Áminning til valdsmanna á Íslandi | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Áminning til valdsmanna á Íslandi

Fyrsta ljóðlína:Heyri þér hátt svo skýran
Bragarháttur:Dróttkvætt
Viðm.ártal:≈ 1600
1.
Heyri þér hátt svo skýran,
heyrið með glöggvu eyra,
heyri þér, valdsmenn vorir,
og vandið stjórn í landi.
Landið geldur svo synda
því syndir flesta mjög blinda,
blindur leiðir hér blindan,
búið fall, vöknum allir.
2.
Guð bauð lærðum lýði
sem lúður góðan háhljóðum
þeyta og þekkjast láta
að þjóðin er stödd í voða.
Þó síst eg sjái eð næsta
sjónbaug kringum augun
minn löst, mun eg þó kosta
að minna á flokkinn hinna.
3.
Áður hef eg ort í kvæðum
og enn nú, það vel kennist,
hvað skaða má land og lýði
(lengi hefur það svo gengið)
að óvaldir hér höldar
hafa völd, hvörs vér gjöldum,
svipulir sýslur kaupa
en sæmdarmenn burt flæmdir.
4.
Veit eg hvar herrann hótar
hefnd forðum ánefndri
sem Esajas á vísar
yður í lestri þriðja.
Fyrir syndir og verkin vondu
vilji hann skipta þanninn:
Góða frá landstjórn leiða
en láta vald þursa halda.
5.
Gjörum bót, Guð höfum reitað!
Grátandi það nú játum.
Mun sú maklig pína
minni en þrátt til vinnum
að lögsögn lítt vill gagnast,
líðum órétt stríðan,
öfugt snýst allt úr hófi,
ærulitlir sig stæra.
6.
Því minni eg á einn og annan:
yfirmenn, þeir so kennast,
drottnar og vegleg vitni,
veitir Guð þeim sín heiti
og trúði að réttu ráði
um réttindi þau hann setti
að legðist lögin án slægðar
fyrir lýð með allri prýði.
7.
Hyggið að, hvað nú baggar
harðráðum mest á láði,
að metnaður meiri drottnar
og meginrót glæpa ljótra
sem blindar brjóstið vonda
en blíð guðhræðslan flýði.
Vitur þó vilji heita,
verður þurs heimskur drussi.
8.
Held eg að hér næst valdi
harðlyndið manns syndum.
Það hindrar heilagan anda
og hryggilega burt styggir.
Ef einn eða annar girnist
ofvitur hátt að sitja
fyrir vild snýr með valdi
veikum frá sannleika.
9.
Þetta er eitt það eg óttast
að óráðvendin bráða
kenni ómildum mönnum
margt í grimmu hjarta
eiturlegt út að brjóta
nema andi Guðs mót standi.
Við lygar er illt að eiga
ef eiðar með þeim leiðast.
10.
Stundar hinn forni fjandi,
friðbrjótur, undir niðri
að gjöra mein guðsorðsþjónum,
get eg hann þar til hvetji
yfirvald, hvað vér höldum
hræðilegast skaðræði,
ef stríða, svo sturlast báðar
stéttir þær Guð hefur settar.
11.
Hvað er kristni Guðs góðri
grand skæðara í landi
en yfirvöld hugmóð haldi
og *hvörir mót öðrum brjótist
kennimenn ráðs í ranni,
rægðir, þó með slægðum
umsetnir enn – svo að vitnist
ein af lastagreinum?
12.
En þeir sem á þann veg stýra
þungbærir víst ákæru
slóttuga síðan settu
í sakt valdstjórn að halda
tollheimtara of illa,
er áður presta mjög þjáðu,
svo leiða mætti ljúgvotta
í leynd, ef satt ei reyndist.
13.
Kenni eg einn og annan
oflærða sem færðu
votta að varla réttu,
vandamál er svo blandað,
satt þó segja þættunst
svinnir og eiða vinna,
þá heyrða eg haft með orðum
hálfverk þyki þeim sjálfum.
14.
Hér af vex hatrið meira,
hræðilegt fors og bræði
að hvörir í háska stýra,
hvað nema forsmá aðra,
því prestar líka lasta
lögsögn, þó með gögnum,
en allt með ótrú pultar,
umlestur sá er hinn versti.
15.
Lýður kemur loks í voða
líka af hatri slíku,
með því margir leiðast
menn í flokka tvenna,
sumir með saurugum dómi
segja verst af hag presta,
en hinir, þó rétt ei reynist,
ræða og valdstjórn hæða.
16.
Synd ein sú er í landi
sannlega flestra manna
sem leiðir af soddan sáði,
sundurdrætti valdstétta,
því allt það yfirmenn pulta
undirlýður mjög stundar,
þykir sem það megi líka
og þeirra dómur vel sómi.
