Af Vatnsskarði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Norður fjöll (ferðakvæði) 5

Af Vatnsskarði

NORÐUR FJÖLL (FERÐAKVÆÐI)
Fyrsta ljóðlína:Það er komin afturelding
Höfundur:Hannes Hafstein
bls.50–53
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) OaOaObOb
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1882

Skýringar

Birtist upphaflega í Verðandi, 1. árg. 1882, bls. 134–136
1.
Það er komin afturelding,
allt er dauðakyrrt og hljótt,
það er enn þá ekki morgunn,
ekki heldur lengur nótt.
Hægur árdags-andblær titrar,
andardrætti líkur manns,
þess er óðfús eftirvænting
alla fyllir sálu hans.
2.
Förum hægt. Ó hreina loftið
hressir oss og svalar ljúft,
lyftir sál og, leysir huga,
læsist inn í hjartað djúpt. —
Undan fæti fer að halla,
flýta lítt vér þurfum oss;
heyrist þegar hjá oss niða
hægt og þungan Gýgjar-foss.
3.
Hér er brúnin. Byggðin sefur,
byrgð í gráum þokuhjúp,
hljótt er fellur, fjalla milli,
fram sem þögult ægisdjúp.
Öldur fæðast, ólga, deyja,
án þess heyrist bylgjugnauð,
lyftast mekkir, líða, hverfa,
líkt og vofa köld og dauð.
4.
Standa fjöll, sem risaraðir
rammar vaði þokuhaf,
sem nú ólgar meir’ og meira,
morgungolu vakið af.
Grillir norð’r í dimma Drangey,
dökk í þoku lyftist hún.
Þórðarhöfði þar til hliðar
þrúðga hvessir hamrabrún.
5.
Golan eykst og þokan þynnist.
Það fer að bóla hæðum á,
eins og skjóti eyjagrúa
upp úr bárukrýndum sjá.
Og nú glitra sést á sjóinn!
Sjá, hann verður logaskír!
Geisladýrð úr grárri þoku
gulli ofna slæðu býr.
6.
Eins og blæja yfir meyju
æskubjarta sveipast hún,
mótar fyrir meyjar brjóstum,
mótar fyrir dökkri brún.
Blæjan kvikar, alveg eins og
upp sé vöknuð hún, er svaf,
upprennandi árdagssólar
ástargeislum vakin af.
7.
Lítið norður! Sólin svása
sínum blund er risin af,
Drangey öll í logum leiftrar,
lof sé þeim sem augað gaf!
Hvílík dýrð á láð og legi,
leiftrar bráðið gull í sæ
Glitra’ og tindra geisla straumar
gárunum í við morgunblæ.
8.
Lítið innar, þar sem þokan
þakti áðan hól og laut!
Nú er mær úr rúmi risin,
rekkjuslæður horfnar braut.
Sjá! nú blika blómahlíðar,
bjartir tindar, grösug skörð,
Glóðafeykir glöðu brosi
grænni heilsar blómajörð.
9.
Niður Hólminn hestasæla
Héraðsvötnin líða slétt,
glampa líkt og men á meyju,
milli brjósta hennar sett.
Ýmist hyljir augum lygna
eða strengur sagnir les,
þar til armar elfu faðma
yst hið bratta Hegranes.
10.
Út um breiðan Hólminn hlæja
hér og þar in fríðu tún,
fagurgrænni en hið annað,
eru hvert sem heillarún.
Og á túnum brosa bæir,
byggðir, gleði, starfsemd, ást.
Frá þeim sumum fyrstu reykir
fara smátt og smátt að sjást.
11.
En í kringum allan þennan
yndislega fagra reit
armar fjalla opnir breiðast
og í faðmi halda sveit.
Grettis-ekkja’ úr legi lítur,
logagyllt í sveitir inn,
minnir á hvern höld að halda
Hafursgriðin enn um sinn.
12.
Heill þér, sveinti fríða, fagra,
fjöllum girt og varin sæ,
fjalla’ og elfar-vættum vernduð
vertu heillum sveipuð æ!
Glaður til þín ferð ég flýt,
feginn enn ég gisti þig.
Fagra sveit, mín föðurmóðir,
faðmi þínum vefðu mig.


