Kvæði af Knúti í Borg og Sveini kóngi | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði af Knúti í Borg og Sveini kóngi

Fyrsta ljóðlína:Knútur er í Borgunum
Bragarháttur:Dansaferhenda með fjórstefi
Viðm.ártal:≈ 1200–1550
Flokkur:Sagnadansar
1.
Knútur er í borgunum,
hann kaupir sér frú til handa.
Sveinn kóngur fer með skipum
og siglir á milli landa.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
2.
„Heyrðu það, sæla sæta mín,
vinnum við okkur í hag,
bjóðum við Sveini kónginum
að drekka vín í dag.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
3.
Svaraði hún litla Kristín
með fagra kinn og rjóða:
Þó bjóðir þú Sveini kónginum
það vinnur þér lítinn góða.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
4.
„Heyrðu það, sæla sæta mín,
þú kannt það ekki að finna,
hvörn dag skal eg heiðra þig
og sæmir til þín vinna.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
5.
Hann sté á sinn gangvarann
með þeim sömu orðum,
þar kom hann til skipanna
þar kóngurinn sat yfir borðum.
Drósin dillaði þeim hún unni.
6.
„Vel þér komnir, Sveinn kóngur,
yfir þau breiðu borð,
viljið þér hafa lítillæti
að drekka vín í Borg?“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
7.
Og so svaraði hann Sveinn kóngur,
hann hugsaði um fyrir sér:
„Hvörsu margir mínir menn
skulu fylgja mér?
>Drósin dillaði þeim hún unni.
8.
Stígðu á þinn gangvarann
og ríddu so heim,
eg skal koma aðra leið
og verða ekki of seinn.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
9.
Upp, allir mínir menn,
og gyrðið yður með sverð
hvar sem að þér komið fram
so dýr sé kóngsins ferð.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
10.
Svaraði kóngsins merkismann,
vitur er hann og vís:
„Hvort skulum vér í hernað gá
eður hví er ferðin slík?
>Drósin dillaði þeim hún unni.
11.
Allir viljum vær með þér fara
og drekka vín í Borg.
Enginn vill í ráðum vera
frúnni að veita sorg.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
12.
Allir viljum vær með þér fara
og drekka mjöðinn hreina.
Enginn vill í ráðum vera
stoltsjómfrúna að meina.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
13.
Pellið og silkið
þar um strætið breitt
þegar hann ríki Sveinn kóngur
var til sætis leiddur.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
14.
Kristín sat á brúðarbekk,
fögur er hún sem lilja.
Þetta sór hann Sveinn kóngur,
hann kvaðst slíka vilja.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
15.
Kristín situr á brúðarbekk,
fögur er undir brún,
hárið liggur á herðar niður
rauða gulli bún.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
16.
Upp stóð hann Sveinn kóngur
borðanna að vitja:
„Stoltar frúrnar gefi mér rúm,
hjá brúðinni vil eg sitja.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
17.
Hvörsu mikið rauða gull
skal eg gefa þér
viljir þú, frúin Kristín,
játast mér?“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
18.
„Erfði eg eftir hann föður minn
bæði gull og fé,
eg þarf ekki , Sveinn kóngur,
að þiggja það af þér.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
19.
Knútur er í borgunum
hann gjörir sig so kátan,
Kristín situr á brúðarbekk,
tekur hún til að gráta.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
20.
„Heyrðu það, sæla sæta mín,
hvað þykir þér illa?
Þegar þú vilt til sængur gá
þá skal hörpu stilla“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
21.
„Eg hirði ekki um þinn hörpuslátt
né þína svensku pípu.
Það þykir mér allra mest,
kóngurinn vill þig svíkja.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
22.
„Heyrðu það, sæla sæta mín,
að mörgum hugurinn lýgur.
Sá kann oft að falla
sem öðrum fangið býður.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
23.
Upp stóð hann Sveinn kóngur
og var í hringabrynju
og so sló hann Knút unga
sem yrði ófyrirsynju.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
24.
Knútur lá á gólfinu,
honum rann blóð til dauða,
frúna tók hann sér í fang
mjög so harmarauða.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
25.
„Heyrðu það, sæla sæta mín,
auktu þér ekki harm,
minnstu mín heilar nætur þrjár
þú liggur á kóngsins arm.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
26.
„Heyrðu það, sæla sæta mín,
það kann ekki að saka,
eg skal brúðar gæta
en sveinar yfir líki vaka.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
27.
Þá var sleginn organ
og blásið í svenska pípu,
sjálfur leiddi hann Sveinn kóngur
brúðina so ríka.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
28.
Kristín situr á sængurstokk,
sínar hendur kló,
Sveinn kóngur á gólfinu
með feigu hjarta hló.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
29.
Og so svaraði hún Kristín,
meybarn má hana kalla:
„Væri eg sonur hans föðurs míns
þú skyldir ei hlæja so snjallan“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
30.
„Heyrðu það, sæla sæta mín,
auktu þér ekki sorg,
værir þú sonur hans föður þíns
lifði hann Knútur í Borg.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
31.
„Heyrðu það nú, Sveinn kóngur,
linaðu mínum harm,
láttu mig liggja nætur þrjár
mey á þínum arm.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
32.
Og so svaraði hann Sveinn kóngur,
hann leggst í sængina niður:
„Eg skal gjarnan veita þér
fyrstu bæn þú biður.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
33.
Lágu þau so nætur tvær,
geymdi hún sig so gjörla,
en á þriðju nóttinni
sveik hún hann so árla.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
34.
Hún stakk undir hans herðablað
so oddurinn óð í dúni:
„Vaki þig, herra Sveinn Kóngur,
þú lofar nú Knúts brúði.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
35.
„Heyrðu það, sæla sæta mín,
illa sveikstu mig,
það var ekki vel gjört
fyrst eg elskaði þig.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
36.
„Eg var ekki sætan þín
þá þú jókst mér sorg,
eg skal öngvan elska
eftir hann Knút í Borg.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
37.
„Það þykir mér einskis vert
að eg hlýt að deyja
en það þykir mér allra mest
að þú ert, Kristín, meyja.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
38.
Og so svaraði hún Kristín,
hún gekk sig undan tjaldi:
„Lof sé guði og Maríu meyju
að hefi eg meydóm haldið.“
>Drósin dillaði þeim hún unni.
39.
Hún gekk sig að grafarbakka
þar Knútur lá undir steini.
Sorgfullt hjartað hún bar,
það varð henni að meini.
>Drósin dillaði þeim hún unni.
40.
Á þeim sama grafarbakka
píndi hún sitt hold,
innan fárra nátta
fór so frúin í mold.
>Drósin dillaði þeim hún unni.