Króka-Refs rímur – Áttunda ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Króka-Refs rímur 8

Króka-Refs rímur – Áttunda ríma

KRÓKA-REFS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Af Sónar flóðum sækja menn
bls.75–87
Bragarháttur:Ferskeytt – Víxlhent, hályklað
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Rímur
1.
Af Sónar flóðum sœkja menn
Suptungs fundinn langa,
að tóna hljóðum tek eg enn,
tregt vill stundum ganga.

2.
Hátta fengur og hróðrar slag
heldur þvinga náði,
smátt því gengur Sónar sag,
að samhendinga gáði.

3.
Þungur fylldi þankinn seinn
þelið hryggðar tama,
ungur vildi aldrei neinn
elska dyggða frama.

4.
Gleymskur sló í veður og vind
vitra manna ráðum,
heimskur þó, því hyggjan blind
hitti ei rann á dáðum.

5.
Spakleg höld með hefð og snill
hvörgi lœra vildi,
makleg gjöld því œskan ill
ellinni tæra skyldi.

6.
Síður gáti setti eg í
synda hrekki kalda,
blíður láti lausnarinn því
lastanna ekki gjalda.

7.
Hentar að sönnu vísna völ
vífunum sýna kátum.
Menntagrönn er mœrðin föl.
Mansöng dvína látum.

8.
Sumir kalla eg lykli lítt,
þó löginn Kvása hirði.
Frumhent varla fæ eg hnýtt,
fram þó rása yrði.


9.
Felldi eg óð í fyrra sinn
um frækinn Ref og mengi.
Heldur þjóð um hafið svinn,
hvörgi tefur lengi.

10.
Flæðar dýr á fiska grund
fauk í göldum stormi.
Ræðan snýr frá Ref um stund
róms með völdu formi.

11.
Til Víkur aftur vísan fer,
viskutrauð um strengi,
þar ríkan skafta skýfir ber
skjótt frá auð og mengi.

12.
Svanga lysti soðning í
seggi vinnulúna.
Ganga fýsti garpa því
að glóðar inni núna.

13.
Ein á öllum þrengdi þrátt
þrauta neyð, þá sýta
beina spjöll á boðinu dátt,
bóndann dauðan líta.

14.
Rjóðir branda brjótar skjótt,
bleikir í sorgum megnum,
hljóðir standa ýtar ótt
yfir Þorgils vegnum.

15.
Sendu fleina hlynir hast
á hlýra fljótt að kalla,
kenndu mein um kviðinn fast,
kunni að ótti falla.

16.
Gengur trauður sendisveinn,
sárum girtur vanda.
Þengill dauður þar lá einn
og Þorsteinn firrtur anda.

17.
Annt varð svo af atburð þeim
ítrum hneita sveigi,
vantar tvo, hann víkur heim,
vill þá leita eigi.

18.
Bænda liðið bjóst að strönd,
er brögðin heyrast mundu,
rænda friði, auð og önd
Orm og Geira fundu.

19.
Fréttir lýða sveitin senn,
sögnin fór með skyndi.
Þetta víða virtist enn
vera stórtíðindi.

20.
Fæsta hrelldi fallið hans
né fjögra verstu þegna,
næsta héldu so til sanns
sigri mestum gegna.

21.
Síðan Gunnar svoddan spyr,
sá var Þorgils mágur,
um blíðu brunna hitnar hyr,
hvörgi sorgarlágur.

22.
Spöku rönnum réði að
runnur kesju mildi,
vökumönnum bauð og bað
að bíða á nesinu skyldi.

23.
Næmi gefur nóg fyrir sann
í nauða kífi gildu.
Kæmi Refur, rekkar hann
ræna lífi skyldu.

24.
Haust nam líða, so er sagt,
svoddan spara færri,
hraustir víða héldu vakt
húsum þara nærri.

25.
Lengi Refur renndi gegn
á Ránar spöku veldi.
Enginn hefur af honum fregn,
oft þó vöktun héldi.

26.
Ráðið spaka hoskur hélt,
þó halur á borðin gengi.
Láðið taka, fyrir löngu selt,
lýða þorði engi.

27.
Um vetrar stríða vorið eitt
virðar efa stytta.
Hvetur síðan Gunnar greitt
garpa Ref að hitta.

28.
Vesturbyggðum umsjón að
