Rímur af bókinni Júdit – Önnur ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af bókinni Júdit 2

Rímur af bókinni Júdit – Önnur ríma

RÍMUR AF BÓKINNI JÚDIT
Fyrsta ljóðlína:Í annað sinn skal Óska vín af orða penna
bls.150–153
Bragarháttur:Braghent – samrímað eða braghenda samrímuð
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur
1.
Í annað sinn skal Óska vín af orða penna
fyr börnin Guðs á bikarinn renna,
bið eg þau smakki sætleik þenna.
2.
Eg virði fyrir mér veraldar hátt sem versnar óðum;
dramb er ekki af dæmum góðum
og dugði aldrei neinum þjóðum.
3.
Skaparinn veitir skepnum manns þann skilning hér
að hvört hún mennt eða heiður ber
það hefur mann ekki af sjálfum sér.
4.
Guði eilífum gjörir sá maðurinn gilda smán
ef heldur það fyrir hermanns rán
þó hafi hann eð besta auðnulán.
5.
Hefur því Drottinn heiðnum þjóðum hefnt að líku
að dreissuðu þær með drambi ríku
og drápust niður af forsi slíku.
6.
Sá hér þóttist mestur maður, eg má það inna,
þeir hugðust slíkan hvörgi finna;
Hólofernem deyddi kvinna.
7.
Því væri betra við því sjá ef verða mætti;
dramba ei eftir heimsins hætti
þó hvörs kyns auð að maðurinn ætti.
8.
Skoðum vér hvörsu skiptist brátt að skaparans ráði
undarliga hér allt á láði
og er sá vís er þessa gáði.
9.
Enginn var svo orkuhnár hann yrði ei falla
eða dapur ef náði á Drottin kalla
að dugnað fengi ei ævi alla.
10.
Fellda eg óð þar fólki Guðs tók felmtra við;
Hólofernis harðfengt lið
heljar gefur ei mörgum bið.
11.
Um Gyðingaland var grátur sár með geystum kvíða;
höfðingjar um héruðin víða
hermenn láta búast að stríða.
12.
Staði og borgir styrkja þeir með sterkum múr
því víkings her í vopna skúr
verða mun þeim hvörgi trúr.
13.
Jóakim prestur hæsta bar þá hjartaprýði;
mælti gott fyrir Gyðinga lýði
að Guð muni leysa þá frá stríði.
14.
Bauð að halda hrausta vörn á hvörjum stað
þar herinn má ganga greiðast að;
gjört var eftir megni það.
15.
Hans að ráði hvör mann bað af hugarins þrótt
til Drottins bæði daga og nótt
að duga þeim nú svo harla fljótt.
16.
Menn og kvinnur má þar sjá með mjúka ræðu,
klökkvum huga og hjartans mæðu
svo hvörki kenndi drykk né fæðu.
17.
Þeir heita á Guð að helgidómar hvörgi spilli,
felli borg né fólkið villi
fjandmanna sá herinn illi.
18.
Kennimenn sig klæddu sekk með klökkvu hjarta,
ungmenni þá ekki skarta
yfir altarið breiða hæru svarta.
19.
Jóakim prestur jafnan bað þá játning vanda;
á bæn með iðran best að standa
því börnum Guðs má ekki granda.
20.
Á Móysen biður að minnist þeir, þann mikla þjón
sem Amalek veitti ævitjón
fyr eina og hreina hjartans bón.
21.
Svo mun herrann hjálpa oss ef hans vér leitum
með góðri trú og huganum heitum,
hér með öllum syndum neitum.
22.
Af alhuga bað þá Ísrael og allt það mengi;
prófar neyð og pínist lengi;
prestar frá eg í sekkjum gengi.
23.
Með brennifórnum blíðka Guð og biðja líka
að hann þeim sendi hjástoð ríka
hernað þessum frá þeim víkja.
34.
Þá Hólofernes heyrði sagt og herinn gildi
að Gyðinga lýður verjast vildi
víkings brjóstið reiðin fylldi.
35.
Heimti á stefnu höfðings menn og hljótt nam frétta
hvort vaskir hermenn væri þetta
er vörn höfðu þeim móti setta.
36.
Hafa þeir borg og vígi væn að víking sagði
eða mega þeir beita brynju flagði
betur en hinir eg undir lagði.
37.
Einn höfðingi Amons kyns sá Akíor heitir
hertuga æðstum andsvör veitir
um Ísraels lýð og visku neytir.
38.
Kvað þá lýði komna fyrst af Kaldea láði
því goðanna blót þeir höfðu að háði
en himna Guðs að vilja gáði.
