Hafísinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hafísinn

Fyrsta ljóðlína:Ertú kominn, landsins forni fjandi,
bls.21
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:31. mars 1888
Flokkur:Náttúruljóð
1.
Ertú kominn, landsins forni fjandi,
fyrstur varstú enn að sandi,
fyr en sigling, sól og bjargarráð.
Silfurfloti sendur oss að kvelja;
sjálf í stafni glottir kerling Helja,
hungurdiskum hendir yfir gráð.
Svignar Ránar kaldi móðurkviður,
knúin dróma, hræðist voðastríð,
stynur þungt svo engjast iður,
eins og snót við nýja hríð.
2.
Hvar er hafið? Hvar er beltið bláa,
bjarta, frjálsa, silfurgljáa?
Ertú horfin, svása, svala lind? —
Þá er slitið brjóst úr munni barni;
björn og refur snudda tveir á hjarni,
gnaga soltnir sömu beinagrind;
þá er úti‘ um fjör og frægðar-daga,
frelsi, hreysti, vit og dáð og þrótt;
þá er farin þjóð og saga,
þá er dauði, reginnótt.
3.
Hvar er hafið? Allt er ísköld breiða,
eins og draugar milli leiða
standa gráir strókar hér og hvar.
Eða hvað? Er þar ei komin kirkja? -
Kynjamyndir! Hér er létt að yrkja,
hér eru leiði heillar veraldar.
Hundrað þúsund kumla kirkjugarður!
kuldalegt er voðaríki þitt,
hræðilegi heljar arður,
hrolli slær um brjóstið mitt.
4.
Þú átt, hafís! allt sem andann fælir,
allt sem grimmd og hörku stælir,
án þess þó að örfa þrek og móð.
Fornjóts bleika, fimbulgrimma vofa,
fjötruð hlekkjum þúsund-ára dofa,
þú hefir drjúgast drukkið Íslands blóð!
Hvaðan ertú? enginn veit þitt inni,
engínn skilur þig ne sækir heim, —
þú ert úti, — þú ert inni, —
þú ert komin langt á sveim!
5.
Andi þinn mér innst til hjarta leggur;
eiturkaldur smýgur, heggur
Jörmungandur gegnum lífsins rót.
Ótal þúsund örvabroddar glitra,
ótal þúsund sólargeislar titra,
skjálfa hræddir hörku þinni mót.
Fyrir röðli stuðlabjörgin stikna,
storm og þrumur hræðist voldug björk;
þitt nam aldrei veldi vikna,
voðaslungin eyðimörk!
6.
Segulheimur, hverjum ertú byggður,
himins reiði-logum skyggður
kring um Norðra kaldan veldisstól?
Þruma nornir þar hjá Urðarbrunni
þagnarmál, sem loka feigum munni?
Á þar möndul auðnu vorrar hjól?
Er þar ragna rún á logaspjaldi?
Rökkri þrungin dular krafta feikn?
Horfir þar frá himins tjaldi
heimsins gátu fimbul-teikn?
7.
Enginn svarar. Innst í þínu djúpi,
undír þínum fölva hjúpi,
leynist sjálfsagt líf og einhver dáð.
Vissulega hlutverk þitt þú hefur;
heljarlík, sem árþúsundir sefur;
hver má þýða heilög ragna-ráð?
Ertú eigi farg, sem þrýstir fjöður
fólgins lífs og dulins kraftar elds, —
fjörgar heilsulyfjum löður, —
læknir fjörs og stillir hels?
– – –
8.
Veiki maður, hræðstú eigi, hlýddu,
hreyk þér eigi, þoldu, stríddu,
þú ert strá, en stórt er Drottins vald!
Hel og fár þér finnst á þínum vegi,
fávís maður, vittu svo er eigi;
haltu fast í Herrans klæðafald.
Lát svo geysa lögmál fjörs og nauða,
lífið hvorki skilur þú ne hel.
Trú þú; upp úr djupi dauða
Drottins ljómar fagrahvel!
9.
Ei mun hafís eyða voru landi,
enginn granda skal oss fjandi,
meðan heil er hjartans sterka rót.
En að sunnan ógnar villirómur —
eigi að falla sannur kristindómur —
þá eru nálæg neyðar-tímamót.
Burt með efa, burt með lygi úr landi,
lífsins stríð oss boðar sigurhnoss.
Fylkjum oss með friðarbandi,
fram svo, fram, og Guð með oss!