Kvæði af Tófu og Suffaralín | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði af Tófu og Suffaralín

Fyrsta ljóðlína:Valdimann í lundinum lætur gullið slá
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Sagnadansar
1.
Valdimann í lundinum lætur gullið slá,
hann plagar sig út að ríða,
sextigi nagla í söðulboga þrjá.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
2.
So var hún Tófa litla til ferðanna fús,
hún plagar sig út að ríða.
Alla nátt klæddi hún sig við kertaljós.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
3.
Tófa litla klæddi sig í stakkinn blá,
hún plagar sig út að ríða,
gull með hverjum sauminum lá.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
4.
Hún fór í þá skyrtu smá,
hún plagar sig út að ríða,
sjö álfkonur á sumri saumuðu þá.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
5.
Tófa litla sté á hvítan hest
og plagar sig út að ríða.
Allra kvenna reið hún mest.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
6.
Tófa litla kom í borgarhlið
og plagar sig út að ríða.
Þar var hann Valdemann með sitt lið.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
7.
Tófa litla talar við Gunnar prest
og plagar sig út að ríða:
Hvort hefur hann Valdemann meyna fest?
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
8.
Veit það sá hinn ríki, fastnað hefur hann mey
og plagar sig út að ríða,
Suffaralín í Óðinsey.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
9.
Valdemann talar við sveina sín,
hann plagar sig út að ríða,
kallið á hana Tófu litlu, hún komi til mín.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
10.
Axlar hún yfir sig safalaskinn,
plagar sig út að ríða.
Se gengur hún fyrir kónginn inn.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
11.
Hægra fæti í höllina sté,
plagar sig út að ríða:
Sittu heill, kóngur, hvað viltu mér?
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
12.
Kóngurinn klappar í sæti hjá sér,
plagar sig út að ríða:
Tófa litla, sit hjá mér.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
13.
Heyrðu það nú, Tófa mín,
og plagar sig út að ríða,
hvörsu vel annstu henni Suffaralín?
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
14.
So vel ann eg henni Suffaralín,
plagar sig út að ríða,
sem hönum Christofforus syni mín.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
15.
Gef eg henni gangvarann grá,
plagar sig út að ríða,
drottningarnafnið ofan á.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
16.
Valdemann talar við sveina sín,
hann plagar sig út að ríða,
kallið á hana Suffaralín, hún komi til mín.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
17.
Axlarhún yfir sig safalaskinn,
plagar sig út að ríða.
So gengur hún í höllina inn.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
18.
Hægra fæti í höllina sté
og plagar sig út að ríða.
Sittu heill kóngur, hvað viltu mér?
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
19.
Kóngurinn klappar í sæti hjá sér,
plagar sig út að ríða.
Suffaralín, þú sit hjá mér.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
20.
Heyrðu það nú, Suffaralín
og plagar sig út að ríða.
Hvörsu vel annstu henni Tófu mín?
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
21.
So vel anneg henni Tófu þín,
plagar sig út að ríða,
sem þeim glefsandi vargi á skóginum hrín.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
22.
Gef eg henni búgarða þrjá,
plagar sig út að ríða.
Brenni hún kvik fyrir alla þá.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
23.
Gef eg henni fingurgull sjö,
plagar sig út að ríða.
Brenni hún kvik fyrir gjörvöll þau.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
24.
Hvort viltu heldur við Valdemann skrafa,
plagar sig út að ríða,
ellegar með mér í baðstofu að fara.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
25.
Fyrr vil eg við Valdemann skrafa,
plagar sig út að ríða,
heldur en með þér í baðstofu að fara.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
26.
So var hún Suffaralín í höndunum stinn
hún plagar sig út að ríða,
dregið gat hún Tófu litlu í baðstofu inn.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
27.
Christophorus, sonur minn, hjálpaðu mér,
plagar sig út að ríða.
Hún Suffaralín ætlar að kæfa mig hér.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
28.
Hvað mun eg, móðir mín hjálpa þér,
plagar sig út að ríða.
Tólf brynjaðir menn halda mér.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
29.
En so svaraði hún Suffaralín, í hliðfjölum brast,
og plagar sig út að ríða:
Hvör er sá Herjans son að hnikar so fast?
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
30.
Þetta tala hann Valdemann í manna þröng
og plagar sig út að ríða:
Því kemur hún ekki Tófa mín að nætursöng?
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
31.
En so svaraði hún Suffaralín af lymskunni rjóð,
hún plagar sig út að ríða:
Hún Tófa þín er orðin baðstofumóð.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
32.
Betri var hún Tófa mín í náttserki sín,
og plagar sig út að ríða,
en þú Suffaralín í Svíaríkjum þín.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
33.
Betri var hún Tófa mín með eina kú
og plagar sig út að ríða,
en þú Suffaralín með fimmtán bú.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
34.
Værir þú so *kallmaður sem þú ert sprund
og plagar sig út að ríða,
láta skyldir þú lífið í samri stund.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
35.
Værir þú so *kallmaður sem þú ert víf
og plagar sig út að ríða,
í baðstofunni skyldir þú láta þitt líf.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
36.
Það skal eg, Suffaralín, skaprauna þér
og plagar sig út að ríða:
Þú skalt aldrei koma í sæng hjá mér.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
37.
Hann tók í hennar hvítu hönd
og plagar sig út að ríða,
snaraði henni út yfir ljórabönd.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.
38.
Aðra festi hann frúna sér
og plagar sig út að ríða.
Kristín var hún nefnd fyrir mér.
Sprettur eitt laufið í lundinum so víða.

(Íslenzk fornkvæði I, bls. 6–12; AM 147 8vo, bl. 4r–7r)