Ellikvæði – eftir predikarans Salomonis orðum í síðasta kapítula | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ellikvæði – eftir predikarans Salomonis orðum í síðasta kapítula

Fyrsta ljóðlína:Heyrðu, faðir á himnum, mig
bls.103–108
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaccB
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Ellikvæði
1.
Heyrðu, faðir á himnum, mig,
huggarinn aumra þjóða!
Hjálpaðu mér að heiðra þig
af hjartans grund með ljúfri lund.
Þú gafst mér alla ævistund
orðið þitt eð góða.
2.
Það lifanda sáð var læknisbót
og lífgan sálu minni.
Þó klaga eg hitt af hjartans rót
að harla síð var sú tíð
þann kostadrykk eg kenndist við,
kominn úr hirslu þinni.
3.
Því komið er nú að kveldi dags,
eg kann það gjörla finna,
þó að eg vildi leita lags
og lækna það strax í stað,
sem Salómon vísi víkur að,
fyrir veikleik augna minna.
4.
Æskan varð mér ekki trú,
eg eyddi tímans blómi,
gálaus mjög, það græt eg nú,
en gömlum er hugbót hér
komi sú tíð hann sjái að sér
í sínum aldurdómi.
5.
Samt þó hafi eg seint að gáð
og Salómons ráð ei haldið
en að vill dynja ellin bráð
því augnasýn hrörnar mín,
þá flý eg nú, herra, af hug til þín
svo hægist syndagjaldið.
6.
Þeir fárlegu tímar fara í hönd
sem fróði maðurinn sagði,
þó mig hafi sú þýðing vönd
þanninn frekt hér til blekkt
að elli hef eg enn aldrei þekkt
utan á þessu bragði:
7.
Að sól og tunglið sýnist mér
svo sem að birtu týni.
Slímið það fyrir augum er
eins og ský veldur því
laugast tárum líka í
þó lesturinn bóka dvíni.
8.
Vaktarar hússins, hendur tvær,
nú hafa ei þrótt að vinna.
Heldur sjaldan hrærða eg þær
meðan hraustur var til þarfa þar,
síst það rækti sem mér bar,
en sonur Guðs bót mun finna.
9.
Þeir sterku bogna, finn eg frekt
að fætur stirðna mínar.
Æskan hefur mig ennþá blekkt,
því af eru lögð glímubrögð.
Sá áður þóttist fær við flögð
fauskur nú gangi týnir.
10.
Mylnur fækka, falla tenn,
eg finn að jaxlinn skeikar,
sem möluðu forðum margar senn
maganum brauð nóg í nauð.
Þeirra hús eru orðin auð
svo af eru barnaleikar.
11.
Á strætum luktar standa dyr,
nú stoða ei ferðir langar.
Karl er hnepptur heima kyr,
hvörgi nær kreikað fær.
Herra, veit mér heillir þær
eg hafi ei girndir rangar.
12.
Mölunar þernu minnka hljóð
þá munnurinn óskýrt ræðir.
Þyki mér hindran þeygi góð
því að eg vil bera mig til
mínu gjöra á máli skil
en margur að gömlum hæðir.
13.
Rénar gjörvallt raddarlag
svo rámur karl má þegja.
Sígur geflan sérhvörn dag.
Sé hann þá heimskum hjá
spott og dár mun fullskjótt fá,
þeir fussa og við hönum sveia.
14.
Söngvara dætur byrgjast brátt
þá bæði eyrun dofna
en fuglinn galar þá furðu hátt,
fer svo sá ekki má
fyrir kulda og mæðu karlinn sá
klæðfár heima sofna.
15.
Sjónargluggur augað er,
þau óðum dimmast bæði.
Mér sú plága makleg ber
því meðan eg sá bækur á
iðkan hafði eg öngva þá
svo æðri menntan næði.
16.
Mun þá blómgast mandeltré
að maður er grár af hærum;
grashoppum þó þyngri sé,
það eru bein, kreppt og sein,
því fölur og skorpinn, fúll með kvein,
fær hann litla æru.
17.
Þeir ganga um kring sem kveða af sorg
svo kvein er sárt að heyra
bæði um stræti, tún og torg,
tregi er þá í hvörri krá.
Borinn er út um síðir sá
svo segir ei frá hönum meira.
18.
Því sé eg nú loks hvað Salómon vill
með silfursnúruna meina
þó mig hafi blekkt svo berskan ill,
hún brostin er sundur hér,
það aldursblómið fölna fer
sem fegurðarskart má greina.
19.
