Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Til Guðmundar Kr. Guðmundssonar íþróttakennara | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Til Guðmundar Kr. Guðmundssonar íþróttakennara

Fyrsta ljóðlína:Sú verður ei fjölréttuð máltíð hjá mér
bls.105–108
Bragarháttur:Sex línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaBcc
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1915

Skýringar

Undir kvæðinu stendur:
„31. marz 1915.“
1.
Sú verður ei fjölréttuð máltíð hjá mér
og margvíslegt er það sem veldur.
Neinn lofgerðarvelling á borðið ég ber
né bríxlyrða selbita heldur.
Þann óvinafagnað ég einungis býð
Guðs andlega voluðum trantaralýð.
2.
En skerfinn minn falslausa fús er ég til
í fagnaðarsambú það leggja
sem hérna var stofnað um stundarkorns-bil
und stefnuhlyn dalanna tveggja.
Mín föng reyndust Ásunum lokuð og læst
en lagt skal það fram sem er hendinni næst.
3.
Og biðja þá gestinn að gera svo vel
ef girnilegt nokkuð hér þætti
á meðan ég borðsálminn, Guðmundur, gel
að gömlum og þjóðlegum hætti.
– Ég þekki þig, sunnlenski garpur, ei grand.
En gott var þitt erindi norður í land.
4.
Því þú komst hér boðinn og búinn til vor
að benda oss, á svo vér finnum
þau feðranna eldgömlu íþróttaspor
sem oss voru gengin úr minnum
og bæta við nytsömum nýjungum þeim
sem nú eru að ryðja sér brautir um heim.
5.
Og því fékkstu í dvöl til þín dálítinn hóp
af drengjum sem menn áttu að verða
en drottinn vor þríeinn of þreklitla skóp
en þú skyldir stæla og herða
og gera úr þeim karlmenni, tápgóð og traust
er taki þó fallinu kinnroðalaust,
6.
sem reynist það auðvelt er oss var um megn,
og óskaddir megi þeir kafa
þeim harðasta ísbyl og eldraun í gegn
sem ofkælt og skaðbrennt oss hafa,
og lyfta sér upp á og yfir þann múr
er ókleifur lá um vort fangelsis búr.
7.
Ég man hvað þú heillaðir, himinninn blár,
og hróðurorð fjarlægra stöðva.
En vér bældum æskunnar þreklitlu þrár
og þrælkuðum taugar og vöðva.
Svo brutum vér leikföng vor, örvar og álm
og ortum í kyrrþey vorn greftrunarsálm.
8.
Og frágangur okkar þó verri ei var,
en varla til jafnaðar betri.
En Guðmund þá engan að garðinum bar,
þótt gæfist oss tómstund á vetri,
sem lagfærði ómynd vors íþróttafálms
og umbætti steypu hins nýbrædda málms.
9.
En til vor kom læknir og „letragrér“ svo
ef við líkam og sál þurfti að gera,
og þó að ég eindregið elski þá tvo
er án þeirra betra að vera:
Þótt mæt sé öll hjálp þegar meinkvillar þjá
er mætara að koma í veg fyrir þá.
10.
Vér eigum ei héðan af viðreisnar von
og vitum það fullgjörla sjálfir.
En eigi sér feðurnir fræknari son
þá falla þeir einungis hálfir.
Og þeim eru umframspor arfanna kær
sem áleiðis þokast, og markinu nær.
11.
Og þá væri Sunnlending síðla of hælt
og sú væri koman með höppum
ef hann gæti norðlensku strákana stælt
svo stæðu þeir fastar á löppum
og bakfiskameiri, með beinlegra snið,
og bringspalahvelfdari og stærri en við.
12.
En umbæta, herra, þín handaverk svo,
ég held það sé ofraun á viku,
því þig tók það sannlega tímana tvo
að teygja úr þeim hálfa aðra stiku.
Á Guðmundar kynngi og krafti’ hef ég trú,
en krafan er öldungis gegndarlaus sú.
13.
En hitt er að gæti ’ann þá hornsteina lagt
sem heppnist þeim oná að byggja
með elju og þolgæði sýnt þeim og sagt
hvað sérlegast verður að tryggja
svo grandi ei stormar né steypifljóð nein
en standi allt grópað í jarðfasta hlein.
14.
Í von um þú hafir það getað og gert
og glætt hjá þeim margan þann neista
sem vel geti yljað þeim, illviðri hvert,
þá annarra skjólhýsi freista.
Mun best að ég hætti nú borðsálmi þeim
og biðji svo gæfuna að fylgja þér heim.
15.
Og helst svo og langhelst er líður fram stund
að leiða þig til okkar aftur
á nóttleysudægrum, er gagntekur grund
hinn gróandi, norðlenski kraftur.
Þá drýpur hér hunang um dalina enn
– og drengirnir þrjátíu og sjö orðnir menn.