Furðufuglar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Furðufuglar

Fyrsta ljóðlína:Hér úti í morgun var urmull af fuglum
bls.12. árg. bls. 167–168
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) AABB
Viðm.ártal:≈ 2025
Tímasetning:2014
Flokkur:Gamankvæði
Hér úti í morgun var urmull af fuglum,
alls konar steggjum og kerlingaruglum.
Alfyrstum mætti ég morgunhana;
magnað hve hann þurfti fram sér að trana.

Ég farfugl sá tildra upp tjaldi rogginn,
á túninu og fá sér svo eitthvað í gogginn.
Már var þar, Erla og aðrir með húfur
og ástfangnar kurruðu turtildúfur.

Gaukur einn kotroskinn keifaði mikið
með kerlingarálftinni að ganga af sér spikið.
Monthænan eggjandi, meira en aðrir
og málaða gæsin með stolnar fjaðrir.

Í vænginn sá þernurnar stíga við stráka
og stríddi þeim meinfýsin hermikráka.
Hann grínaðist með þetta, grallaraspóinn
þá galaði hástöfum vælukjóinn.

Uppi í brekku var starandi stjarfur
og stóð þar á öndinni leiðindaskarfur.
Tvísté í sífellu og teygði fram álku,
það tísti í karli af ótta við hálku.

Ég gekk fram á bankamann berjandi lóminn.
Hann bölvaði mikið og hækkaði róminn
um haukana ágjörnu er hirtu allan gróðann
þeir hreiðruðu um sig og gerðu hann óðan.

Til baka ég sneri í hlýlegu húmi
og hugsjúkum mætti næst kjaftaskúmi.
Í eyra hann kvakaði eitt kvöldið á djammi,
í klónum þá lenti á harðsnúnum gammi.

Nú hafði hann illfyglið fláráða fundið
og fastan við súlu svo rammlega bundið.
Þar rembdist hann hreint eins og rjúpan við staurinn;
sem rindill mér sýndist nú vesalings gaurinn.

Já, margur er fuglinn hér saman í safni;
að síðustu mætti ég næturhrafni.
Í augum hans brá fyrir gleðskapar-glýju
er gat þess að hann hefði náð sér í kríu.

En nú vil ég hætta að safna í sarpinn,
svalan ég kvaddi þó burt floginn garpinn.
Ég hef enga löngun að hljóma eins og fálki
og hæfilegt tel því að ljúka hér bálki.