
sem kastast í ólgandi straumfalli stríðu.
Orgar í boðum, en urgar í grjóti,
engu er stætt í því drynjanda róti.
Áin, sem stundum er ekki í hné,
er orðin að skaðræðisfljóti.
2.
Hefur þú gengið að gilinu þá
til gamans á meðan þú bíður?
Því fyrst eftir miðnætti minnkar á,
og meðan er skemmtun gljúfrið að sjá,
hve grenjandi hrönn þar við hrikaberg sýður.
Hanga þar skuggar á hroðaklettum,
hengdir draugar með svipum grettum.
Standberg við standberg þar hreykjast upp há
með hamrasvip fettum og brettum.
3.
Komdu í gilið, en haf eigi hátt,
þeir í hömrunum þola það eigi.
Ef að þú hrópar, þá heyrir þú brátt
þeir hljóða svo dimman úr hverri átt,
þeir vilja, að allt nema áin þegi.
Þeir eru einvaldir í því gili,
ótal búa í svörtu þili,
gnísta tönnum við barinn botn
og byltast í grænum hyli.

4.
Nú er loks komin næturstund,
nú sýnist árvatnið blárra;
drýpur af stráum, og döggvot er grund.
Mig dreymdi að nú værri skárra.
Hestarnir híma’ uppi’ á völlum.
Gilið er draugslega dimmt
og drungasorti á fjöllum.
5.
Straumur freyðir og stekkur hátt,
steinar í botni skarka,
sogar strengur og suðar kátt.
En – samt held ég láti nú slarka.
Ég ætla’ að sjá hvað setur,
hvort sjóðandi straumiðufall
eða brjóstþrekinn klár hefur betur.


Athugagreinar

Kvæðið, eins og það birtist upphaflega í Verðandi:
1.
Hefur þú verið hjá Valagilsá
um vordag í sólheitri blíðu?
Kolmórauð, freyðandi þeytist hún þá
og þokar fram stórbjörgum gilinu frá,
sem kastast í ólgandi straumfalli stríðu.
Orgar í boðum, en urgar í grjóti,
engu er stætt í því drynjanda róti —
áin, sem stundum er ekki í hné,
er orðin að skaðræðis fljóti.
2.
Hefur þú gengið að gilinu þá
til gamans á meðan þú bíður?
Því fyrst eftir miðnætti minnkar á,
og meðan er skemmtun gilið að sjá,
hve grenjandi hrönn þar við hrikaberg sýður.
Hanga þar skuggar á hroðaklettum,
hengdir draugar með svipum grettum.
Standberg við standberg þar hreykjast upp há
með hamrasvip fettum og brettum.
3.
Komdu í gilið, en hafðu’ ekki hátt,
þeir í hömrunum þola það eigi.
Ef að þú hrópar, þá heyrir þú brátt
þeir hljóða svo dimman úr hverri átt,
þeir vilja, að allt nema áin þegi.
Þeir eru einvaldir í því gili —
ótal búa í svörtu þili,
gnísta tönnum við barinn botn
og byltast í grænum hyli.
-8-
4.
Nú er loks komin næturstund,
nú sýnist árvatnið blárra;
drýpur af stráum, og döggvot er grund —
mig dreymdi að nú værri skárra.
Hestarnir híma’ uppi’ á völlum.
Gilið er draugslega dimmt
og drungasorti á fjöllum.
5.
Straumur freyðir og stekkur hátt,
steinar í botni skarka,
sogar strengur og suðar kátt —
en samt held ég láti nú slarka.
Ég ætla’ að sjá hvað setur,
hvort sjóðandi straumiðufall
eða brjóstþrekinn klár hefur betur.