Íslandsljóð I | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Íslandsljóð 1

Íslandsljóð I

ÍSLANDSLJÓÐ
Fyrsta ljóðlína:Þú fólk með eymd í arf
bls.37–39
Bragarháttur:Ellefu línur (tvíliður) aBBCCaDDEEa
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1897

Skýringar

Upphafsljóð bókarinnar Sagna og kvæða.
1.
Þú fólk með eymd í arf !
Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,
litla þjóð, sem geldur stórra synda,
reistu í verki
viljans merki, –
vilji er allt sem þarf.
Trúðu á sjálfs þíns hönd, en undur eigi.
Upp með plóginn. Hér er þúfa í vegi.
Bókadraumum,
böguglaumum
breyt í vöku og starf.
2.
Þú sonur kappakyns !
Lít ei svo við með löngun yfir sæinn,
lút ei svo við gamla, fallna bæinn,
byggðu nýjan,
bjartan, hlýjan,
brjóttu tóftir hins.
Líttu út og lát þér segjast, góður,
líttu út, en gleym ei vorri móður.
Níð ei landið,
brjót ei bandið,
boðorð hjarta þíns.
3.
Þú býr við lagarband, –
bjargarlaus við frægu fiskisviðin,
fangasmár, þótt komist verði á miðin,
en gefur eigi
á góðum degi,
gjálpi sær við land.
Vissirðu, hvað frakkinn fékk til hlutar ?
Fleytan er of smá, sá guli er utar.
Hve skal lengi
dorga, drengir,
dáðlaus upp við sand ?
4.
Og horfðu heim á bú.
Upp til heiða endalausar beitir,
en til byggða níddar, eyddar sveitir.
Sinumýrar
rotnar rýrar
reyta svörlu hjú.
Og svo túnið. – Sérðu í blásnu barði,
bóndi sæll, þar mótar fyrir garði ?
Svona bjó’ann,
hingað hjó’ann,
hann, en ekki þú.
5.
Sjá, yfir lög og láð
autt og vanrækt horfir himinsólin.
Hér er víst, þótt löng sé nótt um jólin,
fleira að vinna
en vefa og spinna,
vel ef að er gáð.
Sofið er til fárs og fremstu nauða.
Flý þó ei. Þú svafst þig ei til dauða.
Þeim, sem vilja
vakna og skilja,
vaxa þúsund ráð.
6.
En, – gáfum gædda þjóð !
Gleymdu ei hver svefni þeim þig svæfði,
sérhvert lífsmark Ísland deyddi og kæfði,
hungurs ár þín
tjón þitt, tár þín
tíndi í maura sjóð.
Skildu rétt, hvar skórinn að þér kreppir.
Skildu, hver í bönd þig hneppti og hneppir.
Engu að gleyma
í Höfn né heima. –
Heil, mín ættarslóð.