Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Ævisöguflokkur Einars í Eydölum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ævisöguflokkur Einars í Eydölum

Fyrsta ljóðlína:Upp skal byrjast / Einars drápa
bls.115--140
Bragarháttur:Fornyrðislag
Viðm.ártal:≈ 1625
Flokkur:Ævikvæði
1.
Upp skal byrjast
Einars drápa,
ævisaga hans
öll með greinum.
Vildi hann
á áttræðis aldri
drottins verk
ei dyljast láta.

2.
Aðalreykjadal
allir kenna
í Þingeyjarsýslu
þar fyrir norðan.
Einar Sigurðsson
er þar barnfæddur
á þeim bæ
sem heitir í Hrauni.

3.
Grenjaðarstað
hélt góður hirðir,
síra Sigurður,
sá er hann skírði.
En faðir Einars
þar þingaprestur
hafði búskap
og bjó í Hrauni.

4.
Frá hingaðburði
herrans Kristi
var þá liðið
eitt þúsund ár
fimm hundruð
og fjörutigi vetra
tveimur færra
talið með réttu.

5.
Prestar héldu hér
páfadómi
en í Danmörku
þá drottins orði
því Kristján þriðji,
kóngurinn frægi,
hafði Lutheri
lærdóm numið.

6.
Jón Arason
afbragð skálda
Hólabiskupsdóm
hélt þann tíma.
Siðaskiptum þeim
síst nam hlýða
honum því varð það
helst að grandi.

7.
Faðir Einars,
sem fyrr greinir,
hann var uppalinn
í Hörgárdal,
á Möðruvöllum
því mæta klaustri
sem príor Nikolás
prúður stýrði.

8.
Húsfrú príors þess
hafði fóstrað
Sigurð Þorsteinsson
sér náskyldan
sá er fátæka
foreldra átti
en lærði hagleik
með hörpuslætti.

9.
Móðir Einars
var meira slektis,
Guðrún hin fríða
Finnbogadóttir.
Hennar faðir
var frómur ábóti
á Munkaþverá
því mæta klaustri.

10.
Einar ábóti,
og faðir Finnboga,
í latínuskóla
lærðu báðir
svo ekki þótti
í þann tíma
frægri feðgar tveir
fundnir verða.

11.
Einar ábóti
eftir páfahátt
hélt við eina
heiðurskvinnu.
Hún var systir
hússfrú Málfríðar
Torfadóttir
tiginborna.

12.
Finnbogi lögmann
frómur höfðingi
hússbóndi var
hússfrú Málfríðar.
Annan Finnboga
fyrr nefndum vér,
son Guðrúnar
systur hennar.

13.
Um ætt Finnboga
einn karl spáði
að frábæra mundi
fátækt líða
þá eik sú gamla
Einars félli
en á fjórða lið
öll við réttast.

14.
Einar Sigurðsson
sannar þetta,
sá er dótturson
fróms Finnboga,
af berri fátækt
best við réttur
af sjálfri mildi Guðs
sem hér vottast.

15.
Faðir Einars,
sem fyrr nefndum vér,
var prestur vígður
á príorsklaustri,
síðan varð auðið
í Reykjadal nyrðra
að búa með
nefndri Guðrúnu.

16.
Fátæk voru þau
að fémunum,
héldu öngvan stað
utan bújarðir.
Þar í sveit hafði
þingár fleiri,
vinsæll víða
hvað votta firðar.

17.
Sigurður prestur
sjálfur kenndi
Einari litla
allt hvað kunni
en móðir Einars
hann hart réð hirta,
bæði vildu hann
bjargast mætti.

18.
Þá tólf ára
var Einar orðinn
urðu nyrðra
ný umskipti.
Herra Kristján
herskip sendi
tvö á Eyjafjörð
með trú hreina.

19.
Jón Arason
áttu að sækja,
Hólabiskup,
og hönum færa.
Sá hafði ekki
sem fyrr greinir
orð Guðs numið
utan páfadóm.

20.
Hafði þá áður
um haustið fyrir
biskup Jón verið
burtkallaður
heldur bráðlega
með hörðum dauða
sunnan lands
og synir hans báðir.

