Vantrúin | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vantrúin

Fyrsta ljóðlína:Hún kom eins og geisli í grafarhúm kalt
bls.19–20
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) aaBB
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1891
Hún kom eins og geisli í grafarhúm kalt
og glóandi birtuna lagði yfir allt –
og aldirnar gegnum mér glóa hún virtist,
sem gagnsæ þýðing mér heimurinn birtist.

Og gryfjan mín sýndist mér veraldarvíð,
og verðandi stór eins og eilífðartíð –
við ljós hennar bjarta hver skíma varð skærri,
en skuggarnir ljótari, grettari, stærri.

Og verðmætin breyttust. Sumt gullið varð gróm,
og gjaldeyrir svikinn og fjárhirsla tóm.
En hitt var þó meira að skúmið í skotum
og skarnið var alsett með gimsteinabrotum.

En eitt var þó berast: Í sjálfum mér sá
ég sams konar gróm og í kringum mig lá –
svo glitti þar líka í gimsteinabrotin,
sem glóðu þar líka um rykugu skotin.

Hún kom eins og geisli í grafarhúm kalt
og glóandi birtuna lagði yfir allt –
hún brá fyrir, kvísluð, sem kveldleiftur glampa,
en kveikinn minn snart hún og tendraði lampa.