39.
Herra Guð bauð hollum lýð í Haram búa;
vitrun hans þeir vildu trúa,
frá villu sinna feðra snúa.
40.
Þá hallæri kom harla megnt að höndum lýði
á Egiptaland að fólkið flýði
og fjölgaði þar með list og prýði.
41.
Í fjögur hundruð árin alls á Egiptalandi
sá frómi Guð þá firrti grandi,
að fjölda líktust ægis sandi.
42.
Faraó kóngur þjáði þá með þvingan meiri,
byrðar lét þá bera af leiri,
þá birti Drottinn undurin fleiri.
43.
Þeirra bænir heyrði hann og hefndi á landi,
af undra plágum vóx þar vandi
en verndar þá svo ekki grandi.
44.
Loksins þaðan hann leiddi þá út lýðinn þenna,
hafinu skipti í hlutina tvenna
svo hægan veg þeir máttu renna.
45.
Faraó harður her sinn gjörði í hafið að eggja,
svo sem á millum múra tveggja
meintu þá við velli leggja.
46.
Óskaddað komst allt á land það undan fór;
þó Faraóns væri flokkurinn stór
frá eg hann kæfði hinn rauði sjór.
47.
Í fjörutigu ára fæddi hann þann firna her
með himna brauði, það heyrðum vér,
hvörja þjóð að sjálfur ver.
48.
Gallrömm vötn þeim gjörði sæt hans guðleg mildi;
þeir höfðu ei sverð né hlífðar skildi,
herrann fyrir þá stríða vildi.
49.
Sóma lét þá sjálfur Guð og sigurinn hljóta
nema þeir vildu boðorðin brjóta,
blessan sú varð þá að þrjóta.
50.
Vís var þeim en versta smán en virðing þraut,
ef öðrum guðum lýðurinn laut
úr landi urðu keyrðir braut.
51.
En ef kunnu iðrast þeir og á hann kalla
sigurinn lét þeim samt til falla,
svo hefur gengið dagana alla.
52.
Fjölda kónga felldu þeir sem frægt er víða,
má þeim engi í móti stríða
á meðan þeir Drottins ráði hlýða.
53.
Útreknir þeir urðu víst fyrir afbrot sín
en nýlega hefur þeim horfið pín;
hafi þér, fylkir, ráðin mín.
54.
Reynum hvört þeir hafa ei styggt sinn herrann nú,
því ef þróast syndin sú
sigur á lýðnum vinnur þú.
55.
En hafi þeir trú við herrann sinn nú haldið klára
fullting hans oss fellir sára
en flestir munu þig spotta og dára.
56.
Þá Akíor hafði endað tal með allan heiður
Hólofernes sór heitur og reiður
að hengjast skyldi vopna meiður.
57.
Og höfðingjar allir senn þá árna dauða
Akíor fyrir sitt orðtak snauða,
æðru tal og hjartað blauða.
58.
Hefur þú mælt það háð og smán af heimskum vanda
að nökkur þjóð mun niflung landa,
Nabogosor, móti standa.
59.
Hvað mun þessi heimska þjóð þar hafa til megn
sem aldrei framdi fleina regn
fylkirs magt að vega í gegn.
60.
Hertuginn reiður hraustum sagði hristir spjóta:
Gyðinga skaltu gæfu njóta
og grimman dauðann með þeim hljóta.
61.
Því þú dirfist þess að spá að þeir muni bíða
af himna Guði hjálp svo fríða
hernum kunni á móti að stríða
62.
þú skalt reyna þetta satt í þrældóms eymi
að Nabogosor, saddur að seimi,
er sjálfur Guð í öllum heimi.
63.
Ef þeirra Guð þeim sinnir svo þeir sigurinn fanga
þig mun víst til þessa langa,
þér skal alleins líka ganga.
64.
Þeir hrökktu hann burt frá hernum þá með háðung sanna
til Betúlía borgar manna
og bundu í skógi fróman granna.
65.
Bogmenn komu af borgar lýð og bundinn líta,
frækinn leysa fleygir rýta,
færa í borg og herrum býta.
66.
Óseas hét sá æðsta heiðri átti að ráða,
Ottoníel ör til náða,
þá yfirvalds menn svo nefnir báða.
67.
Leiddur var sá ljúfi mann fyrir landsins herra;
Akíors náði ánauð þverra
en óvini Guðs mun henda verra.
68.
Skammtlaus verður skikkan öll á skemmtan minni,
hvör söguna les það sjálfur finni,
svo trú eg þessi ríman linni.