Nýárskvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Nýárskvæði

Fyrsta ljóðlína:Fögnuður magnist, frómir menn
bls.17
Viðm.ártal:≈ 1600
1.
Fögnuður magnist, frómir menn,
vér fyllunst allir kæti,
faðir vor, Guð, af elsku enn
eykur vort meðlæti.
Hefur oss ljúfu barni býtt,
með blóma ljómar árið nýtt,
sá heiður hár.
Velkomið nýtt ár!
Hjörtun snerti himnasáð,
heilags anda hin sæta náð,
svo vöknum vér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
2.
Kristnin fyrst nam fögnuð þann
sem faðirinn náðar téði
að soninn í manndóm sendi hann;
sú er vor hæsta gleði.
Síðan heiðrast hátíð nú
í hæð að fæðir Jesúm sú
ein jómfrú klár.
Velkomið nýtt ár!
Á ári hvörju upphaf rétt
öldin heldur, svo er það sett,
í heimi hér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
3.
Fyrir liðna bið eg nú árið oss
áður Guði að þakka,
með trega hugar og hvarma foss
þá hæstu ást að smakka.
Aumum heimi eilíf náð
til eignar gaf það kvenmannssáð
sem Kristur var.
Velkomið nýtt ár!
Samtengjandi sig við þjóð,
sú er nú gáfan harla góð,
það vitnum vér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
4.
Sú kenning enn hefur klár það ár
í kirkju styrking fengið
sem færði og lærði oss lausnarinn vor,
til lykta er slíkt vel gengið;
og þeir sem bera það lífsins ljós
lifa með gæfu enn hjá oss
fyrir utan fár,
velkomið nýtt ár,
og alla heill með orði hans
á ysta víst er horni lands
sem hvör mann sér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
5.
Lífið hefur Guð verndað vort
fyrir voða og skaðanum bráða,
landið að vanda gróðrað gjört
og gefið oss efling dáða;
sóttir og ótta syndagjalds
sinnt þó lint til bænahalds,
svo forðunst fár,
velkomið nýtt ár,
kallað alla kristna menn
kært og skært fyrir teiknin tvenn
að sjái að sér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
6.
Eg vildi að mildi og miskunn sú
vort minnið og sinnið hræri.
Guð hefur biðlund góða nú
þó glæpahróp hann særi.
Eg meina að reynist reiðin gröm
rétt fyrir þetta hefnisöm,
ef samt til gár.
Velkomið nýtt ár!
Því bið eg að iðran eflist hrein
svo aldrei gjald eður skaðleg mein
oss skeðji hér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
7.
Láttu, drottinn, nýjast nú
náðugur hlýðni manna,
fyrir orðið dýrðar auk oss trú,
um iðran biðjum sanna,
kennimenn og kristnihald,
kirkjustyrk og stjórnarvald
svo forðunst fár.
Velkomið nýtt ár!
<Á> stólum skólar báðir beint
og biskupsstéttir vandi hreint
að þóknast þér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
8.
Vor kóngur lengi lifi með frið,
líka og ríkisprýði,
drottning hans með sæmdarsið
svo sem að vísum hlýðir.
Í landið sendist hingað hýr
höfuðsmaður af ættum dýr
og dygðaklár,
velkomið nýtt ár,
svo yfir hvörrar sýslu ráð
sæmdamenn um allt vort láð
við haldist hér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
9.
Lögmenn sig með sóma blóm
siðunum góðum prýði,
vor fögru lög í fróman dóm
færi og skýri lýði.
Syndir vondar straffi strítt
en styðji við framferði frítt
svo fari það skár.
Velkomið nýtt ár!
Þeir og fleiri mektarmenn
með Guðs ráði allir senn
nú sjái að sér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
10.
Standi um landið stjórnarmenn
sterkir í verki hreinu
með ráð og dáð og röksemd enn
rétt og slétt á einu.
Ótrú ljót og öfundargráð
eyðist, bæði spott og háð
sem drafl og dár,
velkomið nýtt ár,
svo löng sú hangir yfir oss öll
ógnin megn fyrir skaðleg föll
nú hverfi hér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
11.
Hjónin þjóni hvör sem ein,
himnafaðirinn kæri,
í búskap lík og lyndishrein
og lifi sem frómum bæri
svo blessan þessi búið og hjú
bæti sæt, sem lofaðir þú,
og lukkan klár.
Velkomið nýtt ár!
Einninn börn og undirmenn
með æru læri allir senn
að þjóna þér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
12.
Nefni eg gefna nýársgjöf
af náð oss áður kennda,
æðra góða eg öngvan hef
í ástarskenk að senda.
Jesúm kýs eg allir vér
eignust fegnir hvör með sér
um aldir og ár.
Velkomið nýtt ár!
Bæti ágæta blessan hans
bæði gæðin sjós og lands
og allt hvað er.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!
13.
Kenndu að enda kvæðið mér,
Kriste, best og vanda,
flekklaus þökk að færa þér
með föður og helgum anda.
Mitt þú bættir lukkulag
og lést mér flest allt snúast í hag
við elliár.
Velkomið nýtt ár!
Því lykta eg dikt með lofgjörð enn,
lifi við gæfu konur og menn
í húsi hér.
Velkomið nýtt ár
og velkomið er!