Norðurlandstrómet - Inngangur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Norðurlandstrómet 1

Norðurlandstrómet - Inngangur

NORÐURLANDSTRÓMET
Fyrsta ljóðlína:Ég heilsa yður, Norðurlands heimbyggðamenn
Höfundur:Petter Dass
bls.35–40
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Ég heilsa yður, Norðurlands heimbyggðamenn,
jafnt háum sem lágum, já öllum í senn,
þér bændur, ég ávarpa yður,
hvar helst sem þér búið við fjöru og fjall
sem fiskið þann gula og spyrðið í hjall
til sölu eða saltið hann niður.
2.
Og heilir, þér klerkar og kennidóms ljós,
sem kirkjunni þjónið með æru og hrós,
þér liðsmenn í lofsælu standi,
og einnig þér, valdsmenn og landstjórnarlið
sem laganna gætið og tryggið oss frið
og refsið með réttlætis brandi.
3.
Og sjálfseignarbóndi og búðsetumenn
sem baslið hér margir við ströndina enn
og húsmaður lotinn og lúinn,
og kramarar sælir og selstöðuher
og sómafólk allt er ég nefni ekki hér,
því tíminn er farinn og flúinn.
4.
Og heilar, þér konur, með kærleikans auð,
sem kryddið og sykrið vort daglega brauð,
þér meyjar og matrónur prúðar;
en einkum þó heilsa ég sérhverri sál
er siðanna gætir þó brautin sé hál,
hún fer ekki bónleið til búðar.
5.
Ég býð yður öllum að borði hjá mér
því bjart er af sól og að hádegi fer;
svo gerið mér sóma og gleði
og neytið þess brauðs sem í búrinu finnst
og bergið þér drykkinn á meðan hann vinnst
og þiggið með góðfúsu geði.
6.
Ei rýkur af útlendum réttum hjá mér
og rauðgullinn skrautmatur finnst ekki hér,
ég má ei við krambúðarkaupum;
og fram yfir bjarglegan búendaskikk
ég býð ekki heldur neinn munað í drykk
úr vínguðsins velmældu staupum.
7.
Í kónglegu eldhúsi aldrei ég var,
af útlenskum meisturum lærði ekki par
þær frakknesku súpur að sjóða;
því bið ég nú gestanna heiðvirða hring
að hæða mig ekki þó konstin sé ring
og ekki sé betra að bjóða.
8.
Hér verður ei ofrausnar veisla í dag
með veglegum diskum og hátignarbrag,
þér munuð ei melónur finna;
og hér er ei turtil og fasan að fá
né fitaðan hana og kalkún að sjá
því pyngjan hún mælir út minna.
9.
Og krydd eða negul ég ber ekki á borð
sem best verður fundið á Indíastorð
og þrúgum er fráleitt að flíka;
en vatnsbleyttur ufsi að innlendum sið
er yður til reiðu, ég vona og bið
þér látið þann rétt yður líka.
10.
Og vitið og sjáið, hér vantar ei smér
til viðbits á flatbrauð sem heimagert er
úr byggi og bakað við glæður;
svo smyrjið svo þykkt eins og þykkast er til
og þyrmið ei bjúgunum, gerið þeim skil,
og sparið ei blönduna, bræður.
11.
Og svínslæri þetta er þriflegt að sjá
sem þraukaði níu ár á sótugri rá,
ég lét það í rótinni reykja;
og ársgömul síldin sem blessar mitt búr
í bústinni tunnu og orðin vel súr
er hreinasta hunang að steikja.
12.
Ég ber yður óbreyttan gulraófnagraut,
af gúrkum og ólífum hef ekki daut,
ég vona þér tæmið þá trogið;
og hvorki neitt salat né súkkat ég hef,
en súpu með næpum ég þess í stað gef
svo engu sé að yður logið.
13.
En mysuost og kökur sem í eru egg
til ábætis síðast á borðið ég legg,
ég tala ekki um fleira af því tagi;
nú bið ég þér virðið mér betri á veg
ef borðföngin eru ekki tilhlýðileg
og sitthvað í lakara lagi.
14.
Nú munuð þið skilja hver meiningin er
sem mér er í hug, þó ég segi ekki ger
hvað undir býr öllum þeim ræðum:
að kveða og rita í hyggju ég hef
um heimaland vort nokkur fábrotin stef
með öllum þess gögnum og gæðum.
15.
Mig fýsir að kveða um fjöru og skóg,
um er skarta með eilífum snjó
og hlíðarnar, fljótin og fleira;
um hvernig í landinu búandinn býr,
um bjargræðisvegina, fiska og dýr
og annað sem holt er að heyra.
16.
Sú fræðsla er léttmeti askan í,
en ánægjuleg er hún jafnt fyrir því
og lesara ljúfum til gleði;
en ráð væri að biðja þá rómversku dís
að rétta mér hönd, því að neyðin er vís
og allur minn verki í veði.
17.
Því drjúgur er spölur til dísanna fjalls
og djöfullinn fláráður búinn til alls,
og margur er vegfarans vandi;
í náttmyrkrum leyna sér ókind og ár,
á eyðislóð gera þau villu og fár
og hóta mér háska og grandi.
18.
Á dísir að heita er heimskingja plag!
svo hrindum þá, kristnir menn, frá oss í dag
því myrkri sem truflar og tefur,
og leysum af þankanum heiðninnar haft,
vér höfum í Noregi anda og kraft
sem tunguna og gáfurnar gefur.
19.
Hví leitum vér Drottins svo langt yfir skammt?
hans ljós er í veröldu hvarvetna jafnt
um eilífð þá aldirnar renna;
hver fyllir með tign sinni himin og haf?
er hann ei sá Drottinn er mannkyni gaf
sinn vilja og vísdóm að kenna?
20.
Sú villa er hláleg sem heiðingjar tjá
að hann eigi bústaði fjöllunum á
en sé ekki drottinn í Dölum;
ég skeyti ei hót um svo heimsklega trú
en heiðra þann Drottinn er jafnt á sér bú
í hreysum og háreistum sölum.
21.
Nú bið ég þann Drottinn sem alls staða er
að ómálga fjöðrin í hendinni á mér
hans nafn skuli mikla og mæra;
ég veit að af sjálfum mér ekkert ég er
en allir þeir limir sem skenkti hann mér
hans lof skulu fagnandi færa.
22.
Svo látum þá vonglaðir, vinir, úr höfn,
og vindum upp segl yfir rjúkandi dröfn
í herra vors háleita nafni;
það hallar að kvöldi og húmið fer á
en hættunum öruggur stýri ég frá
með stjörnurnar fram undan stafni.