Laxá í Aðaldal | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Laxá í Aðaldal

Fyrsta ljóðlína:Kastast úr klettagljúfrum
bls.9. árg. bls. 63–66
Viðm.ártal:≈ 2000
Tímasetning:2011
1.
Kastast úr klettagljúfrum
komin um afdal þröngan
liðast svo lygn um engjar
Laxá, hin fagurbláa.
Fellur á flúðum víða
faldar hvítu á bárum
vefur um víðihólma
votum faðmi og mjúkum,
yst á eyjanna bökkum
úðar hvannanna skrúða,
réttir bakkanna blómum
bikar af lífdrykk tærum.
2.
Eyjar og hólmar allir
anga af lífi frjóu,
vaxin hvönnum og viði
vernda sundþolna gesti.
Undir gulstör og grasi
geymir skúföndin hreiður,
hefur við klettinn hrjúfa
húsöndin fundið skúta.
Stendur við strangar flúðir
straumöndin fagurlita,
grávíðir humlagullinn
gætir duggandareggja.
3.
Seinna blágresisbreiðan
börnunum smáu leynir
uns, sem örsmáir hnoðrar
árinnar heim þau kanna.
Daga ljósa og langa
láta strauminn sér vagga,
komin af bárum bláum
byggja hólmann um nætur.
Móðurdúnninn er mjúkur,
mildur er kvöldsins andi,
svefninn er vær und vængnum
vögguljóð kveður blærinn.
4.
Hreinan, óskertan unað
allt þitt lífríki vekur,
öll sú fegurð og friður
fangar hugann og seiðir.
Vatn þitt víðisins greinar
viðkvæmt laugar og strýkur
er þær bognar við bakkann
blöð í hyljunum skoða.
Kyrrist vindur er kvöldar
kemur værð yfir bárur
meðan miðnætursólin
merlar gulli á strauminn.
5.
Straumur þinn leynir lífi,
laxar um djúpin bláu
sveima sóldaga bjarta
seiddir um vegu langa.
Komnir af köldum sævi
konungar þinna hylja,
glíma við sterkan strauminn
stinnir og silfurgljáir.
Stökkva freyðandi fossa
falla í iðu hvíta,
stökkva aftur og aftur
uns þeir straumþungann sigra.
6.
Veiðimenn löngum laðar
lífið sem djúp þín geyma,
þeim sem við bakkann bíða
birtast heillandi myndir.
Bleikjan syndir um bládjúp
blakar uggum í strauminn,
stekkur stórlax á hylnum,
stakur urriði vakir.
Vaknar veiðimanns hugur
von um stórfiska lifnar.
– Rándýrseðlið er ennþá
okkar dyggasta fylgja.
7.
Lífæð og drottning dalsins,
dreymandi fram þú streymir.
Strjúki þig sterkir vindar
strengirnir syngja lengi.
Áður en tæknin alla
alþýðuspeki deyddi,
fossarnir okkar feðrum
forðum spáðu til veðra.
Syngju í suðri fossar
sunnanvindar og hlýja!
Niðaði í norðri strengur,
nú myndi von á hörðu.
8.
Nöfn sem hugina heilla
hefur tíminn þér gefið,
fundin af fyrri mönnum,
fléttuð í þeirra sögu.
Grástraumur, Vitaðsgjafi
gleðja veiðimannshjarta,
Álfthylur, Eyjakvíslar,
yndi draumlyndum vekja.
Þvottastrengurinn þylur
þrálátt um störf og annir,
Presthylur segir sífellt
sögur um hverfulleikann.
9, Þegar vetrarins veldi
við af sumrinu tekur,
frostið herðir sitt faðmlag
fjötur yfir þig leggur,
helsi ekki þú unir
undan klakanum brýstu,
æðir hamslaus um engjar
inn í hraunganga smýgur.
Finnur farveg þinn aftur
frostsins hrammur er sleppir,
streymir óbuguð áfram
eins og frjálsbornum sæmir.
10.
Þú verður enn um aldir
allra fallvatna drottning,
vekur unað og yndi
allt með lífsmagni nærir.
Seiðmagn þitt ber í sálu
sérhver, er eitt sinn hefur
setið á sumarkvöldi
sólhlýju, á bakka þínum.
Hlustað hrifinn á niðinn,
horft á síkvika blikið,
heyrt í hljómfalli straumsins
hjartslátt þinn öran, sterkan.