Króka-Refs rímur – Þriðja ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Króka-Refs rímur 3

Króka-Refs rímur – Þriðja ríma

KRÓKA-REFS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Dvalins áður duggan flaut
bls.21–33
Bragarháttur:Gagaraljóð – óbreytt
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Rímur
1.
Dvalins áður duggan flaut,
dregin í þagnar landið inn.
Set eg fram úr sagnar laut
Suðra far í þriðja sinn.

2.
Margir hafa mœlsku gnótt,
minnið skarpt og hugvit skýrt,
veita kunna vel og fljótt
Viðrix krúsar blandið dýrt.

3.
Þó má sumum segja af,
sannarlega því var ver,
að dýrsta mennt, sem drottinn gaf,
til dárs og hœðni brúkuð er.

4.
Safnast löngum syndagráð
í sinnu rótum þessa manns,
sem yrkir jafnan agg og háð
um ávirðingar náungans.

5.
Einn ef ratar raunir í,
rétt er löngum verða má,
hvör, sem gjörir gabb að því,
góðu bœttur þykist sá.

6.
Soddan skáld sér setji í lund,
sannlega dragi af allan grun,
lausnarinn fyrir lánuð pund
Ijósan reikning heimta mun.

7.
Í önd og lífi sá er sæll,
er synda versta forðast gróm
og ekki kallast ótrúr þrœll,
þá yfir herrann setur dóm.

8.
Auma að sönnu segi eg þá,
er semja löngum spott og níð.
Alla tek eg ýta frá,
sem erlegt fremja kvœðasmíð.

9.
Þó litla hafi eg ljóða mennt,
lof sé guði, tala eg það enn,
aldri skal eg óforþént
yrkja vont um neina menn.

10.
Nú skal enda óðar kver
og ekki ræða þar um meir,
þó hœðnum mönnum hœfi ver,
hinna góðu njóta þeir.

11.
Nógu er ljóðastarfið strangt,
styttist lítið sagan fín.
Veit eg þér mun þykja langt,
þiljan gulls, að bíða mín.

12.
Til mansöngs ekki mín er lyst,
mál er langt, en efnin þver.
Gagaraljóðin lœst eg fyrst,
lauka skorðin, bjóða þér.


13.
Norðra lét eg hafna hauk
hlaupa áðan þar í kaf,
sem Barði sínu lífi lauk
og litlar fóru sagnir af.

14.
Þorgerður það frétta fékk,
flestra tekur að halla dug.
Til eldaskála auðþöll gekk,
ei var henni glatt í hug.

15.
Hryggða örin heiftar stinn
hyggju náði fljúga um beð,
eikin hringa arfa sinn
augum þegar líta réð.

16.
Síðan mælti sætan vís,
sútin lá í huganum römm:
„Sorgar með mér sinni rís,
þá sé eg slíka ættarskömm.

17.
Sterk ógæfan stríddi á mig,
og stóra eykur mér það pín,
aumingjann þá ól eg þig
til óvirðingar frændum mín.

18.
Dýrri þætti dóttir nú“,
dúka þöll með sorgum kvað,
„ef giftast mætti manni sú,
sem meiri styrkur væri að.

19.
Fyrir yfirgangi gjörist ei ró,
grasið eytt, en deyddir menn.
Lyddan þín, þú liggur þó
og læst það ekki vita enn.“

20.
Refur nam þá rísa úr kör,
rakna tók af svefni brátt,
greiddi móður sinni svör
sæmileg á þennan hátt:

21.
„Deilan fyrsta þyki mér þín
þeygi mjúk og næsta löng.
Vissuleg er vonin mín,
að verði hin síðsta nógu ströng.“

22.
Höggspjót eitt þar hanga réð,
halurinn þangað skundar brátt,
flæðar eldinn fagran með,
faðir hans hafði áður átt.

23.
Hrifsar það með hægri mund,
hafði á sér ferðasnið
og til dyranna strax á stund,
stóð þá ekki lengi við.

24.
Stinn var ekki stöngin klökk,
studdi henni fram á leið,
og þar síðan eftir stökk,
öll var næsta ferðin greið.

25.
Augum hvimar allt um kring,
ösku rykið bar við ský.
Virðar meintu vitfirðing
vera honum sinni í.

26.
Húsfólk margt að vinnu var,
votta þetta bókin kann.
Kenndu manninn þessir þar,
þeim var skemmt, er litu hann.

27.
En hann gaf sig ekki að því,
áfram heldur rétt í stað
breytilegur bragði í,
bæ Þorbjarnar stefndi að.

28.
Heim á hlaðið Refur rann,
reiðisvip í brjóstið fékk.
Öngan sá hann úti mann,
óboðinn til bæjar gekk.

29.
Í stofunni vífa heyrði hjal,
hlýða náði á það senn,
hringa skorðir höfðu á tal:
„Hvort mun Þorbjörn sofa enn?“

