Ellakvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ellakvæði

Fyrsta ljóðlína:Fann eg á skógi fyrir mér mann
bls.110–117
Viðm.ártal:≈ 1400
Fyrirvari: Þarf að bera texta Bergsbókar betur saman við prentun kvæðisins í Ígsvþ.
Eg vil greina ef mér launar eikin vella
hvað þar var í húfunni hans Ella.
1.
Fann eg á skógi fyrir mér mann,
eg fór þangað til veiða.
*Klatsekk bar á herðum hann,
hafði för svo greiða.
Skoðaði eg í skrjóðinn þann,
mér skildist gella
hvað þar var í húfunni hans Ella.
2.
Þar var inni kambur klár
og kubbur brýnis þungur,
stæltar axir stórar þrjár,
steðji og járnapungur,
nokkur saumhögg, nipur ljár
og niðurfella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
3.
Skafla voru þar skeifur tólf,
*skrifl með ólum breiðum,
brýnd og fáguð beislahvolf
og bólur af turna reiðum,
lyklar sex með lásagólf
og losuð mella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
4.
Alfær smiðja þar inni var
og einninn kertahjálmur,
renndir fjórir reksteinar
sem rauðagull og málmur,
fimmtán kopars fjórðungar
og falleg hella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
5.
Tálguhnífar tvennir þrír
og tólf bætur af skinni,
urgur nafar, ekki rýr,
og annar þar hjá minni.
Hófspeld margt í henni býr
og hafurs drella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
6.
Þar voru inni taldar tvær
tunnur af frönsku víni,
ostar fimm og uxalær
og ok af feitu svíni,
höfuðin bæði, horn og klær.
Það heyrðist gella:
Það var allt í húfunni hans Ella.
7.
Hestur var þar hálfbirktur,
hundrað selaslæður,
feitur uxi ferhyrndur
og fimmtíu skötumæður,
ellefutíu apynjur
í sem ei má hrella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
8.
Sauðargærur sex og þrjár
og sjötíu heykrókar.
Ekki þurfti um öll sín ár
að útvega skinn til brókar.
Var þar hrífur og vallarklár
og vel stór hella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
9.
Kjallari einn með kryddað vín
og kæsi dallar átta.
Aldrei fékk hann auðar lín
upp hjá sér að hátta
utan hún fengi elsku brím
en engan skella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
10.
Kertapípur og kápa ein,
keröld og dallar níu,
sígyrtur fyrir silkirein
og sandur af ormastíu,
lesprjónar úr látúnstein
og ljónshaus skella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
11.
Engin bók þar inni var
utan Brönu saga.
Iðkaði hann ekki annað par
alla sína daga.
Fríða orðið fannst ei þar,
sú frægust perla.
Það var allt í húfunni hans Ella.
12.
Húfan var svo harla stór
sem hæsta fjall að líta,
huldi þó varla heilakór
með hundsskinnsfóðri hvita.
Einn var laskinn ofinn mjór
og opin þella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
13.
Tunnu stampar tólf og þrír,
tíðum má það inna,
sextán tunnur sérhvör nýr,
sagt er tæki ei minna.
Af öllu þessu ei var rýr
sá unnur vella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
14.
Átján uxa og eina kú
í henni hafði hann líka.
Aðra eins að eignast nú
enginn mann kann slíka.
Engin vildi auðar brú
sig að honum fella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
15.
Í henni hafði hann öll sín gæði,
öllu framar en greinir kvæði.
Þreyttur var hann af þungri mæði
með þjáning svella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
16.
Eiga vildi ætíð meira,
af öllum hlutum, munuð þér heyra:
Fimmtán pípur foldar dreyra
fékk hann í sinn bella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
17.
Liðug töng þar látin var
sem logandi járnið klípur,
þrettán tóbaks þumlungar
og þrjátíu tóbakspípur.
Tólf voru dósir tvennar þar
sem tíðum smella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
18.
Ástré var þar inni eitt
og áttatíu hnísur,
hrútshorn margt og folald feitt
og fimmtíu þar með lýsur,
byssan steytt með *bragðið breitt
sem brátt kann smella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
19.
Oldenborg þar öll komst inn
og eyin Jótlands breiða,
hennar masttrén harla stinn
með hörku miklum reiða
við réð standa stafninn hinn
og stýrið svella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
20.
Átján voru þar uppstökklar
með erðis heila múra,
sem komnir voru úr kólgumar
og kollurinn af honum búra,
botninn líka breiður og snar
og bægslið svella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
21.
Nauthvalirnir níu og þrír,
náfiskur og rýnir,
skrímsli flest og skógardýr
og skollabelgir fínir,
