Kvæði af ekkjunni Tamar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði af ekkjunni Tamar

Fyrsta ljóðlína:Með óbreytt lag skal efna lítið kvæði
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) fimmkvætt AAAA
Viðm.ártal:≈ 1600
1.
Með óbreytt lag skal efna lítið kvæði
af orði Guðs þó nokkrir þetta hæði;
hvör veit nema það heimskan einhvörn fræði,
heilagur andi gefi eg nytsamt ræði.
2.
Í helgu letri höfum vér mennt og næmi
þó höfuðfeður í blekking stundum kæmi
og gjörðu ekki allt sem heiðra sæmi,
ætíð skulum vér forðast verri dæmi.
3.
Jakob sá sem Ísrael nefnist líka,
hann átti synina marga dygðaríka,
um Júdam vil eg í óði þar til víkja,
eitt sinn gjörði hann kvennagirndin svíkja.
4.
Júdas gekk frá byggðum bræðra sinna
í borg Ódúllam, rétt sem hér skal inna,
með hirðir einum Híram gjörði að vinna,
heiðin var af Filistæi ætt hans kvinna.
5.
Ól við henni alla þessa sveina,
einn hét Ger, þann fyrstan verður að greina,
þar næst Ónan, þeim bar nóg til meina,
þriðji Sela, ekki fleiri neina.
6.
Ger, þann fyrsta, gifti hann ungu fljóði,
get eg að héti Tamar svanninn rjóði,
hann sló Guð í hel sem segir í óði,
hrekkvís var og fullur af illum móði.
7.
Við Ónan frá eg Júdas þanninn ræði:
Eig þú Tamar, vek þíns bróðurs sæði.
Það gjörir hann og þó með skemmdaræði
því hann vill hún Tamar ekki fæði.
8.
Yfir Ónan kom sú afskaplegasta villa
því ekki vildi boðorðið drottins fylla,
getnaðarsæðið gjörir á jörð að spilla,
Guð sló hann og líkaði þetta illa.
9.
Júdas segir að Sela ungur væri
sæðið þó honum upp að vekja bæri
því að hann uggði á einn veg líka færi,
aldri lætur hann koma á hennar snæri.
10.
Mágkonu sína tryggva vill hann tæla,
við Tamar gjörir hann þetta ljóst að mæla:
Halt þig ekkju, haf ei lag við þræla,
í húsi föður þíns, það er þér meiri sæla.
11.
Tamar hefur sig heim til föður síns byggða,
hér næst fellur Júda það til hryggða,
húsfrú missir, hvað honum aflar styggða,
harmar lengi vegna góðra tryggða.
12.
Heiman fer þá harmar allir dvína
með Híram vin að klippa sauði sína,
Tamar fregnar tilkomu hans, hin hreina,
í Timat var með nokkra hjarð[ar]sveina.
13.
Sér hún þá glöggt að sig vill Júdas pretta,
Sela vex, en fær hún ei gifting rétta,
ekkjuklæðum af sér gjörir að fletta,
eitthvað klókt ráð hugsar hún um þetta.
14.
Prýðir sig sem manngjörn menjatróða,
möttul ber og eina kápu góða
og sveipar að sér seimaskorðin rjóða,
sest í veg þar Júdas gekk til sauða.
15.
Þangað víkur þegar hann kom svo nærri
því hann hugði að önnur kvinna væri;
segir þá Júdas: Sof þú hjá mér, kæri,
sjáum við okkur gefst til þessa færi.
16.
Hvör skal tilgjöf? hringa svaraði tróða.
Hafurinn besta Júdas gjörir að bjóða.
Í pant vill kjósa kyrtla lindin rjóða
klút og staf með fingurbaugnum góða.
17.
Þegninn prúði þessu játar henni,
þar næst frá eg hann vífið að sér spenni.
Getnað trúi eg að góðan Tamar kenni,
geymdi pant svo fregn af engin renni.
18.
Með Híram vin þann hafurinn Júdas sendi,
hittist hvörgi þetta hið fríða kvendi,
segir að kvinnan sér hafi pant í hendi,
sakar oss ei þó hún á burtu vendi.
19.
Eftir þetta orðfleygt var í ranni,
að ekkjan Tamar væri spillt af manni,
þunguð gangi og það með öllum sanni,
því er hún dæmd í hæsta lögmáls banni.
20.
Júdas rétt sem yfirvaldsmanni heyri
á vill leggja straff og refsing meiri,
brenna í hel sem hórur slíkar fleiri,
hann lét kalla fyrir sig baugaeiri.
21.
Tamar kemur og fingurbauginn færir
og fleiri plögg þau vitni henni bæri.
Segir hún Júda sjálfur faðirinn væri,
sá sem klippti hjörð og bar til skæri.
22.
Júda svarar og iðrast gjörða sinna:
Ertu saklaus, fróma dándikvinna!
Mín er skuldin, gjörði eg þig að ginna,
gjarnan skaltu vægð og miskunn finna.
23.
Yfirbót frá eg Júda gjörði sanna,
aldrei síðan kenndi vænan svanna
því lögmál Guðs að ljóst vill þetta banna,
lofleg eru þau dæmin betri manna.
24.
Sú kom tíð að Tamar sóttar kenndi,
með tvíbura gekk og bað sér liðs af kvendi,
ljósmóðurin lit (eða rauðabendi)
lagði strax að fæddri barnsins hendi.
25.
Að móðurlífi þá með þessum þræði
þanninn hvarf sú hönd eg fyrr um ræði.
Síðan frá eg að sveinbarn Tamar fæði,
sá hefur ekkert band sem greinir fræði.
26.
Eftir það kom annar sveinn á klæði,
um úlflið bundið var með rauðum þræði.
Ljósmóðurin fróm, sem fyrst um ræði,
frumtign vildi að þessi sonurinn næði.
27.
Sera nefnist sá sem um var bundið
og sómann vildi að erfði dygðasprundið
en forsjá Guðs hefur frá þeim heiðri hrundið
því fæðist Peres, sá gat blessan fundið.
28.
Skaparinn góður skipti blessan sinni
svo skikkanlega að enginn neitt að finni.
Esaú forðum Jakob þótti minni,
eins var Peres frægri í þetta sinni.
29.
Þennan Peres einn, sem hér skal inna,
í ættarlið til Krists má gjörla finna.
Svo lausnari vor vill lækning öllum vinna,
láti oss njóta allra krafta sinna.
30.
Sérhvör bið eg að sínu ráði vendi
með sannri trú til Guðs sem Skriftin kenndi,
iðrist hreint þótt ósköp nokkur hendi.
Er svo fundinn þessu kvæði endi.