21.
Því urðu norðanlands
allir fegnir.
Stórt þing var þá
stefnt á Oddeyri
þeim eðla kóngi
eið að sverja
þeir Guðs orð vildu
gjarnan skilja.

22.
Hjaltason var þá
herra Ólafur
af kóngi skipaður
kjörinn að vera
Hólabiskup
því hinn var fyrri
dæmdur villumann
og drifinn af landi.

23.
Bræður tveir stýrðu
biskupsstóli
ár það næsta
er Ólafur sigldi
kjörinn til biskups
kóngs að vilja
svo hann vetur þann
vígslu tæki.

24.
Björn og Hákon,
tveir höfðingsprestar,
bræður þeir
sem birti eg fyrri,
Gíslasynir
til góðra ráða
hreint Guðs orð
á Hólum kenndu.

25.
Kóngur lét þar þá
skikka skóla
og í Skálholti
annan líka,
fimm og tuttugu
fátækra börn
þau er latínu
læra skyldu.

26.
Það mildiverkið
minnast ættu
vorir landar
sem lífið endist
að Guð og kóngur vor,
Kristján helgi,
Ísland gjörvallt
þá endurlífgaði.

27.
Einar Sigurðsson
einn það vottar
helst á upphafi
ævi sinnar,
faðir hans góður
fékk síra Björn
túlk og ráðgjafa
að taka hann í skóla.

28.
Björn sá frómi
bú sitt hafði
á príorsklaustri,
prófastur þar,
tók Einar þá
til kirkjupilts
það næsta ár
að nema þar söngva.

29.
Lærði þar Einar
allar tíðir
og menntir þær
sem munkar kenndu.
Á öðru vori
tók Ólafur biskup
Hjaltason
við Hólastifti.

30.
Faðir Einars
þá fullur dáða
vann það til
með vilja góðum
út í Grímsey
að gefast til vista
svo Einar sonur hans
öðlaðist skóla.

31.
Sigurð Þorsteinsson
segi eg að vísu
með fyrstu prestum
fagna Guðs orði.
Guði til æru
hann Grímsey fræddi
með kvinnu og börnum
í köldum reiti.

32.
Var hann á landi
vanur hýbýlum
en aldraður
í ey þess missti,
leið í tíu ár
til síns dauða
þann herrans kross
með þolinmæði.

33.
Einar komst svo
inn í skóla
þrettán vetra
það fyrsta ár
sem herra Ólafur
Hólum stýrði,
í fyrirrúm settur
þess fyrsta skóla.

34.
Fékk þá síðan
á fimm árum
þann vitnisburð
valdra manna
að bæði hefði hann
bóknám stundað
og hrekkjalaus
þar lifað í skóla.

35.
Davíð segir
í dikt fögrum
í foreldra stað
sig fengið hafa
yfirmenn jafnan
allra besta
og af náð Guðs
eftirláta.

36.
Var af Ólafi
vígður Einar
prestur ungur,
átján vetra,
í þörf og nauðsyn
þó að margt væri
ungum ónumið
æskumanni.

37.
Nú á samfelldum
sextíu árum
þolinmæði Guðs
þakka vildi.
Hann frá altari Guðs
ei varð hrundinn
fyrr en augnaljós
allt hrörnaði.

38.
Síra Björn frómur
á sæmdarklaustri
til kapelláns sér
þá kjöri hið fyrsta
Einar Sigurðsson
og hann þangað fór,
að Birni þóttist
best ráð læra.

39.
Þar varð Einari
auðið giftu
því sæmdarkvinna
sú er Margrét hét
Helgadóttir
honum vel unni,
barngetnað
þau bestan fengu.

40.
Fátæk bæði
og félaus voru,
við Mývatn síðan
*mörgum vistum,
þaðan í hjúskap
þó með Guðs ráði,
af herra Ólafi
helguð bæði.

41.
Því einn var þá siður
allra presta
áður Ólafur
það af réði
að búa við kvinnur
og börn geta
en hann lét hjónaband
hvörn prest binda.

