Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Heimförin | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Heimförin

Fyrsta ljóðlína:Á milli okkar Gunnars var alls engin ást
bls.550
Bragarháttur:Sex línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaBcc
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1901
Flokkur:Söguljóð

Skýringar

Undir titli stendur: „Sögusvið skozku „kálgarðs-skáldanna“ er stælt.“
Fyrsta erindi fylgir ekki rímkröfum háttarins ef rétt er letrað í Andvökum.
1.
Á milli okkar Gunnars var alls engin ást,
eg unni’ honum rétt eins og manni
sem fátt ber af öðrum, sem er ekki hrak,
en einungis meðallags granni. —
Hún gengur nú löngum svo veröldin vor!
Og við förum æviskeið, sína leið hvor.
2.
Eg þekki svo vel þennan vandaða mann —
ef viðskipti átt hefðum saman
og eg nóg af vitleysu, af vitsmunum hann,
eg vissi hvert fjár-brellu gaman
og ágirndar kapp hefði knúið hann á,
kaupunum mig inn að skyrtunni flá.
3.
En hefði svo fyrstur — ef vesaldóm við
hann vissi mig hungraða rýju,
í vasann sinn gripið — að guðs-barna sið
Og gefið mér bréf-dali tíu.
Sko, hann hafði „mannast“, og lands-siðinn lært!
Eg lafði ekki í honum né gat um hann kært.
4.
En svo þegar Gunnar að lokunum lá
og læknirinn bað mig að vaka
þá nóttina hinstu — því hann væri frá,
og hún myndi yfir það taka.
– Því sótthitinn æstist en sefaðist ei –
eg sár-kenndi í brjósti um hann – kvað ekki nei.
5.
Því hafir þú vakað hjá sjúkum, og séð
þau sárindi er undan ei víkja,
en þér ekki sollið né sviðið um geð,
að sjá engin ráð til að mýkja:
Það sakar mig ekkert en sannar mér hitt,
að sé þó til kaldara blóð en er mitt.
6.
Ef þekkti eg bjargræðis bóngóða lund
eg bæði’ hana er heyri þau veinin:
Æ, gef þú mér, kærleikur, kröm hans um stund,
að hvíla þau líðandi beinin –
en oftast nær lendir við lið-veislu þá,
að lagfæra koddann og vatns-dropa ná.
7.
En vöku-nótt sú varð mér þó ekki þá
eins þreytandi og gert hafði von um.
Hann kveinkaði ei vitund, en vakandi lá,
því veikin tók ráðið frá honum,
og hugnun mér var það, sem vissi’ honum sveið –
sá veslingur hafði nú gleymt hvað hann leið.
8.
Það heyrðist ei angist í óráði hans,
hvert augnablik fannst mér hann kætast.
Og ræðan var eintal ins ánægða manns
er óskir og vonir hans rætast.
Eg greip, honum fannst hann á ferð úti i geim,
til fjarlægrar ættjarðar, rétt kominn heim.
9.
Þó þráðinn hann sneri í ruglaðri röð
og rekti upp aftur og drægi,
var efnið svo rígfast og röddin svo glöð
og réði það glöggt, eins og sæi
hvert hálftalað orð vera atvik og stað.
— og atriðið man eg — og hérna er það!
10.
„Það dagar, það birtir – hve indæl ei er
sú aðkoman, loftið og jörðin!
En það þyrfti lifandi ljós á það sker
á leiðinni hér inn á fjörðinn.
Af því skal nú verða! Nei, það er ei kalt –
eg þekki mig aftur. Sko, hér er það allt!
11.
Og tún eru grænkuð — eg gleymt hafði því,
þau greru svo snemm-bært á vorin!
Við lögðumst fyr innar – úr ósunum ný
er ár-möl í víkina borin.
Sú höfn þarf að sópast – þá sést hvernig fer!
Hve sárþráður fögnuður landtakan er.
12.
En hlykkjótt er gatan upp hjallann og þröng
en hún verður greiðari seinna!
Og túns milli og hafnar er leiðin of löng —
Eg legg hana sléttara og beinna.
Um sjálfseign eg ljæ ekki landssjóðar veg,
það lifir hér skóg-kjarr! Og það mundi eg.
13.
En það er ei agnsemi að þessum mó,
og eitthvað þarf við hann að gera!
Og því kom eg utan með útsáð og plóg —
og ófrjó mun jörðin ei vera!
Þó korn yrði hismi fæst hálmflekkja græn —
já, hér kann eg við mig. Hún Kvígrund er væn.
14.
Nú styttist til bæjar, það líður á leið!
Frá læknum er steinsnar i hlaðið —
nei, Sveinn, ertu hérna! Eg heyrði — mér sveið,
að hagur þinn tæpt hefði staðið.
Við sveitina lagsmaður? Lagast það skal!
Hve ljúft er við fornvin að komast á tal.
15.
Við lækinn eg vefstólinn set niður senn –
og sveitin min á þá að finna
að þar munu hnignun og hálfþroska menn
fá hæli og gagn henni vinna!
Þá léttast af bágstöddum beiningamenn —
en björt eru vorkveld i hlaðinu enn!
16.
Í dyrunum mamma! Hve vissi hún mín von?
Eg varðist þess — sagði það öngum!
Þú eldist ei grand! sem átt alfara son
með ellisvip, hærur i vöngum.
Sko þarna er skipið mitt — fleytan er full
með fémuni og peninga! Eg á það gull.
17.
Og nú kom eg alfarinn — nú verður að
þeim notsælu peningum gaman.
Því oft varð mér hálfvegis harðbýlt við það
og hugfall, að draga þá saman —
en leyndu því samt, þó að sagt hafi þér
og segðu það engum að ríkur eg er!
18.
Því mér varð til óyndis nágranna nauð
og nuddið, hvað hér ætti að gera.
Eg kom heldur sjálfur með áform og auð
en orðfár, og hjá þér skal vera.
Menn trúa best sjón þegar sagan er ný!
Er sólarlag nema hér varpanum í?
19.
Ef rætt er um fósturjörð, framkvæmd og dug
sem fjölmörgu í hag ætti að snúa,
þá datt mér oft Ljósaland hérna í hug,
og hugði þar gott til að búa.
– Það svalar við kveldið! Eg frostkulið finn
á fótunum — mamma, við setjumst nú inn“.
20.
Og svona leið nóttin i sjúklingsins rann,
hann svona fann land sitt og bæinn —
eg sá að hann þreyttist, en þess gat ei hann,
hann þagnaði rétt undir daginn!
Hann Gunnar var hvíldur og kvittur við heim,
og kominn að lokunum alfarinn heim.