Og *gullkeldan þornar þá
er þrýtur dygðanæmi;
hvað skarpsinnaður vel skynja má
sá skynugur var víða þar;
af lærðum heyrði lystugt svar
og lifandi eftirdæmi.
20.
En nú er mér skömm að skýra frá,
mín skjóla lak við brunna.
Hvað það gott eg heyrði og sá
hvarf í vind, því er nú blind
hyggjan mín sem horfin lind,
þar heiður er gott að kunna.
21.
Hér næst veit eg hljóðið brestur,
hrapar að döprum dauða –
eg er nú hér sem annar gestur –
ævin leið furðu greið
óðum fram um æskuskeið
svo ending verði nauða.
22.
Sextíu hef eg að aldri ár,
ekki er þess að dylja,
burtu er æskublóminn klár,
því bæri mér það eftir er
héðan af langtum grunda ger
og gæta að drottins vilja.
23.
Því er það fyrsta upphaf eitt
og allra ráða hið besta
að gæta þess sem Guð hefur veitt
en gráta það í annan stað
harla seint þar hugða eg að,
heimska var það mesta.
24.
Föður og móður fyrirleit eg
fyrst af bernsku minni
en þau voru mér æskileg,
og yfirmenn þeir síðar meir
unnu jafnan einkum tveir
af manngæsku sinni.
25.
Næmið veitti Guð mér gott
og góða menn lét fræða
ungdóm minn og efldi þrótt
en mín lund var þá stund
upp á leik og fíflafund,
fánýtt oftast ræða.
26.
Nú lít eg aftur allt um kring
með angri hugar og tárum.
Syndir mínar saman í hring
settar hér fyrir augu mér,
Jesú Guðsson, játa eg þér.
Þú dreif á dreyra klárum.
27.
Hvað sárt er að minnast mótgjörð þá
í mínu bernskublómi
að visku mátti eg nógri ná
en nenning brast, það græt eg fast
að svikarinn lét mér lítast last
lystilegra en sómi.
28.
Finn eg það mér förlast kraftur
sem fyrr var skráð í letri.
Komi þá æskan aldri aftur
en eg bið himnasmið
að hjálpa mér svo veikum við
að vona til sælu betri.
29.
Láttu þetta lúna hold
lifandi sálar njóta
meðan sambúð hafa þau fyrst á fold,
þó fari sem má um mæðu þá
ef ellin vill mig þyngra þjá
að þetta sé til bóta.
30.
Þá augun bæði myrkvast mín
og minnkar þróttur handa
lát þú, herra, hjartans sýn
hvörn dag nú með lifandi trú
stunda á líf það lofaðir þú
fyrir lífgan heilags anda.
31.
Davíð talar um ernan aldur,
arnardæmið ljósa.
Svo mun hamur af syndum valdur
sérhvörs manns rotna hans
en nýjum blóma ná til sanns
og nógri prýði hrósa.
32.
Þá ellin kreppir öll mín bein,
ef þess verður að bíða
og veitist ekki virðing nein,
veit mér náð eg fái þess gáð,
hvað bjart mun verða blómgað sáð
og bera þar ásján fríða.
33.
Því upprisan fær æðri mynd
en ellikroppurinn stirði.
Þar mun horfin sótt og synd
en sómi klár skína skár.
Gefðu eg slíkt um elstu ár
ávallt fyrir mér virði.
34.
Þó hér verði skorpið skinn
og skinið á hvörju beini
og drepi í skörð svo munnur minn
mæli bágt, lint og lágt,
á efsta degi upp mun vakt
svo ekki verður að meini.
35.
Lát mér, Jesú, læknir trúr,
linast þá alla mæðu
er yfir mig leiðir ellin súr,
endurnær, herra kær,
því heilsudrykk mitt hjartað fær,
þá hefi eg ei lyst á fæðu.
36.
Ef mig svo ellin mæðir þröng
að megi eg óvært sofna,
drottinn, lát mig dikta söng
til dýrðar þér svo minnið mér
og málfærið einninn hér
aldrei mætti dofna.
37.
Heyrnin bið eg mér haldist við,
herra, framan til dauða
svo af orði Guðs eg fengi frið
fyrst eg má ekki sjá
þær fræðibækur allar á
sem eru mér léttir nauða.
38.
Heiminum lát mig hyggja af
og hans ei táli unna
en blessan þeirri Guð mér gaf
í góðri trú skikka nú
og forsjállega um fólk og bú
fyrir mér mæla kunna.
39.
Allt það starf eg hafða hér
í hvörs kyns málaefni,
hvört skipti, kaup eður umboð er,
með æru og trú veit mér þú
að mjög vel enda mætti eg nú
á móti dauðans svefni.