42.
Lifði svo Einar
með Margrétu
heil tíu ár
í hjónabandi,
gátu ágæt börn
átta saman
en Odd frægstan
allra þeirra.

43.
Reistu búnað
í Reykjadal norður
áður þeim litla stað
Nesi næði.
Hlutu bæði með
handalúa
og andlitssveita
sér afla fæðu.

44.
Út í Grímsey,
sem áður greinir,
faðir Einars
í friði sofnaði.
Sótti hann þangað
sína móður,
honum mundi þar
heill af standa.

45.
Einar heyrðu það
menn oft mæla,
að í Grímsey sækti hann
góða blessan;
þótt í hættum sjó
þangað stýrði
einn Guð leiddi hann
úr þeim vanda.

46.
Aldregi verður
allt upp talið
fullting drottins
firri og nærri
sem áræðisfullur
Einar þessi
séð hefur bæði
á sjó og landi.

47.
Bæði súrt og sætt
segi eg hann reyndi
allan fyrri hlut
ævi sinnar.
Neyð er mest
að missa brúði
elskulega
frá ungum börnum.

48.
Á þrítugs aldri
þá neyð reyndi
Einar í Nesi
á ári fjórða.
Með fóstri móðir
í friði sofnaði,
góðrar minningar
Margrét ljúfa.

49.
Mjög aldraðar
mæður báðar
beggja huggóðar
hjá henni voru.
Orðin seinustu
Einar mæddu,
bað hann elskuleg
börn að rækja.

50.
Þau voru eftir
þrjú á lífi,
Oddur, Sigurður
og Sesselja,
móðir hans líka
mjög sjónlítil,
fátækt búin,
fémunir öngvir.

51.
Góða vini
þá Guð uppvakti,
Jón Ormsson
á Einarsstöðum
og Þórunni
hans heiðurskvinnu,
sálusorgara
sinn að gleðja.

52.
Sú góða Þórunn
var Gísladóttir,
hennar bróðir einn
hét Þórarinn.
Sá gaf Einari
sína dóttur,
ágæta mey
þá er Óluf hét.

53.
Hún var uppalin
í Húnavatnsþingi,
á Marðarnúpi
í mætu fóstri
hjá afa sínum,
þeim eðla Gísla,
öguð og uppfrædd
í öllu góðu.

54.
Hvör var Einari
huggun meiri
þó ljúfa ætti hann
langt að sækja.
Í lag komst þá
sú höndin hægri,
börnin fengu sér
fósturmóður.

55.
Blómgaðist þá
búið að nýju
með barnaheill
og blessan meiri.
Undir krossi
lá Óluf þessi
í barnburði
þó blessuð væri.

56.
Hreinni fátækt
þá hrósa mætti
ef bæði hjónin
vel búið stunda.
Óluf jafnan
vel alls síns gætti
en Einar braust mest
við börn að fræða.

57.
Urðu á Hólum
herraskipti,
Ólafur herra
til himna stýrði
en Guðbrandur hélt
biskupssæti,
sá ódauðlegt lof
öðlast mætti.

58.
Oddur og Sigurður,
bræður báðir,
höfðu þá verið
við Hólaskóla,
hneigðir bóknám
best að stunda
svo Einari varð það
oft til gleði.

59.
Félítill,
þó fylgdi lukka,
fór Oddur
í útlandsskóla,
ástundan
og iðkun góða
hann hafði jafnan,
því heill nam fylgja.

60.
Út kom Oddur
hinn auðnusæli
úr útlandsskóla
aftur hingað.
Móðurlandsást
þar mest til knúði
því ættarbót
hann átti verða.

61.
Tók þá Oddur
um tvö ár næstu
við skólaráðum
með skikkun góða.
Lærisveinar
því lýstu flestir
að betrast hefði
þá barnaskóli.

62.
Sigurður Einarsson
sem fyrr nefndi,
hann var giftur þá
heiðurskvinnu,
þingaprestur
á prúðu klaustri,
Munkaþverá,
og margan fræddi.

