Rímur af Tobías – Þriðja ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Tobías 3

Rímur af Tobías – Þriðja ríma

RÍMUR AF TOBÍAS
Fyrsta ljóðlína:Þriðja part skal byrja brátt
bls.192–196
Bragarháttur:Ferskeytt – skáhent eða skáhenda (fráhent)
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur
1.
Þriðja part skal byrja brátt
og bjóða dýru mengi.
Óska eg þess að efnað vers
ending góða fengi.
2.
Hef eg mér sett og hugsað rétt
með herrans góðan vilja
í allan vetur ef enginn letur
erindis korn að þylja.
3.
Enn eg bið mér auka lið
af efnum visku sinnar
Drottin þann sem fyrstur fann
fróðleik tungu minnar.
4.
Hans er fræg og firðum hæg
forsjó gott að ráða;
hefur því sett þá hjúskapsstétt
herrann oss til náða.
5.
Sjálfur telur og saman velur
sérhvörjum að búa
og vill í lag um heimsins hag
hentuglega snúa.
6.
Hvör sem kann að kveðja hann
kvonfang sér að vanda;
velur hann þeim um víðan heim
veglegt ráð til handa.
7.
Hjúskap bindur og blekking hrindur
og blessar þau á láði
ef hjónin hrein í hvörri grein
haga vel sínu ráði.
8.
Þar af vex að þættir sex
þessu bandi halda
sem hnýta rétt þá hjónastétt
og hennar sæmdum valda.
9.
Elskan hrein á alla grein
skal ektaskapinn prýða;
hjóna geð og hjörtun með
hún á fyrst að þýða.
10.
Önnur dyggð og trú og tryggð,
því traust á um að búa,
er svo há að henni frá
hvörgi má sér snúa.
11.
Sérleg frægð og sinnis hægð
og samlyndið ágæta;
þessi þáttur er mestur máttur
mannsins líf að kæta.
12.
Fjórða magn er félags gagn
sem festu þau með dáðum
að lukkan öll og lífsins göll
liggi jafnt á báðum.
13.
Fimmta sett í sagðri stétt
er sáttmálsknúturinn sterki,
holdlegt band sem byggir land
með barngetnaðar verki.
14.
Sjötta stoð og sterklegt boð
er stjórn og verndin beggja;
hans það er en henni ber
hlýðni í móti að leggja.
15.
Boðna stétt ef byrjar rétt
og breytir vel til enda
lífsins hægð og lukku nægð
líka mun þig henda.
16.
Boðnar far skal bæta þar
sem bjóst eg við að skilja;
hlunna gamm að hleypa fram,
hlýði þeir eð vilja.
17.
Engill hreinn og ungur sveinn
einn veg báðir ganga
inn í borg með öngva sorg,
ætla hvíld að fanga.
18.
Félagar þeir, er forðum tveir
festing bundu tryggða,
rötuðu beint þó reiki seint
Ragúels til byggða.
19.
Þessi glaður, göfugur maður,
gestum tók með kæti.
Getið var þeir gistu þar
í góðu yfirlæti.
20.
Bóndinn skýr, hann horfði hýr
og hugði að gestum sínum:
Sveinninn slíkur líst mér líkur
ljúfum frænda mínum.
21.
Segið mér ef þekki þér,
þegninn spyr hinn teiti,
trúlyndan minn tryggða mann
Tobías að heiti.
22.
Engill kvað sér kunnugt það:
Kenn eg þann þú hælir;
hans er niður nadda viður
nú sem við þig mælir.
23.
Undrast hann við aðburð þann
og einninn stoltar kvendi;
gleðst þá þýður bóndinn blíður
bræðrung sinn er kenndi.
24.
Nokkra stund við fagna fund
í faðmlögum sig héldu,
kysstust títt og töluðu blítt,
tár af augum felldu.
25.
Bón mín er að býtist þér
blessan Guðs til handa,
arfi hans þess eðla manns
sem allt sitt ráð vill vanda.
26.
Þennan dag skal dyggðar plag
drengjum veitt hér inni,
slátrað sauð og bakað brauð
búið að máltíð minni.
27.
Fjarri er mér, að Tobías tér,
að taka fæðu þína
fyrr en þú með fastri trú
fyllir beiðni mína.
28.
Sára mær er situr oss nær
og sorgir löngum pína
þú úrskurðir til eignar mér
einkadóttur þína.
29.
Þagna hjón við þessa bón
og þenktu við að sporna
því Ragúel hann vissi vel
voðann þann enn forna.
30.
Engill dýr að drengnum snýr
og dvelur ei ráðum sínum:
Það grandar ei þó giftir mey
göfugum frænda þínum.
31.
Tiginn maður er til ætlaður
tvinna bil að hljóta,
enginn lífs þess unga vífs
annar mátti njóta.
32.
Orðin slík af auðar brík
angur í burtu vendi.
Held eg það, nú halurinn kvað,
að Herrann ykkur sendi.
33.
Saman leiðir seima beiðir
svein og hringa gefni,
festir band með beggja hand
og blessar þeirra efni.
34.
Guð, eg bið, hann bæti við
og blessan ykkur sendi,
lukkumagn og gæskugagn
af guðdóms hjálpar hendi.
35.
Langlífið og fastan frið
og fögnuð hljótið bæði
ávöxt lífs svo að eymdar kífs
endir verða næði.
36.
Brúðkaup býr þá bóndinn skýr
og boðsmenn þangað kvaddi;
Ragúel og veitir vel
og vinina sína gladdi.
37.
