Hestavísur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hestavísur

Fyrsta ljóðlína:Með litinn þann staka, sem stöðuvötn fá,
bls.0
Bragarháttur:Sex línur (þríliður+) fer- og þríkvætt aBaBCC
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1896
1.
Með litinn þann staka, sem stöðuvötn fá,
er stormskúrin þýtur við bakkann
í augunum stóru, sem starandi gljá,
með stolta og hnarreista makkann:
Þú hrekkur við fákur, og flögrar,
og festu og kjark mínum ögrar.
2.
Með útflenntar nasir og hringbogin hné
og hnyklaða vöðva á bógum,
með sporin svo kvikleg sem kveikt í þeim sé,
eða kitli þig jörð undir hófum,
uns svitinn af brjóstinu bogar
þú bitilinn japlar og togar.
3.
En hvað var það annars sem sárast þér sveið,
sem sjóðandi eldur þig brendi?
Ó, var það öll kvölin sem kynið þitt leið
af keyrinu í mannanna hendi?
– Svo espa mig ógnir í sögum
frá okkar og feðranna dögum.
4.
En kannske er það drambið sem greip þig svo geyst
því gæðing þig húsbóndinn kallar —
sem kóngs-þrælnum greifatign göfgari leist
en gersemar frelsisins allar,
og hreykinn í hlekkjunum rembdist
ef harðstjórinn konungur nefndist.
5.
En ættin vor beggja er frá ómunatíð
í undarlegt bandalag gengin.
Og samvinnan okkar við sigur og stríð
er saga, sem skráð hefir enginn —
og sjaldan það var sem við vörðumst,
til valdanna oftast nær börðumst.
6.
Af samtökum þeim hefir unnist svo á
og æxlast margt glapvíg og dáðin.
Við þolið og fráleikann fengum þér hjá,
en framlögðum valdboð og ráðin.
Og kannske er þinn ættleggur eldri,
þó okkar sé nú talinn heldri.
7.
Í misendis sambúð af heift hefir herst
vor hugur og blíðkast í snatri.
Í félagsskap okkar margt grunsamlegt gerst
í glóandi vinskap og hatri,
og varla eg veit það með rökum
hvor valdur er helst þar að sökum.
8.
Vor viðskipta-saga er þannigin þá:
að þú hefir bitið og lamið
og varist að komast svo vald okkar á,
en við höfum þrælkað og tamið,
og auðmýkt og krossburð þér kenndum
vorn kristindóm inn í þig brenndum.
9.
Þú fóstbróðir gerðist, að herleiða heim
og hjálpa oss mönnum til valda.
Að ofsækja dýrin og útrýma þeim
sem aftóku lög vor að halda
en hlutskipti hefirðu ei fengið
af herfangi, og lint eftir gengið.
10.
Og enn ertu nefndur inn þarfasti þjón’
og það er nú afgömul saga.
Þú ert okkur vinur og voði og tjón,
sem varst okkur stundum til baga,
og einatt til böls eins oss barstu,
og bani okkar margsinnis varstu.
11.
En við höfum ríflega borgað hvert blak,
og brekin þér launað að mestu,
og svipuna reitt um þitt blóðrisa bak
í brekkunni uns dauðvona hnéstu —
með klyfjarnar kenjalaus dróst þú
uns kraftarnir þurru og dóst þú.
12.
Þú hvíldarlaust sumarið út eða inn
dróst ársæld að skepnum og mönnum
en jökullinn hái var húsveggur þinn
og heystallur: mór undir fönnum,
er miðsvetrar nákuldinn næddi
og norðanhríð rofalaus æddi.
13.
En það er — og margt sem eg minnist ei á
svo myrkvað, að trauðlega veit eg:
hvort manninn eg heldur í hestinum sá
eða hestsál í manninum leit eg.
Og dýrt yrði dóm á það leggja
þeim dreng, sem er góðvinur beggja.
14.
En til okkar stundum var tryggð þín svo rík,
að týndur og heiminum gleymdur
þú hugdapur vaktir við húsbóndans lík
uns höggdofa frá varstu teymdur —
og mælt er að helja með harmi
þér hitt geti lífæð í barmi.
15.
Og við höfum smálaunað vinskapinn þinn,
Og veitt þér af sjálfra vor gæðum.
Já, tekið þig með okkur orðalaust inn
á ódáins landið á hæðum,
og ort um, að hittast þar aftur,
sem yngdist hver göfugur kraftur.
16.
En skilnað vorn nálgast þeir, senn hafa sagt
og samvinnu héðan af nauma —
á útsæinn höfum við hnakk okkar lagt,
við hafstorma gufunnar tauma,
ef reiðtygi á ljósgeislann legðum
við líklega kvaddan þig segðum.