63.
Oddur tók þá
af manndómi
Ólaf bróður sinn
inn í skóla
á sinn eiginn kost
en Guðbrandur
Gísla Einarsson
hinn fjórða fræddi.

64.
Svo snerist Einari
allt til heilla
við afturkomu
Odds hálærða
því hans ástundan
öll var þessi
börn sín öll
á bóknám fræða.

65.
Á sama tíma
í syðra stifti
biskup þeirra
var burtkallaður,
herra Gísli
þar góðrar minningar;
átti þetta vor
annan kjósa.

66.
Herra Guðbrandur
hæstu minningar
af höfuðsmanni rétt
til ráða kvaddur
á Öxarárþingi
með æðstu prestum
biskupskjör það
best að vanda.

67.
Sá góði herra
Guðs leitar fyrst
og réði það af
með ráði drottins
skólameistarann
með *skrif sitt senda,
þóttist veikur
til þeirrar ferðar.

68.
Oddur Einarsson
af trú góðri
herra Guðbrandi
hlýðni sýndi
reið með góðri fylgd
og rit síns herra
höfuðsmanni
með heiðri að færa.

69.
En á alþingi
allir helstu menn
Guðs leituðu
með góðri bæn
að hann veldi,
sem hjörtun kennir,
hugljúfan sér
í herra sæti.

70.
Höfuðsmaður þá
hlaut fram leiða
herra Guðbrands bréf
bundið tryggðum
að hann að sönnu
öngvan vissi
betur en þennan Odd
þar til fallinn.

71.
Til voru settir
tveir í kjöri,
Oddur og Stefán,
óviljugir.
Hlutur féll Oddi,
hvör kann að neita
að hann ei sæist
sáran gráta.

72.
Herra Guðbrandi
gremjast vildi
sig leyndan því
með letrið sendi.
Hvör er sá ei vill
herrans æru
og Guðs forsjá þar
framar um kenna?

73.
Oddur útvalinn
oft neitaði
í vandan sess
með vilja að ganga.
hlaut þó nauðugur
hvað sem gilti
eftir vígslu fram
aftur að sigla.

74.
Með sér tók
af manndómi sönnum
Gísla bróður sinn,
gott mannsefni,
sér að þjóna
og siðsemd læra,
hönum er það
til heilla orðið.

75.
Svo sigldi Oddur
hinn auðnusæli
í Danmörk aftur
að drottins ráði.
Kristján fjórði,
kóngurinn ungi,
með fjórum stórherrum
þá stýrði ríki.

76.
Oddur varð þá
á þessum vetri
af dygðugum vígður
doktor Pauli
og skikkaður yfir
allt Skálholtsstifti
með bréfi kóngs
þar til biskups ráða.

77.
Til föðurlands þá
með frægðum sótti,
Einar þurfti nú
ekki að kvíða,
feginn vildi hann
flokk sinn allan
sem Ísrael forðum
Jósep fæða.

78.
Feðgar þessir tveir
Finnboga ættar
eftir fornri spá
fátækt liðu
en Oddur fyrstur
í fjórða lið kominn
að Guðs ráði
ætt þá rétti.

79.
Á ári fyrsta
vill Oddur vitja
í Austfjörður
til allra presta.
Því velja feðgar sér
fund á Hólum
við herra Guðbrand
með heiðri að skilja.

80.
Mjög var þessi
fundurinn frægur,
faðir Guðbrandur
fékk þá gleði,
lofaði Guð
sem biskupa báða,
af berri fátækt
best hefjast lét.

81.
Einar svo með
synina sína
burt þaðan reið
með bestum heiðri
með yfirmanns besta
óskaleyfi
til enda lífs
þeir tryggðir bundu.

82.
Herra Oddur
varð helst samferða
föður sínum
og feðgum öllum
því fósturmóður
vill finna besta
og allt sitt föðurhús
einninn kveðja.

83.
Það gjörðist þar
Guðs að ráði
á fundi þeirra
næst fagnaðarkveðju
að Einar skyldi
í Skálholt halda
með allan sinn flokk
á því hausti.