17.
Hræðunst eg herrans reiði,
hann er forsmáður þanninn.
Umboð sitt dýrðar drottinn
drottnum tveim gaf í heimi:
kóng og biskup með mengi,
menn þessa vel kennum;
skyldu þeir víst í valdi
vera báðir samráða.
18.
Hefur svo alla ævi
almáttugur Guð drottinn
kóng gefið kristni lengi,
kennimenn yfir lýð þenna
sett með ráði réttu,
ritningin frá eg svo vitnar,
biskupsvald blessa skyldi
og banna synd hvörjum manni.
19.
Samúel, faðirinn frómi,
frábæra veitti æru;
á Sál kóng sá réð deila
fyrir synd með hreinu lyndi.
Natan hörðu hótar
herra Davíð með prýði.
Því ættum vér yfirvaldsstéttum,
ósvífir, lítt að hlífa.
20.
Ambrósíus, vel vísum,
vægir lítt kóngi frægum;
Theódósíum lét lýsa,
lærður, í bann sjálffærðan.
Ljúfur milding bað leyfis
og lausn tók biskupsrausnar.
Áður og einn veg síðan
unnust vel framan til heljar.
21.
Svo ættum vér og með réttu
áminningar svinnar
að veita þeim sem svo sitja
að sýsluráðum til náða.
Síðan, ef ekki iðrast,
með æru í bann að færa.
Aldrei fyrr er vor skylda
algjörð hreint á jörðu.
22.
Því kalla eg hljóði hvellu
hátt í nafni drottins;
vek eg upp valdsmenn slíka,
þó varla megi svo kallast.
Býð eg yður að iðrast
og yfirbót gjöra nú fljóta
svo lýðurinn ekki leiðist
eða landið með yður í vanda.
23.
En ef þeir ekki kunna
að óttast reiði drottins,
skeyta ei skaparans hótan,
skammast sín öngra vamma,
versnandi vefjast hræsni,
vilja drottins þó skilja,
læt eg þvílíka þrjóta
á þann veg lifa í banni.
24.
Bannsettur, hvör sem hittist
halda stjórnarvaldi,
sjáandi sannleik blindar,
sætir öngvu réttlæti,
með óráðvöndum eiðum
illa góðri sök spillir
en rétt útvalda votta
vefur og girnist kefja.
25.
Lýsi eg bert og birti
í banni sérhvörn týranna
sem þvingar, og þó með röngu,
þegna í litlu megni,
skellir á skatt og tollum
skammtlaust þó að fé vanti,
lætur það lögmál heita
er ljóstar hann upp úr brjósti.
26.
Bannsettur fari á flótta
framgjarn í stórskammir,
hórulíf hórdóm meira
og háðuglegar ódáðir,
kunnur að kukli sönnu,
kaldhjartaður, og galdri,
er sinni sök til annars
snýr og vinnur rýran.
27.
Við yður, valdsmenn góða,
vil eg það loks áskilja
þér geymið Guðs að dómi,
gætið jafnan réttlætis.
Munið vel þeim að þjóna
þengli göfugum engla
sem yður sitt umboð tjáði
alvaldur rétt að halda.
28.
Drottinn Guð, sá sem setti
sinni þjóð stjórn svo góða
að kóng þann kristnin fengi
er kristin lög aldrei missti,
gefi það, Guðsson ljúfi,
að góðir menn þar til bjóðist,
skýrir og Kristi kærir,
kóngsvald yfir oss halda.
29.
Samtök einninn aukist
allra, sem best er fallið,
yfirvalds svo hér héldist
heiður en sturlan eyðist,
leikir og lærðir ræki
landgagn og samfagni,
fullglaðir, hvörs manns heillum,
haldi svo frið með valdi.
30.
Heyri Guð hvað vér kærum,
heyr fyrir sonar þíns dreyra.
Tekur nú víst að veikjast
veik trú, dygðir skeika.
Elskan fraus til fölska,
fölsk rót vex á móti.
Græð mein þinna þjóna,
þú ert græðari vandræða.
31.
Veit eg hvað veldur hatri,
veit eg hvað hjörtun reitar,
veit því vaxa þrautir,
veit eg hvört friðar má leita.
Veldur það vér erum kaldir,
veldur því synd oss hrelldi,
veldur bænarþel baldið;
bæn segi eg lækning væna.
32.
Bæn af hjarta hreinu
hrein er lækning meina,
mein græðir loks lýða
lifandi guðdóms andi.
Einn Guð illu varni
er einn og þrennur best kennist.
Kennimenn kvæðið minnist
og kannist við flokk valdsmanna.