Þjóðhátíðarsöngur á Þingvelli (1874) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þjóðhátíðarsöngur á Þingvelli (1874)

Fyrsta ljóðlína:Nú roðar á Þingvallafjöllin fríð
bls.130
Bragarháttur:Sex línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaBcc
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1874

Skýringar

Kvæðið er prentað í Víkverja 15. tbl. 2. árg. 1874 og þá nokkuð breytt frá þeirri útgáfu sem prentuð er á bækur. Þar munar mestu um að Steingrímur hnikar bragnum úr frjálsum forlið yfir í skyldubundinn og hefur þurft að umorða víða fyrir vikið.
Þó að hátturinn sé hreinn þríliðaháttur setur Steingrímur iðulega tvílið í annan og þriðja braglið hverrar línu.
Nú roðar á Þingvalla-fjöllin fríð
að fullnuðum þúsund árum.
Þau fagnandi benda þeim frjálsa lýð,
sem flykkist á hraunkletta bárum,
til himinskýja nú hljómi vor óður
frá hjartastað vorrar öldruðu móður.

Þér, ljóskrýndu hnjúkar og leitin blá,
þú, Lögberg og þingflötin kæra,
þú, Ármannsfell, Skjaldbreið og Almannagjá
með iðunnar hvítfossinn skæra,
og hraun og standberg með helgum vættum
sem heyra vorn söng fyrir steinagættum.

Þér munið fræga frelsisins öld,
hve fögur var gullaldar stundin,
þá sól skein á stálklædda feðranna fjöld
og frjálsbornu, svanhvítu sprundin,
þá lífið svall alfrjálst með æskunnar blóði
af ástum, drengskap og hetjumóði.

Við bergmál frá dáinna dýrðarheim
nú dynjandi strengirnir titra
í íslenskum hjörtum og hreyfa með eim
oss huggleði sæta og bitra.
Vor augun myrkvast af móðgum tárum.
Ó, manna þig, Ísland, og rís með árum!

Sá staðurinn, sem vér á stöndum, er vor,
hér streymir andinn hinn forni;
hér vængina reynir vort þjóðhuga þor
á þúsund áranna morgni,
sem haukur ungur frá hamra strindi
hefja vill flug yfir jökultindi.

Vér heitum að efla þinn orðstír og hag –
vér elskum svo landið vort kalda
sem gaf oss lífsins hinn ljósa dag
og líkblæjum vorum skal falda;
Það er of gott til hins auma og lága,
ei of veikt til hins göfga og háa.

Guð styrki hvern frækinn og frjálsan mann
sem framför sannasta þekkir,
sem landslýðinn bætir og berst fyrir hann
uns bresta þeir síðustu hlekkir;
svo náum vér fornaldar helguðu hrósi
í himnesku frelsis og sannleiks ljósi.

Nú bergmálið, fjöll! Vorrar vonar klið
með vaxandi fagnaðar gengi
og knýið þér fossar við klettanna rið
á kólguflóðs raddþunga strengi;
við endrhljóm vorra hamrasala
vér heimtum vort þjóðlíf úr neyðardvala.