40.
En hvað sem brast, því hvar má þann
í heimi víðum finna
svo vel forsjálan veraldarmann
að vanti ei neitt nokkuð eitt,
þar yfir sé Jesú blóðið breitt
sem bót mun á því vinna.
41.
Héðan af lát mig hvörn dag svá
hyggja að endadægri
að viljugur skiljist þanninn þá
við þennan heim, auð og seim;
veit mér hjálp á veginum þeim
í vistina hjá þér hægri.
42.
Þó ástmenn kærir allir sé
og elskulegir að minnast,
drottinn, lát ei dragast í hlé
við dauðans stund þá stöðuga lund
að mig langi á þinn fund
og aftur megum þar finnast.
43.
Hjartans börn, þér heyrið mér,
og hinn sem Guði vill unna:
Í besta tíma sjái að sér
því svíkjast má sérhvör sá
við dauðastund hann ætlar á
yfirbót læra kunna.
44.
Dæmin mín eru dygðarlaus,
drottinn bið eg mig náði
en sonurinn Guðs mig kjöri og kaus
til kennimanns sér til sanns.
Að skyldu minni og heiðri hans
harla seint eg gáði.
45.
Salómons er sú meining merk,
það megu vér gjörla skilja,
áminning svo ströng og sterk,
meðan stendur blóm, æskan fróm,
hann biður vér hræðunst dýran dóm
og drottins stundum vilja.
46.
Of seint verður oft að gáð
en óvís stund vors dauða
kemur á margan býsna bráð;
því bið eg nú enn, konur og menn:
Gjörum vér iðran allir senn
fyrir drottins dreyrann rauða.
47.
Af hjarta græt eg, herra minn,
þá hörmung sárra nauða
að ei hef eg dóminn óttast þinn
né ógnar pín, reiði þín,
en óðum líður ævin mín
allt að döprum dauða.
48.
Í dauðans neyð þú minnist mín,
mjúklega eg þess beiði,
Jesú, fyrir þá eymd og pín
er á þér lá, vertu hjá
að mýkja alla mæðu þá
sem mér þú hést með eiði.
49.
Þá hverfur bæði heyrn og mál,
hef eg ei megn að ræða,
meðtak, Jesú, mína sál
svo megi eg með frið skiljast við;
í dauðans ógn þú legg mér lið
og láttu hann ei mig hræða.
50.
Jesús, þú sem ert vort líf
og upprisan vor sanna,
fyrir ásókn djöfuls allri hlíf,
einkum þá vert mér hjá
í andlátstíma er öngvum má
orka fullting manna.
51.
Þitt sæta orð mér sé þá bót
sannlega allra meina;
því held eg lengst í hjartans rót,
þú heitir að sá skuli ei sjá
dauðans kvöl þó fari hér frá
í fagnaðarsælu hreina.
52.
Fel eg mig nú með fullri trú,
faðir, á hendi þinni
og allt það lán mér unntir þú,
ástmann hvörn, konu og börn.
Þín miskunn sé þeim mildust vörn
þó mínu lífi linni.
53.
Þá skaparinn vill eg skiljist við
mín skynsöm börn á lífi
af innstum rótum eg þess bið,
Jesús minn, fyrir mildleik þinn,
gef þau endi aldur sinn
svo yfir ei smán að drífi.
54.
Eg lofa þig æ fyrir auðnu þá
að orð þitt lést þeim kenna.
Flokki þessum það mun hjá
og þeirra lið haldast við.
Þú leið þau öll í lífsins frið
þá lyktar heiminn þenna.
55.
Kýs eg að allir kristnir menn
fyrir kraftinn orða þinna,
þá mér til trúðir áður og enn
það eðla sáð færa á láð,
þýðist, Jesú, þína náð
svo þig megi blíðan finna.
56.
Eilíf dýrð og æran mest
sé einum Guði að vanda.
Sá faðirinn náða barnið best
lét bera vor mein, hvör sem ein.
Þeim lausnara heims sé lofgjörð hrein
með lifandi heilögum anda.
57.
Á enda send eg Ellidikt.
Sú ósk mín haldist lengi
að mér og þeim sé minniligt
sem mál er að hugsa það:
Séð hef eg skráð hvað Sólon kvað
þá sá hann á Kresus gengi.
58.
Á endadægrið hugsi hvör,
vort hangir líf á þræði
og enn þó gangi allt í kjör
þá er sá meir sæll er deyr
heilaglega en hinn er þreyr.
Hér skal endir á kvæði.