Kvæði af herra Jóni og Ásbirni | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði af herra Jóni og Ásbirni

Fyrsta ljóðlína:Herra Jón og Ásbjörn
Viðm.ártal:
Flokkur:Sagnadansar
1.
Herra Jón og Ásbjörn,
þeir voru bræður.
Vissa eg öngva volduglegri
borna frá mæður.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

2.
Það heyrða eg fyrst
á þinginu talað:
Herra Jón hann vildi sig
til Jórsala fara.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

3.
Ásbjörn tók sína kápu
og fylgdi honum á leið:
„Skilju við, bróðir,
vænti eg þín heim.“
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

4.
Það er hann ungi Sigurljótur.
Hann vinnur sér flest í hag.
Festi hann frúna Sesselju
þennan sama dag.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

5.
Það er hann herra Ásbjörn,
hann er sig röskr drengur.
Hann stakk so til brúðgumans
að hann lifði ei lengur.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

6.
Tekinn var hann Ásbjörn
og klæðunum flettur,
fjötrum bundinn
og í myrkvastofuna settur.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

7.
Herra Jón í hafinu
hann dreymdi þungan draum.
„Snúið aftur skipunum
og gefið að því gaum.“
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.
8.
„So ganga
mér draumarnir til
sem að hann Ásbjörn bróðir minn
þurfi manna við.“
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

9.
En so reru þeir
af so miklum móð
undan hvörjum hárlokkinum
stökkva tók þá blóð.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

10.
Herra Jón hann gengur sig
manna fyrstur á jörð.
Hann sá hvar að smalamaðurinn
rak sína hjörð.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

11.
„Vel þú kominn, herra Jón.
Þú ert þig maðurinn vitur.
Þinn bróðir Ásbjörn
í myrkvastofunni situr.“
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

12.
„Hafðu þökk fyrir, ungi sveinn,
þú sagðir mér þar frá.
Pung og belti gef eg þér
og búgarðana þrjá.“
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

13.
Óhræddir gengu þeir
í myrkvastofuna inn.
Hjuggu þeir af hönum Ásbirni
öll fjötur í senn.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

14.
Herra Jón hann gengur sig
í höllina inn.
Brugðið hafði hann brand
undir safalaskinn.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

15.
Það vann hann kónginum
fyrsta mein:
Hjó hann fyrir borðunum
hans kertasvein.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

16.
„Heyrðu það nú, herra Jón:
Slíðra þú þinn brand.
Gifti eg þér frúna Sesselju
og gef eg þér Grikkland.“
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

17.
„Eg hirði ekki, kóngurinn,
hvort þú bannar eða býður.
Burtu skal frúin Sesselja
áður en sólin aflíður.“
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

18.
Það vann hann kónginum
annað grand:
Hjó hann fyrir borðunum
hans merkjamann.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

19.
„Heyrðu það nú, herra Jón:
Slíðraðu þitt sverð.
Láttu mig nú njóta
þinnar Jórsalaferð.“
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

20.
„Þú þarft ekki, kóngurinn,
að hyggja að því háð.
Eg skal mig til Jórsala
ef eg lifi í ár.“
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

21.
Ekki þurrkaði hann herra Jón
af brandinum blóð.
Þar hjó hann kónginn
sem að hann stóð.
Skal eg enn dillilla þér drjúgum.

(Íslenzk fornkvæði I, bls. 18–21; AM 147 8vo, bl. 9v–11r)