30.
Skundar inn í skálann hljótt,
er skálka makinn fyrir var.
Sínum bregður svefni fljótt,
síðan spurði: „Hvör er þar?“

31.
Hinn nam svara „Hér er eg.“
Hvílumaðurinn undrast nú,
þegar í stað af þjósti tér
Þundur stála: „Hvör ertú?“

32.
Ansar hinn, eg innt so fæ
óðar víst í stirðum þátt:
„Maður einn af öðrum bæ.“
Aftur bóndi sagði brátt:

33.
„Nafnið veit eg eitthvört átt.“
Ansar hinn á sama veg:
„Raunar um það ræði eg fátt,
Refur“, sagði hann „heiti eg.“

34.
„Aumlega mér aftur fer“,
eyðir hrings nam tala um sinn,
„þig að ekki þekki eg hér.
Þú ert velkominn, Refur minn.“

35.
Klæðum fleygði sá, er svaf,
sest þá upp í rúmi mitt.
Halurinn mælti: „Herm mér af,
hvört er núna erindi þitt?“

36.
Refur tók þá rétt til máls,
róms af brunni þanninn tér:
„Nú er það“, segir njótur stáls,
„næsta komið undir þér.“

37.
Ansar hinn, sem heiftir bar:
„Hvörninn má það koma til?“
Hlés gaf elda hirðir svar
hæfilegt um viskugil:

38.
„Hér er kominn að biðja um bót
fyrir Barða dauðan, húskarl minn,
er þú drapst með illskuhót
einmana við skálann sinn.

39.
Þigg eg víst af þínu fé,
það eg kann að fá í stað,
líkar mér þó lítið sé,
ef líst þar mönnum sómi að.“

40.
Þorbjörn mælti: „Það er vel,
þó eg nokkru bæti hann,
að litlu ekki til eg tel
þó tæri fé fyrir veginn mann.“

41.
Svarar Refur sinnis kyr:
„Sæmilegra þykir hitt,
að bæta það, sem braustu fyr,
besta er það ráðið mitt.“

42.
Hinn með skimpi sagði senn,
svellur heiftin brjósti í:
„Vígabót skal veita enn,
verða mun þér sæmd að því.“

43.
Sængurklæðin kænn upp reif,
kunni sá að skýfa rönd,
hníf og brýni bráður þreif,
brynju eld í hægri hönd.

44.
Brá í loftið breiðum fal,
bauð að Refur tæki við:
„Deigt nú bjóða deigum skal.“
Dristuglega snerist við.

45.
Ei var Refur í ráðum seinn,
að rekkju, frá eg, bóndans óð.
Inn um brjóst gekk undateinn,
oddurinn fast í hjarta stóð.

46.
Lét þar Tobbi líf og fé,
læstur dökkum heljarhnút
dauður niður í hvílu hné.
Hljóp þá Refur úr bænum út.
47.
Viðarkesti vendir að,
var það komið so fyrir mig.
Rekkurinn tók nú ráðið það,
réði þar að hvíla sig.

48.
Hlaðsól gengur húsi úr,
er hlýddi þeirra ræðu á,
rénar lyst við rauna skúr,
renna blóð á gólfið sá.

49.
Tvinna Hildur tigin bað
tíðindin að prófa ný.
Dauðan litu ljóst í stað
liggja bóndann hvílu í.

50.
Lýðir gjörðu að leita Refs
lengi mjög á degi þeim.
Horfa þótti allt til efs,
enginn sá hann ferðast heim.

51.
Nóttin huldi himin blá,
hætti að leita dróttin fín.
Refur kreikar kesti frá,
kemur á fund við móður sín.

52.
Eikin spjalda spurði að,
hvað spakur frétti nú til sanns.
Refur væna vísu kvað,
var hún gjör um atburð hans.

53.
„Hafðu þökk“, kvað hringa spöng,
„héðan af skal þér ástin lént.
Heyri eg nú, að heljargöng
hefur versta manni sent.

