Illugadrápa | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Illugadrápa

Fyrsta ljóðlína:Gjálpandi bárurnar gljáðu af deginum
bls.401–404
Bragarháttur:Átta línur (þríliður) ferkvætt: AABBCCDD
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1895
Flokkur:Söguljóð
1.
Gjálpandi bárurnar gljáðu af deginum,
glampaði dagsbrúnin austur á leginum.
Stórveðra hrollur var enn þá í öldunum,
ypptu við klettana bláhvítum földunum.
Drangey var risin úr rokinu og grímunni,
rétti upp Heiðnaberg hvassbrýnt að skímunni.
Drangana hillti úr hafsjónum flæðandi,
hríðin var slotuð og stormurinn æðandi.
2.
Árgeislinn fyrsti um Tindastól tindraði,
tindurinn efsti á húminu sindraði.
Hvítnaði rökkrið í rof fyrir löndunum,
Reykjaströnd grilltist með sæbröttu ströndunum.
Náttskuggafyllurnar fjarlægðust dvínandi,
fjörðurinn opnaðist, breiður og skínandi,
suður til heiða frá sæbotni skáhöllum –
sólheimur ljómandi, varðaður bláfjöllum.
II
3.
Þaklausa skálanum skautaði lýsingin,
skuggaleg var þó og óvistleg hýsingin:
Grettir í fletinu fallinn og örendur,
fimm lágu andvana spellvíga gjörendur.
Kurluðu búkarnir bærðust og titruðu,
blóðpollar storknir á gólfinu sytruðu,
lágu sem hráviði hrunið í drífunum
hrækasir skornar og leifar af hlífunum.
4.
Þorbjörn um skáladyr lágar út létti sér,
leiddi út Illuga fangaðan eftir sér,
hraustasta drenginn í tápsflokki tvítugra,
tvígildi sérhverra miðlunga þrítugra.
Útlægan frænda sinn aðstoða vildi hann,
aleinn í sektina bróðurnum fylgdi hann.
Hagsmun á sjálfhlífnis verðlagsskrá valdi ekki
viljinn hans ungi og kostnaðinn taldi ekki.
5.
Næturlangt varðist hann varglyndu fjöndunum,
vörnin sú krappa var torleyst af höndunum:
Hjó frá sér brandinum bitrum og skýfandi,
bróðurins herðum með skildinum hlífandi.
Háði við ofurlið orustu stríðustu
andartök Grettis að verja til síðustu.
Varð ekki særður né sóttur með skjómanum,
sigraður loksins í skjaldborgar drómanum.
6.
Grettir var hniginn og unninn og andaður,
ákafi sjálfs hans á liðsmun var strandaður.
Hann, sem til síðasta og sárasta dugaði,
sjálfur var rór, þó að ofraunin bugaði.
Glottandi á þá, sem í herkví hann hringuðu
horfði, á meðan um forlög hans þinguðu.
Lokið var starfinu, stríðinu, raununum!
Stóð hann þar feimulaus, beið eftir laununum.
7.
Loks mælti Þorbjörn svo: „Eið þinn og efndirnar,
Illugi, þigg ég, sem gefa upp hefndirnar.
Ann þér svo lífsins. Ef afsegir, hegg ég þig,
ófús í hættu við sax þitt að leggja mig!“
„Höggðu þá“, ansaði Illugi glottandi,
eiðspjöll og lífhræðslu Þorbjarnar spottandi.
Vömmin og ragmennskan, viðsjár að leita sér,
vann það sér nauðugt og sneypt af að beita sér.
III
8.
Raun var að líða frá langframa gæskunni,
ljósinu, deginum, frægðinni, æskunni.
Allt breiddi faðminn við lífinu laðandi:
landið og hafmið í sólroða baðandi,
víðfleygar, stórlátar vonir í barminum,
vaskmennis traustið á kraft sinn í arminum,
óskin að lifa í ljóðsnilld og sögunum
landsins síns, þegar að kveldaði dögunum.
9.
Hvað var það allt móti ógoldnu hefndunum
eða sem níðingur bregðast í efndunum?
Dauðinn varð leiðin að ljósinu, sanninum.
Lífið varð blettur á hetjunni, manninum!
Skap hans þann dug og þá djörfungu gaf honum,
drengskapinn lífselskan níddi ei af honum.
– Sloppinn við þulu um ævileið öfuga,
Illugi á söguna stutta, en göfuga.