Hafnarfjall sem harkan lýr
og Hrugnirs kella.
Hún var komin í húfuna hans Ella.
22.
Endakólfur úr einni kú
einninn var þar líka.
Þetta styrkir þegna bú
ef þrifleg fylgir píka,
brauðstampur fyrir börnin þrjú
og blómleg pella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
23.
Sauðarleggir sáust þar
sextíu og átta betur.
Valnapoki að *vísu var,
vættir tvær, þess getur,
hundsskinn mörg og mörstokkar
og músafella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
24.
Átján vættir af æðadún
í henni var líka,
sjötíu höfuð af sauðum og kúm
og sextán lærakríkar,
fjörutíu færirúm
og fiskihaus kella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
25.
Hrútsvömb var þar hálfsundruð
og hörpudiskar settir,
rostungstennur tvöhundruð
og tíu dalir sléttir,
léreptstunna upptundruð
og öldruð kella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
26.
Sessur fimm og sængur tvær
sáust þar líka inni,
hrútar tólf og hundrað ær.
Hafandi er slíkt í minni.
Loga aldrei ljósin skær
sem lýsnar vella.
Þær voru og í húfunni hans Ella.
27.
Álftir voru inni þar
áttatíu líka,
fjögurhundruð fluggammar
og fálkakynið ríka.
Spóinn ekki spakur var.
Hann sprakk að vella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
28.
Þar nú inni að vísu var
vötnin stöðu fjegur,
sandlægur og síldrekar
og silungur ógnarlegur,
Ingólfsfell og Eldeyjar
og *ígrá kella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
29.
Þar voru inni marflær, mýs
og margslags uggareita,
fjandans margar færilýs
og frábær maðkaveita,
þrjátíu hestar þurrt með hrís
að þétta og fella
því holótt var í húfunni hans Ella.
30.
Þar voru inni svo til sanns
sjötíu hákarlsbeitur,
hinn og annar hrævafans
og hrossamagáll feitur
og aðrir hlutir innan lands
sem eykst af rella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
31.
Byrðingur einn og bátar sjö
búið um í skorðum,
hundrað voru þar talin tré
með tuttugu eikiborðum,
háls af einni háfmere
og hrosshaussskella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
32.
Laglegur bor og laðir tvær,
lítt var fansinn naumur,
þrjúhundruð og þrjátíu rær
og þar með járns skipssaumur.
Maður er ei minnisfær
hann muni það gella
hvað þar var í húfunni hans Ella.
33.
Þar var inni fuglinn frár,
fálkar nokkrir bjartir,
hreiðurálftir hvítar þrjár
og hrafnar átján svartir.
Með organs hljóð um ýmsar krár
þar álkur vella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
34.
Þar voru inni, þess eg get,
þrennir risar níu,
útburður, sem illa lét,
og afturgöngur tíu.
Svikarinn sá sem Satan hét,
hann sást þar gella.
Hann var líka í húfunni hans Ella.
35.
Óðinn kóngur einn var þar
og annar tignarligri,
Grímur Ægir gildur og snar
og Gebal sá hinn digri,
skrípilegar skessurnar
þar skræktu gella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
36.
Þar voru inni Þór og Týr
þrúgaðir tundri ála,
sjö graðungar, sextán kýr
og sjötíu kokkálar.
Hóran mörg í henni býr
og hrúgur *pella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
37.
Úlfur, tófa, arnir, björn,
átta af hverju peri,
malthálftunna, mikil kvörn
og málfaðmur af sméri,
kambur stór og keitutjörn
þar kjaftar smella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
38.
Aspar risi óð þar inn,
yddum hélt á vigri,
Busla kerling blökk á kinn,
Bárður Dumbsson digri.
Af því segi eg ei öllu um sinn
sem eg sá gella
hvað þar var í húfunni hans Ella.
39.
Lýsistunna, sýrusár,
sekkir tólf af skyri,
lóðir, snæri, artug ár
innan dyrnar fyrir,
haus af búra, hestur frár
réð hófum smella.
Það var allt í húfunni hans Ella.
40.
Húfuna þessa hef eg séð,
hún var gjörð með ráðum,
reirð í bagga reipum með
og rennt að högldum báðum.
Átján voðir eg fæ téð
fór í hana gella.
Þó fór meira í húfuna hans Ella.
41.
Ekki neitt eg ýkja skal:
Þá upp var hún gjörð að nýju.
Í einum laska að vísu var
voðir áttatíu,
átján þúsund auka tal
fór í hana gella.
Það fór allt í húfuna hans Ella.
42.
Lagt hefur það á lágan mann
lauka eik með kæti
sem eftir toga efnið spann
í annað sinn við bæti.
Hróðurinn minn svo hrörna vann,
það heyrist gella
hvað þar var í húfunni hans Ella.


Athugagreinar

1.3 Klatsekk] trúlega villa fyrir klakksekk Ígsvþ.
3.2 skrifl] skrift Ígsvþ.
18.5 bragðið breitt] brögðum breytt Ígsvþ.
23.3 vísu] vissu Ígsvþ.
28.6 ígrá kella = Kellingin við Reykjanes? Ígsvþ
36.7 pella] þella Ígsvþ.