Til Stephans G. Stephanssonar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Til Stephans G. Stephanssonar

Fyrsta ljóðlína:Heill sé þér, víkingur vestrinu frá
bls.93–95
Bragarháttur:Fimm línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaaB
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1917
1.
Heill sé þér, víkingur, vestrinu frá,
velkominn aftur í Fjörðinn.
Þiggðu nú ljóðin mín listasmá,
lynghríslu undan vetrarsnjá,
er óx upp við óræktarbörðin.
2.
Ég hefi svo mikið að þakka þér,
svo þrotlausan margan greiðann.
Þá myrkrið og vonleysið veittust að mér
og vorþráin grátandi bað fyrir sér,
þá söngstu minn himin heiðan.
3.
Og þegar að íslenska þröngsýnin lá
sem þoka yfir sveitinni minni,
úr sortanum læddist ég, settist þér hjá,
og söngurinn hreimmikli leysti mig frá
að villast með öðrum þar inni.
4.
Og fyrir það áttu orðið ítök í mér,
ert einn af vitunum mínum,
og þess vegna stíg ég á stokkinn hér
og strengi þess heit að fylgja þér
og hlúa að hugsjónum þínum.
5.
Þú sigldir svo ungur í vesturveg,
sem víkingaefnin forðum,
en hvar sem snekkjunni lagðir í leg,
þó lægi þar nóttin geigvænleg,
þá lýsti af báðum borðum.
6.
Mót friðsömum búendum hreyfðir ei hönd,
en hjálpandi greiddir þeim veginn.
En sæirðu smælingjann settan í bönd
og síngirni drottna um byggðir og lönd,
var „Tyrfingur“ tafarlaust dreginn.
7.
Og nú ertu heimkominn, hraustur og stór,
þó haustlitur kollinn þinn prýði.
Og margur með ríflegri farkost fór,
en fáum þó skilaði tímans sjór
jafnheilum úr hálfaldar stríði.
8.
Og fjörðurinn búinn í blómaskraut
þér brosandi tekur á móti.
Og Vötnin liðast sem lifandi braut
frá ljóskrýndum jökli í Ægis skaut
og syngja með hollvina hóti.
9.
Vér heilsum þér, frændi vor, Fjarðarins hnoss,
er fámennið söngst út um álfur,
því hljómbylgjan þín er í ætt við oss,
öflug og sterk eins og hrynjandi foss,
en hvöss eins og sannleikinn sjálfur.
10.
Og skagfirska æskan sem skemmtir í dag
vill skrifa í minnisbók þína:
Þakklæti fyrir hvert ljóðalag,
ljúflingasönginn og rammaslag –
þau lyftu undir ljósþrána mína.
11.
En skamma stund ánægjan verður oss veitt
að vita þig dvelja hjá oss.
En það skal vor huggun, þó hafið sé breytt,
er hljómnum sú vegalengd ekki neitt –
og þínir, þeir munu ná oss.
12.
Og sittu því hress, þó að halli nú af,
í háfjalla skínandi armi.
Þú gnæfir þar einn yfir alþjóða haf
með íslenska jökulsins hvíta traf
og eilífa eldinn í barmi.