Grettir sækir eldinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Grettir sækir eldinn

Fyrsta ljóðlína:Gnæfir Drangey hátt úr hafi
bls.25–28
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1933
Flokkur:Söguljóð
1.
Gnæfir Drangey hátt úr hafi,
hrynur brim við klettadranga.
Útlagar í eyðikofa
una vetrarnóttu langa.
Grettis ævi ömurlegri
aldrei var um svellahauður.
Engar bjargir, auðn og myrkur,
eldurinn að morgni dauður.
2.
Alla langar líf að verja,
leita bjargar, gæfu að freista.
Hraustleikinn í efldum örmum
eykur þor og vonarneista.
Hugsaði Grettir hetjuráðin,
af hjarta létti kvíða fargi.
Fyrir norna nöprum gusti
nú var ekki skjól á Bjargi.
3.
Renndi hann yfir Reykjasundið
rólegum en hvössum augum.
Viljans eldur æsti að lokum
afl í hinum stætu taugum.
Ekkert hræddist hetjan sanna
hafsins öldum mót að taka.
Allir þurfa elds að njóta
þó unnið hafi margt til saka.
4.
Eiga líf sitt undir þrælum
aldrei hefir giftu valdið.
Ýmsir hafa eins og Glaumur
iðkað svikin bak við tjaldið.
Ógæfan um ævidaga
alltaf fylgdi Gretti sterka
þótt hann einn af öllum bæri
afl til mestu hreystiverka.
5.
Flaug hans hugur heim að Bjargi,
hetjan fann til þungra saka.
Ásdís móðir mætra sona
mæddist ekki að biðja og vaka.
Hún sem allra heitast unni,
hinsta og fyrsta skjól hins dæmda,
málsvarinn sem mýkti sárin
Miðfirðingsins burtu flæmda.
6.
Grettir aldrei álög hræddist
eða kunni af hólmi flýja.
Hafði hann klofið bratta boða,
brosti í kamp við hættu nýja.
Betra er að hyljast hafs í öldum,
horfinn samtíð níðinganna,
en varnarlaus sem fórn að falla
fyrir svikum Önguls manna.
7.
Enginn fylgdi útlaganum
ofan að köldu fjörugrjóti.
Hafði hann oft frá æskudögum
ólánsvindum sótt á móti.
Grettir þögull gekk til strandar,
gnæfði að baki hamraveggur.
Löngum aldan þreytir þunga
þann sem einn á djúpið leggur.
8.
Köld við Drangey kvikar alda,
kveður sólin Tindastólinn.
Reynir fyrst á þrek hins þjáða
þegar fokið er í skjólin.
Hniklaðist afl í efldum vöðvum,
í augum sigurvonin birtist.
Sundið greip á samri stundu,
söluvoðarkufli gyrtist.
9.
Hetjan náði heim að Reykjum
hjálparlaus og einn frá sænum.
hreyfði glettinn gamanmálum
við griðku unga þar á bænum.
Ennþá lifir öld í minni
Íslands frægsta og mesta sundið.
Aldrei hafa Ægisdætur
armlög Grettis líka fundið.
10.
Aldrei verður afreksverkið
úr Íslands barna minni hrundið.
Meðan sær við Drangey drynur
dreymir mann um Grettis sundið.
Ættlerar, ef hættan hræðir,
hika og skríða undir feldinn.
Ef að kynni að kulna glóðin, –
hver vill reyna að sækja eldinn?