Svefnhús nýtt var samið og prýtt
og sæng með besta gildi;
hin ungu hjón fyr utan tjón
þar inni hvíla skyldi.
38.
Sáran grætur svanninn mætur
í svefnherbergi fríðu.
Hennar feður frúna gleður
og firrir sorgar kvíða.
39.
Eins og hryggð í hjartans byggð
hefur þú lengi kennda
Guð mun þér sem getur hér
gleðina aftur senda.
40.
Tigin drótt þá tókst upp nótt
Tobías þeir leiða
í svefnhús þar sem svanninn var
og sængarklæðin breiða.
41.
Ungur sveinn var ekki seinn
engils ráð að reyna;
lauk upp sjóð og lagði á glóð
lifrarpartinn hreina.
42.
Engill merkur, stór og sterkur,
studdur guðdóms hörku
andskotann með böl og bann
batt á eyðimörku.
43.
Dvel þú ei, hin dyggva mey,
drengurinn réð að greina:
Statt upp brátt því bæn í nátt
bæði skulu við reyna.
44.
Herrans náð um hjálpar dáð
hjartanlega að biðja
um nætur þrjár og þó með tár
það skal okkar iðja.
45.
Erfðin góð og einka jóð
erum við helgra manna
því hugsum þrátt á heiðinn hátt
heilög dæmin banna.
46.
Síðan brátt um svarta nátt
sig til bænar lögðu,
af öllum hug og hjartans dug
hétu bæði og sögðu:
47.
Almáttigur sendi oss sigur
sorgarlaust að þreyja
og ósjúkt líf fyrir utan kíf
til ellidaga að teygja.
48.
Rímuhjal og ræðu skal
til Ragúels þar snúa;
eina gröf fyrir utan töf
óvart lætur búa.
49.
Hugsar hann það henda kann
að halnum líka verði
sem forðum þeim með fagran seim
er festu þorna gerði.
50.
Öðlings beður, ambátt kveður,
áður en lýsti af morgni:
Farðu skjótt og fetaðu hljótt
fram að sængar horni.
51.
Seg mér þá eð sanna frá
hvört sveinn er heill á lífi;
verða kann sem vonaði hann
verndin Drottins hlífi.
52.
Ambátt þekk hún þangað gekk
en þorn grund henni trúði.
Sér hún þar í svefni var
sveinn hjá sinni brúði.
53.
Aftur rann og frúna fann
og fögnuð þennan sagði.
Bóndinn gegn við góða fregn
gladdist mjög að bragði.
54.
Drottni hjón með sætan són
sungu og þakkir gjörðu:
Oss gaf náð og af hefur máð
óvin vorn á jörðu.
55.
Byrgja lætur bóndinn mætur
búna gröf þar inni
fyrr en dagur dýr og fagur
dreifði birti sinni.
56.
Aftur býr þá örva týr
með Önnu húsfrú sinni
brúðkaups gjörð þeim bauga njörð
og bar sú langt af hinni.
57.
Síðan býður að sveina lýður
sauði og uxa felldi,
vildismönnum, vinum og grönnum
veislu góða héldi.
58.
Helming fjár og Fryggjar tár
fékk hann mági sínum:
Allt mitt fé skal yður í té
upp frá dauða mínum.
59.
Hjá sér biður að hjörva viður
hálfan mánuð dveldi
frúinnar skart og fjárins part
fram svo að allan teldi.
60.
Engil þann hann ætlar mann,
ungur sveinn réð kalla;
fylgd og ráð og drengskaps dáð
drjúgum þakkar alla.
61.
Sýnist mér, að Tobías tér,
trúskap þinn að herða;
vildi eg, fróður, félagi góður,
fá þig enn til ferða.
62.
Gabel finn þú frænda minn,
er fagnar vorum góða,
að heimta féð það honum var léð
og hingað til vor bjóða.
62.
Ferðar föng sem leið er löng
láttu fyrir þér flýta
og þræla lið, ef þarftu við,
í þessa för að nýta.
63.
Fór svo hraður ferðamaður
og fyrri hvergi tafði
en Gabel fann og fjárins hann
með fögrum orðum krafði.
64.
En þá fé var allt í té
og afhending að bragði
vináttustoð og brullaupsboð
bónda sveinninn sagði.
65.
Bjó sig hraður bóndi glaður
boðna veislu að þiggja;
hvörgi beið að halda á leið
hann og arfinn tiggja.
66.
Mágar tveir og motrar eir
að máltíð sátu og þögðu;
glöddust þá þeir Gabel sjá
og guðvelkominn sögðu.
67.
Hann í mót með manndóms hót
mjúklega tók að birta
ástar bón um yngri hjón
og allra bað þeim virtra.
68.
Einkum biður að ættarliður
af þeim vaxa næði,
frjóvgist hrein sú fagra grein,
fjölgi þeirra sæði.
69.
Öldin traust með einnri raust
upphóf Guð að prísa
og herrans náð er haglegt ráð
hjónum gjörði að vísa.
70.
Brullaup þekkt með bestu spekt
boðsmenn allir sátu.
Dárleg orð við drykkjuborð
drengir forðast gátu.
71.
Ónýtt hjal og illsku tal
enginn kunni að heyra;
festu sátt og hoskan hátt
hvör við annars eyra.
72.
Guðs er ein sú hræðslan hrein
sem holdsins stillir kæti.
Miskunn þá að minnast á
er mjúkast eftirlæti.
73.
Orðin skýr og dæmin dýr
drengir leggi í minni.
Óðar kátur Austrar bátur
endast hér að sinni.