Í leiðslu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Í leiðslu

Fyrsta ljóðlína:Nú kliður er þagnaður, kominn er nótt
Höfundur:Valdimar Briem
bls.9–11
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1906
1.
Nú kliður er þagnaður, kominn er nótt,
og kyrrð er hér inni.
Þó get ég ei sofnað, mér samt er ei rótt
í sænginni minni.
>Mér sorg býr í sinni.
2.
Í húsrennum ískrar, það gnauðar við gafl
það glymur í þaki.
Þar stormurinn leikur sitt stórfenga tafl
með stríðefldu taki.
>Því von er eg vaki.
3.
Nú rammtraustu viðirnir vagga sem strá
í veðrinu stríða.
En hvað mun um skúturnar hásigldu þá
á hafinu víða?
>Nú köldu’ er að kvíða.
4.
Guð hjálpi þeim skipum, sem hrekjasl um vog
á hafinu kalda!
Guð hjálpi þeim mönnum, sem misst hafa tog,
við mastrið sér halda!
>Því æst, er nú alda.
5.
Það vakir nú margur og værð kann ei fá,
er voðinn á dynur,
í háska’ er nú margur á helköldum sjá
vor hjartkæri vinur.
>Og stormurinn stynur.
6.
Hvað? Getur nú sigið mér blundur á brá
á beðinum heima?
Eg stari’ út á hafið, hinn helmyrka sjá,
Þar hrannirnar streyma.
>Er dátt mig að dreyma?
7.
Um húmskeiðið dökka ég horfi yfir mar,
sem hábjartan daginn.
Eg flökta sé skjálfandi skúturnar þar
og skipsflök um æginn.
>Já, svalt er um sæinn.
8.
Nú byltir sér skútan, hún brotnar nú senn
í boðanum stranga.
Í ruggunni síðustu’ í rokinu menn
í reiðanum hanga.
>Þá lífsstund svo langa!
9.
Guð, veittu þeim lausnina, stytt þessa stund,
nú stórum að sverfur.
Nú fólkið er þreytt, gef því farsælan blund,
nú fullur er skerfur. –
>Alt hljóðnar og hverfur.–
10.
Eg lít yfir öldurnar, allt er nú lægt,
það er sem í draumi.
Nú vagga sér bárurnar hljóðlega og hægt
í hægfara straumi.
>Þær gleymt hafa glaumi.
11.
Á öldunum sé ég að eitthvað er kvikt,
og áfram það bærist.
Það fer um mig hrollur, það hér er ei tryggt,
sjá hingað það færist.
>Og hjarta mitt hrærist.
12.
Það líður í blænum sem blaktandi skip,
það bylgjurnar stikar.
Hvort lít ég þar vofu? hvort sé ég þar svip?
það svífur, það kvikar.
>Í bjarma það blikar.
13.
Nei, það er ei vofa, ég þekki það nú
að það er minn herra.
Nú þarf ei að hræðast fyrst hjá mér ert þú,
allt hverfur hið verra.
>Og þrautirnar þverra.
14.
Að hugsa sér slíkt um guðs heilaga son:
að halda’ hann sé vofa!
Þú lifandi drottinn, í dauða mín von,
ég dýrð þína lofa! –
>Nú sætt er að sofa.