Til móður minnar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Til móður minnar

Fyrsta ljóðlína:Hví skyldi ég yrkja um önnur fljóð
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aaBccB
Viðm.ártal:≈ 1875

Skýringar

Móðir Matthíasar hét Þóra og var Einarsdóttir. Minntist hann hennar ævinlega með þakklæti og elsku, enda naut hann mikils ástríkis af henni þótt hún yrði að senda hann burtu í vinnumennsku þegar hann var einungis 11 ára gamall. Það var hún sem kenndi honum að elska skepnur, jurtir og blóm ,,segir þeim að þessar verur eigi sál eins og þeir og séu bræður þeirra og systur.“
(Þórunn Erlu Valdimarsdóttir – Upp á Sigurhæðir bls. 19.)
1.
Hví skyldi ég yrkja’ um önnur fljóð,
en ekkert um þig, ó, móðir góð? —
Upp, þú minn hjartans óður!
Því hvað er ástar og hróðrar dís,
og hvað er engill úr Paradís
hjá góðri og göfugri móður?
2.
Ég man það betur en margt í gær,
þá morgunsólin mig vakti skær
og tvö við stóðum í túni:
Þú bentir mér yfir byggðar hring,
þar brosti við dýrðin allt í kring
og fjörðurinn bláöldum búni.
3.
Þú bentir mér á, hvar árdagssól
í austrinu kom með líf og skjól.
Þá signdir þú mig og segir:
„Það er guð, sem horfir svo hýrt og bjart,
það er hann, sem andar á myrkrið svart
og heilaga ásján hneigir.„
4.
Ég fann það var satt; ég fann þann yl
sem fjörutíu’ ára tímabil
til fulls mér aldregi eyddi.
Ég fann þann neista í sinni og sál,
er sorg og efi, stríð og tál
mér aldregi alveg deyddi.
5.
Ég man eitt kvöld við þitt móðurkné,
um myrkt og þegjandi rökkurhlé,
– þú kunnir sögur að segja: –
Ég horfði yfir þjörg og hvítan sand,
ég horfði’ yf’r á Zíon og Kanaansland,
ég horfði’ á Guðs hetjuna deyja.
6.
Þá lærði ég allt, sem enn ég kann,
um upphaf og endi, um Guð og mann
og lífsins og dauðans djúpin.
Mitt andans skrúð var skorið af þér,
sú skyrtan best hefur dugað mér
við stormana, helið og hjúpinn.
7.
Ég gekk svo erfiðan æskustig,
því ellefu vetra kvaddi’ eg þig,
og lítill var kjarkur og kraftur.
Ég man þau ár og ég man þau tár,
ég man þú brennandi hjarta-sár,
er kom ég og – kvaddi þig aftur.
8.
Ég kvaddi þig síðast á sólskinsstund
míns sorgríka lífs: mitt fagra sprund
á hvítum jó beygir á brautu;
mér féll þá ei tár er ég fór frá þér,
í fyrsta sinni ég harkaði’ af mér,
þar grátin þú leyndist í lautu.
9.
En hálfu’ ári síðar með sorg í lund,
þá svifið var burt hið gullna sprund,
og eg var í ókunnu landi
í myrku húsi um miðja nótt
með marinn fót og veikan þrótt,
og eins var dapur minn andi.
10.
Ein vökukona þá bar mér bréf
sem birti það sára fréttastef:
„Þín móðir er falin í foldu.“ –
Hvað hugur minn þá í húmi leit
og hugsanir mínar enginn veit; –
oss fylgir svo margt í moldu.
11.
En burtu með sút og sorgarlag!
Mín signaða móðir, gleðibrag
ég vat, þú vilt að ég stæri:
frá Guði brosti þér gleðin hrein
i gegnum þín stöðug tár og mein,
sem braut þín öll blómstruð væri.
12.
Án efa fáir, það er mín trú,
sér áttu göfugra harta’ en þú,
það vakti mér löngum lotning;
í örbirgð mestu þú auðugust varst
og alls kyns skapraun og þrautir barst
sem værir dýrasta drottning.
13.
Ég hefi þekkt marga háa sál,
ég hefi lært bækur og tungumál
og setið við lista lindir;
en enginn kenndi mér eins og þú
hið eilífa’ og stóra, kraft og trú,
né gaf mér svo guðlegar myndir.
14.
Ég kveð þig, móðir, í Kristí trú,
sem kvaddir forðum mig sjálfan þú
á þessu þrautanna landi.
Þú, fagra ljós, í ljósinu býrð,
nú launar þér Guð í sinni dýrð,
nú gleðst um eilífð þinn andi.
15.
En þú sem ef til vill lest mín ljóð,
þá löngu er orðið kalt mitt blóð,
ó, gleym ei móður minni,
en legg þú fagurt lilju-blað
á ljóða minna valinn stað,
og helga hennar minni.