ýtar veita skyldi,
festur hryggðum hölda bað
hans nú leita vildi.

29.
Prófar fjöll með ferska för
firða sveitin víða.
Þó var öll til gefins gjör
garpa leitin stríða.

30.
Gunnar kvíða kastar þó,
kvaðst ei standa í vafa,
unnar stríðan ætlar sjó
ýtum grandað hafa.

31.
Liðu fjegur árin út,
ei til þegna spurðu,
niður trega settu sút,
sögðu gegna furðu.

32.
Brugðu leitum þegnar því,
þjósti safnar engi,
hugðu reitum hafsins í
hefði kafnað mengi.

33.
Vígafrekur vella grér
veik um sjávar minni.
Hníga tekur hróðrar kver
höldum frá að sinni.

34.
Af ljóða porti um Noreg næst
náms eg svipti hurðu,
þjóð að skorti hirðir hæst,
herra skiptin urðu.

35.
Var á öngu yndi von,
ýta þjáði vandi.
Haraldur kóngur Sigurðarson,
sá tók ráð í landi.

36.
Var sá maður vísir með,
veifa falnum kunni,
þar og glaður gisti féð.
Gramur halnum unni.

37.
Brjótur skjóma Bárður var
beint að heiti fundinn,
njótur róma Þjassa þar
þegnum veitir mundinn.

38.
Festi bönd á flæðar jór,
för því lýsa náði,
vestur um land með virðing fór
víst að Ísaláði.

39.
Báru ess lét halurinn hægur
hvörju bandi tjalda.
Á ári þessu ætlar frægur
að Ísalandi halda.

40.
Burðugur gekk í ræsirs rann
rekkurinn svaramildi,
spurði þekkur hilmir hann,
hvört nú fara skyldi.

41.
Gætir herja máls af mennt
mætur þjón nam lýsa:
Strætið skerja skyldi rennt
skjótt að fróni ísa.

42.
Orma jaðra eyðir snjallt
afrek tjáði fínum:
„Forma aðra för þú skalt
fyrst að ráðum mínum.

43.
Láttu ganga í Grænland enn
greitt um hrönn á flæði,
máttu þangað sækja senn
svörð og tönnur bæði.“

44.
Með blíðu segist Bárður þó
buðlungs hlýða ráði.
Þýður fleyi þegar á sjó
þegninn hýða náði.

45.
Stóð á vindur stærsta part,
straums þó ylgur gengi,
virðum hrindur veðrið hart,
varpaði bylgjan lengi.

46.
Skjótt Grænlandi skatnar ná,
skip í hafnir undu.
Fljótt á sandi firðar gá,
á fleyinu stafninn bundu.

47.
Gunnar langa veturvist
veitti komumanni.
Runnar spanga léku í lyst,
líður svo með sanni.

48.
Sveigir spjóta sinnis hýr
sæmdir kunni megna,
segist hljóta beint hvað býr
í brjósti Gunnars fregna.

49.
Frá íslenskum manni mest
mál það fló fyrir löngu,
sá af grenskum gabbið verst
gisti þó með röngu.

50.
„Heldur sein varð hefndin grimm“,
hann nam so að greina,
„kveldi á einu feðga fimm
frækinn vo alleina.“

51.
Þagði varla þrautin slétt,
Þundur stála bráði
sagði alla söguna rétt,
satt og málið tjáði.

52.
Furðusamar fréttir að
fengust sverða kundi,
spurðu framar halinn hvað
af honum verða mundi.

53.
Gunnar mælti hefðarhár,
herma lést með sanni:
„Unnar stælti stormur klár
steypti versta manni.

54.
Hræddur flúði hér í frá,
hætta vegs ei tafði,
klæddur skrúði kólgu á
karlinn sex þó hafði.

55.
Um vetur stríðan hélt á haf,
hefur því megnað aldri.
Getur síðan enginn af
örva fregnað Baldri.“

56.
Branda aftur brjótur spyr,
hvört búið sé hans að leita,
Randa raftur rétt sem fyr
réði andsvör veita:

57.
„Nærri og fjærri um fold og fjöll
með fylking manna þýða,
hærri og smærri héruðin öll
höfum kannað víða.“

58.
„Undur halda brögnum ber“,
Bárður fús nam svara,
„lundur skjalda ef látinn er
ljóst í húsi þara.