84.
Drukku valete
með vinum góðum,
herra Oddur reið
austur þaðan,
blessaður í sitt
biskupsdæmi
með fylgd engla Guðs
og frómra manna.

85.
Bjóst þá Einar
burt að hausti,
með harmi skildu
þá hjón við granna
og heillastað
þar þau höfðu allar
dásemdir reyndar
drottins ljósar.

86.
Vill þá Einar
á Vatnahjalla
Eyfirðingaveg
af því ríða
að síra Sigurður
sonur hans líka
með sinni kvinnu
suður ferðaðist.

87.
Hjá síra Birni
í Saurbæ gistu
hvör eð áður var
Einars húsbóndi
og Sesselju
þar eftir skilja
handalistir
þar helst að læra.

88.
Svo reið Einar
með selskap veikan,
nafnkunnigur,
úr norðursveitum.
Var hann þá fullra
fimmtíu ára,
orðasmiður,
og einu fleira.

89.
Óluf kvinna hans,
ástkær flestum,
kallast mátti
ker hið veika,
hestfær varla,
hugveik stundum,
þunglega veitti
á leið langri.

90.
Yngri börnin
öll þá sýkjast
og móðurin veik
þá mæddist líka
en óveður
á þau dundu
seint á hausttíma
í háska staddir.

91.
Á miðjum öræfum
enn þá reyndu
dásemd eina
drottins ljósa.
Þar sem að allir
villtir voru
engill drottins
þá á veg leiddi.

92.
Komst svo síðan
heim með heiðri
í Skálaholt
að skaparans ráði
þar frómur ráðsmann
fyrir var settur
en Oddur þá sjálfur
ei heim kominn.

93.
Sá hét Stefán,
sæmdarmaður,
ríkur og frómur
í ráðsmanns sæti,
fagnar Einari
með öllum sínum
svo sem biskupsbréf
best til vísar.

94.
Herra Oddur
kom heim að bragði,
urðu að nýju
fagnaðarfundir,
setti hjónin
í sín herbergi
en alla bræður
strax inn í skóla.

95.
Eru þessi nöfn
Einars barna
skrifuð sem þá
í Skálholt komu,
sona og dætra,
sem hér greinir
en Sesselja var
í Saurbæ eftir.

96.
Síra Sigurður
biskups bróðir,
sammæddur
þar settur fyrstur.
Kvinna hans, Ingunn,
kom með hönum,
barn þeirra eitt
og bróðir hennar.

97.
Gísla og Ólaf
Einarssyni
og Höskuld vil eg nú
hér næst telja,
Eirek og Jón,
yngsta bræður.
Oddur þessum lýð
öllum fagnar.

98.
Ólufu móður
Margrét fylgdi,
Sigríður og þær
systur fleiri,
Anna, Guðrún
og ein barnfóstra,
Guðný ástkær,
Einars systir.


99.
Flestum mætti
sá flokkurinn ægja,
ratar Oddur þó
reynslu meiri,
áttatíu nauta,
nóg vetrarbjörg,
hey brunnu þar
öll til ösku.

100.
Einhvör mundi þá
öfundarmanna
hefndartjón
það telja mega
en drottinn oss
það síðar sýndi
að það snerist
allt til heilla.

101.
Nær hundrað manns
heim í Skálholti
heybrest þennan
hlaut að líða,
vetur allan út
eðlisglaðir,
nefndi enginn
það neitt sig brysti.

102.
Þá lysti Einar
að liðmum vetri
einungis bú
aftur að reisa
því frómur Þórarinn,
faðir Ólufar,
aldraður, vildi
að þeim hallast.

103.
Í Norðurárdal
sem heitir í Hvammi,
Borgarfirði nær,
bú það reistu.
Þórarinn faðir
þar kom líka,
áttræður nær
en *ern til ráða.

104.
Einar settur þar
yfir prófastur
víst í fjórðungi
Vestfirðinga,
hjá Þórði lögmanni,
herra hreinum,
og syni hans
sæmd fékk meiri.