54.
Færið hingað hesta tvo,
hafa skaltu launin víst.“
Refur gekk og gjörði svo,
greiðlega til ferða snýst.

55.
Söðull prýddur silki þar
settur var nú annan á,
þar til varning besta bar,
sem brúðurin honum tærði þá.

56.
Klæði gaf honum vella Vör,
var sú dygg og lyndistrú.
Rekkum sýndist randa bör
rösksamlegastur manna nú.

57.
Móins bóla mælti brík:
„Mun eg ráðin kenna þér,
athuga skaltu orðin slík,
þér ei er lengur vært hjá mér.

58.
Grím eg nefni geira hal,
gistu þar um litla hríð,
bak við oss í breiðum dal
býr sá einn, hvörs lund er þýð.

59.
Kænn er hann að kljúfa rönd,
kveðju mína honum ber.
Beinan veg á Barðaströnd
til bróður míns hann fylgi þér.

60.
Gestur hans er heitið mætt,
honum þig eg senda vil,
þar til vort er vígið bætt
og verður annað ráða til.“

61.
Son sinn kvaddi sætan kyr,
sagði allt um málin vönd.
Létti ekki ferðum fyr
en fann nú Gest á Barðaströnd.

62.
Heilsar blíðum bónda þar
bendir gerða rétt með sann.
Veitir auðs gaf vitur svar:
„Velkominn“, að sagði hann.

63.
Spyr tíðinda spektarmann,
spjóta hlynur greina réð
allt, hvað sannast vita vann,
vígið sitt og áform með.

64.
„Viðtekt unna eg vil þér“,
ansar Gestur rétt í stað,
„hafðu sess og mat hjá mér.“
Mjúkt réð hinn að þakka það.

65.
Ullur seims, sá eldri var,
um íþróttir spurði greitt.
Komumann gaf settur svar,
sagðist ekki kunna neitt.

66.
„Sé eg þér er að sönnu lént“,
sagði Gestur, „það er ei skrum,
sú hin besta mannvits mennt,
þó mjög viti eg þar lítið um.“

67.
Líður so fram langa stund,
letrin fá nú þetta téð,
allt var blítt um frænda fund,
féll þeim báðum vel í geð.

68.
Eitt sinn Gestur innir greitt,
ætið var hans hyggjan svinn:
„Af þínum mun eg manndóm eitt
merkja, Refur frændi minn.

69.
Hagastan að þenki eg þig.“
Þá nam Refur ansa brátt:
„Hvör hefur sagt þér so um mig?“
Svarar Gestur á annan hátt:

70.
„Það hafa kvenna keflin innt,
klofin rétt og stuðluð mjó,
skilst mér hvorki skakkt né vint,
skal eg það betur reyna þó.

71.
Ræðu minni gef að gát“,
Gestur talar lyndis hreinn,
„þú skalt seggurinn selabát
sannlega mér smíða einn.“

72.
„Óbilanleg efni þá“,
ansar Refur máli því,
„muntu hljóta mér að fá,
meir en nægir bátinn í.

73.
Margra er svo lundin lest,
ljóst eg yður þetta tel,
efnum kenna um það mest,
ef ekki verður smíðað vel.

74.
Seggja enginn sé hjá mér,
svo eg þessu haga vil.
Einhvör segir, ef allvel fer,
að annar hafi stoðað til.“

75.
Honum var fengið hrófið eitt,
harla stórt á grænum völl,
mektarhátt og býsna breitt,
og borin þangað efnin öll.

76.
Hans var næsta hyggjan fröm,
hagleiksart þá bestu kann.
Efnin flest og tólin töm
tók so sem að vildi hann.

77.
Var þar knörr í kólgu steypt,
kastað síðan landið á.
Hafði Gestur hrófið keypt,
í hendur fékk það Refi þá.

78.
Vaknar snemma vaskur sveinn,
víkur nú til smíða ranns,
að sinni iðju ætíð einn,
enginn maður sá til hans.

79.
Mánuði leið þanninn þrjá,
þetta Gestur hugsa vann,
trúan þjón réð senda að sjá
selabát sem gjörði hann.

80.
Gjörði hinn sem bóndi bað,
bátinn sá og gekk so heim.
Seima Baldur síðan kvað
satt af öllum smíðum þeim.

81.
„Lægis hind eg leit í svip,
að lögun er hún væn að sjá.
Mér líst þetta mektar skip,
sem mætti sveima hafi á.“

82.
Gestur bað hann segði síst,
sá var þjón á dyggðir fús.
Tvennar fjórar vikur víst
vaktaði Refur smíðahús.


83.
Rénar minni, ræmist rödd,
ræðan sniðug ending fær.
Hér skal siðug kæran kvödd,
knörrinn Frosta lending nær.