59.
Þá er stokkin lukkan ljúf
laus hjá hringa runni,
blá ef sökkir glýjan gljúf
glöggt og þvinga kunni.

60.
Gæfumestur þótti þar
þegn í mennsku gengi,
ævi lestur ekki var
af yður grensku mengi.

61.
Veita hnekkir heiðri kann,
hirðir brands nam skilja,
leita ekki ljóst fyrir sann
lýðir hans nú vilja.

62.
Glaðir könnum landið ljóst,
lýðir ef mætti efna.
Það nú mönnum í þanka bjóst,
að Þorgils ættir hefna.

63.
Förum báðir bragnar víst“,
Bárður kann so inna.
„Spörum dáð og spektir síst
spillvirkjann að finna.“

64.
Talar rekkur rétt án kífs
hjá randa sveigir svinnum:
„Skal hann ekki á láði lífs
ljóst, ef eigi finnum.“

65.
Veturinn leið, en lýðum þó
lysting magnar hreina.
Létu skeið á saltan sjó
setja bragnar eina.

66.
Níu og þrjá með geðið glatt
Gunnar valdi drengi,
glýju á so héldu hratt,
hér við dvaldi engi.

67.
Býður styggur beint án efs
Bárður frá að drífa.
Lýður hyggur leita Refs,
loksins má það hrífa.

68.
Hreinum togum hlunna hest
höldar þekkir bundu,
í leynivogum leita mest,
lengi ekki fundu.

69.
Að kvöldi síð við kennda jörð,
klókt er ráðið beggja,
öldu skíð í einum fjörð
ýtar náðu leggja.

70.
Krókur beygðist þegar þrátt
þessi um landsins reita.
Klókur hneigðist Bárður brátt
að botnum hans að leita.

71.
Mengið lenti síð við sand
senn hjá höfða einum.
Enginn nennti nú á land,
náðum vöfðust hreinum.

72.
Fýsti landið bauga bör,
Bárð, með hreysti kanna,
snýst að sandi snotur og ör,
snarskyggnastur manna.

73.
Björt var nótt, so nöðru skers
njótar vegana kenna.
Fort og ótt nam hirðir hers
á höfðann þegar renna.

74.
Horfði fjærri á hafsins reit
hauður og langa geima,
borði nærri bátsins leit
bólur af þangi sveima.

75.
Hvarf nú skjótt, eg skýri frá,
skerja hinn græni fengur.
Þarfur ótt það undrast má,
ofan að sænum gengur.

76.
Sá nú fjörð með sundin mjó
sveigir falsins stinni,
lá með ]örðu langur þó,
líka dalsins mynni.

77.
Að báti ofan Bárður gekk,
til byrðings skjótt nam venda.
Kátur sofa kappinn fékk.
Komin er nótt á enda.

78.
Spurði hratt þá hölda að,
hvort hefði fjörðinn kannað.
Furðu glatt lét Gunnar það
gulls fyrir Njörði sannað.

79.
Þegnum sagðist þegar um stund
þrautir harðar senda,
gegnum lagðist lítið sund
að laxa jarðar enda.

80.
Myrkurs fengur mönnum þrátt
mundi í hömlum standa.
Styrkur gengur Bárður brátt
burt að gömlum vanda.

81.
Spónahrúgu hetjan klók
hitti og þeim að gáði,
sjónadrjúgur suma tók,
síðan geyma náði.

82.
Gekk á skip og gladdist ótt,
gjörðist hagurinn sóma.
Fékk í svip að falla nótt,
fagurt nam dagur rjóma.

83.
Trés réð spæni sýna senn
sögðu föruneyti.
Hlés þá rænir elda enn
ýtum svörin veitir:

84.
„Fundist hefur ei fyrr um land
fegra smíð í bragði.“
„Mundi Refur haga hand
hafa“, lýðurinn sagði.

85.
„Hans var smíðið haldið frítt,
hagastur manna fundinn.“
Ansar lýðum Bárður blítt:
„Betur skal kanna lundinn.

86.
Að lífi ættum leita hans,
látum för ei dvína.
Kífi hættum síst til sanns,
sverða bör að pína.“

87.
Báðir sögðu blíðu feng
bjóðast enn fyrir löngu.
Bráðir lögðu á byrðing streng,
búast menn til göngu.


88.
Lestra greið eru ljóðin síst,
lítt eg vanda tíma.
Vestra skeið á veginn snýst,
verður standa ríma.