Athugagreinar

Kvæðið, eins og það birtist upphaflega í Verðandi:
1.
Það er komin afturelding; allt er dauðakyrrt og hljótt,
það er enn þá ekki morgunn, ekki heldur lengur nótt;
einhver svalur andblær titrar, andardrætti líkur manns,
sem þess bíður, að sem örskot undur birtist sjónum hans.
2.
Förum hægt. Ó hreina loftið hressir oss og svalar ljúft,
lyftir anda, leysir sálu, læsist inn í hjartað djúpt. —
Undan fæti fer að halla, flýta lítt vér þurfum oss;
heyrist þegar hjá oss niða hægt og þungan Gýgjafoss.
3.
Hér er brúnin. Byggðin sefur, byrgð í gráum þokuhjúp,
hljótt sem fellur fjalla milli fram sem þögult ægisdjúp.
Öldur fæðast, ólga, deyja, án þess heyrist bylgjugnauð,
lyftast mekkir, líða, hverfa, líkt og vofa köld og dauð.
4.
Standa fjöll, sem risaraðir rammar vaði þetta haf,
sem nú ólgar meir’ og meira, morgungolu vakið af.
Grillir norð’r í dimma Drangey, djúpt í þoku lyftist hún,
Þórðarhófði þar til hliðar þrúðga hvessir hamrabrún.
5.
Golan eykst og þokan þynnist. Það fer að bóla hæðum á,
eins og skjóti eyjagrúa upp úr bárukrýndum sjá.
Og nú skín á sjóinn sjálfan! sjá, hann verður logaskýr,
geisladýrð úr grárri þoku gulli ofna slæðu býr.
6.
Eins og blæja yfir meyju æskubjartri hvílir hún,
mótar fyrir meyjarbrjóstum, mótar fyrir dökkri brún.
Blæjan kvikar, og hin unga einnig kvika virðist því,
upprennandi ástarsólar árdagsroða sveipuð í.
7.
Lítið norður! Sólin svása sínum blund er risin af,
Drangey öll í logum leiftrar! Lof sé þeim sem augað gaf.
Hvílík dýrð á láð og legi! Lítið þennan bjarta sæ
tindra, glitra geislabárum, gáraðan létt í morgunblæ.
8.
Lítið innar, þar sem þykka þokan áðan byggðir fal,
þar sem bleikar þokuvofur þöglar liðu yfir dal,
sjá, þar brosa blíðar hlíðar, bjartir klettar, grösug skörð,
grænar flatir, fríðar, víðar, fagursléttar, gil og börð.
9.
Niður Hólminn hestasæla Héraðsvötnin líða slétt,
glampa líkt og men á meyju, milli brjósta hennar sett,
ýmist sig um eyrar flétta, eða mynda hólm og nes,
uns þau faðma örmum tveimur yst hið bratta Hegranes.
10.
Og um allan Hólminn hlæja hér og þar in fríðu tún,
fagurgrænni en hið annað, eru hvert sem heillarún,
og á túnum brosa bæir, byggðir, gleði, starfsemd, ást.
Upp frá sumum þeirra þegar fyrstu reykir fara’ að sjást.
11.
En í kringum allan þennan yndislega fagra reit
fjallaarmar opnir breiðast og í faðmi halda sveit.
Drangey há úr legi lítur, logagyllt í sveitir inn,
meðan Rán með rjóðum vörum kyssir fagra fjörðinn sinn.
12.
Heill sé þér þú fagri fjörður, fjöllum girtur, varinn sæ,
vötnum skreyttur, vættum geymdur, vertu sólu kysstur æ.
Og nú fer ég ferðar minnar, flýti mér að gista þig,
dalur, þú með fjallafaðminn, faðmi þínum vefðu mig.