Tuttugasta og sjöunda sunnudag eftir trínitatis | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 75

Tuttugasta og sjöunda sunnudag eftir trínitatis

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Sex dögum síðar þá
bls.83–84
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður+) þrí- og tvíkvætt aBaB
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Evangelíum Matt. xvij (1–9)
Með lag: Sæll ertu sem þinn Guð
1.
Sex dögum síðar þá
tók son Guðs mildi
burt á leið bræður þrjá,
þeim birtast vildi.
2.
Jakob og Jóhann var
og einninn Pétur.
Æðra vott áður bar
hvör öðrum betur.
3.
Á fjall hátt fór hann þá
með fylgdarmönnum;
líkam sinn lét þar sjá
í ljóma sönnum.
4.
Andlit skein eins og sól
á Jesú kæra;
klæði líkt ljóma vel
sem ljósið skæra.
5.
Móysen þar mátti sjá,
Elíam líka
í orðræðu Jesú hjá
um útför slíka.
6.
Pétur þá segir svá:
Satt er það herra,
gott er oss þér hér hjá
langvistum vera.
7.
Bjóðir þú byggjum þá
búðir þrjár hreinar
Móysi, Elíá
og svo þér eina.
8.
Sem hann nú sagði það
sjá þú ský bjarta
yfirdró strax í stað,
klökknar hans hjarta.
9.
Sjá þú rödd skýr og skær
af skýi sagði:
Hann er sá son minn kær
sem ást við lagði.
10.
Að hvörjum æ meir gest
svo eftir vonum,
einum allra best
þér hlýðið honum.
11.
Hans bræður heyrðu það
og hræddir urðu,
fallandi fram í stað
þá strax að jörðu.
12.
Á þeim tók Jesús þá
af ást og ræddi
og bað nú upp að stá
svo ei sé hræddir.
13.
En sem þeir aftur fá
nú efling sanna
Jesúm þeir einan sjá
en öngvan annan.
14.
Framar sem fóru heim
úr fjallsins göngu,
birting þá bauð hann þeim
að inna öngvum
15.
þar til son mannsins, sá
hár hirðir sauða,
upprís nú aftur þá
að unnum dauða.
16.
Jesú kær, unn þú mér
þess yndis njóta,
ljómi skær þá hjá þér
má þar ei þrjóta.
Vísan
1.
Á fjalli Tabor fyllast
fyrirheit Guðs, þar veitist
kynning klár þrenningar,
kallar Guð faðir til allra
að Kristur sé barn sitt besta,
býður oss honum að hlýða;
andi Guðs yfir hann sendist
í dúfu mynd ljúfri.
2.
Þrír bræður við vóru
vottar að Kristur Drottins
guðdóms mynd sína sýndi
svo sem skæra ljós væri;
klæði hans mjöll án móðu
miklu hvítari að líta;
við Elías mundi mæla
og Móysen í því ljósi.
3.
Birtu mitt brjóst og hjarta,
blessaður Guð, oss þessi
stórmerki mig styrki
að standi eg eftir vanda
í trúnni og þekki þanninn
þína dýrð yfir mér skína;
þú ert, því svo birtist,
þrjár persónur klárar.