105.
Þó varð Einari
auðið skamma stund
í þeim sama stað
sitt bú halda
því í Austfjörðum
eftir forsjá Guðs
lifði seinnipart
sinnar ævi.

106.
Þar var fráfallinn
frómur prestur
í Breiðdal austur,
biskups frændi,
hann var skyldur mjög
herra Guðbrandi,
í Eydölum og það
autt var sæti.

107.
Herra Oddur
með höfuðsmanns ráði
föður sínum kaus
fyrrgreint sæti,
þóttist vita
að þar vildi drottinn
hönum til reiða
hvíld og náðir.

108.
Og hugði að mundi
þar helst á landi
prestum liggja
á prófasti
reyndum þeim
er réði úr vanda,
föður sínum því
til þess trúði.

109.
Áður en feðgar
þar fundi skilja
hafði Oddur
með heiðri og æru
ektamáls sér
og yndis leitað
þó ár um kring
þess yrði að bíða.

110.
Gott er að bíða
góðs jafningja,
Oddur mátti það
síðar sanna
gæfan er undir
gifting komin.
Helgu Jónsdóttur
heill mun fylgja.

111.
Herra Oddur lét
hjá sér dvelja
Sigurð Einarsson
sér til yndis
og aðra bræður
að iðka skóla,
utan yngsti, Jón,
foreldrum fylgdi.

112.
Og barn það unga
er Óluf fæddi
á því vori
í Skálholti,
misserisgamalt,
móður fylgdi
hvað henni veikri
var helst til yndis.

113.
Sigríður unga
Einarsdóttir
hafði verið
hjá Stefáni
Skálholts ráðsmanni
í skóla bestum,
hún var elskuð
af hjónum báðum.

114.
Herra Erasmus,
yfirmann presta,
Önnu fóstraði
einninn líka
og fyrir henni
þær spár hafði
hún mundi heillasöm
ævi alla.

115.
Herra Oddur
með heiðri sönnum
föður sínum
lét fylgja úr garði,
sjálfur hann
með sínum bræðrum
angraðist mjög
þá urðu að skilja.

116.
Síðan tóku við
sæmdarprestar
fólki Einars
að fagna líka,
fyrst þeir bræður,
biskups synir,
Árni og Stefán,
æru að sýna.

117.
Þar næst Erasmus,
Önnu fóstri,
báðar hendur
þeim breiddi á móti,
Breiðabólstað
sá hélt með heiðri,
allra mestu þeim
æru veitti.

118.
Færleika
með fylgdarmanni,
sem faðir lét þeim
til ferðar greiða,
austur í Breiðdal
allt lét fylgja
og fleira styrk veita
framar en þurfti.

119.
Kurteis hjón
á klaustrum báðum
selskap Einars
með sæmdum tóku,
Jón Hakason
eins og bróðir
fullting veitti
framar en þurfti.

120.
Hvör sem vegi
og vatnsföll kennir
í Austfjörður
úr Skálholti
mun það sanna
að menn og englar
börn Einars
þá báru á höndum.

121.
Get eg ei alla
greint með nafni
sæmdarmenn
á sögðum leiðum
sem Einari þá
af elsku veittu
fúslega styrk
og fararbeina.

122.
Í Bjarnanesi
var biskupsleiga
og inntekt öll
í Einars hendi.
Þaðan flutti hann
fólki sínu
vísar birgðir
til vetrarfæðu.

123.
Einar kom svo
við upphaf vetrar
í Breiðdal austur
með blessan drottins.
Hans fylgdarmönnum
varð fátt að meini
heim til Skálholts
og Hvamms að sækja.

124.
Í Eydölum stýrði
ekkja búi
hún sem fyrri bjó
en hirðir enginn.
Tók því Einar við
á því hausti
sálusorgan þar
sem til heyrði.

125.
Ekkjan veitti þá
ærlegt fæði
heilan vetur
þeim hjónum báðum
og fékk þau laun
með fullum sanni
í heil tólf ár
hjá þeim dvaldi.

126.
Einar tók staðinn
út að vori,
ekkjan mundi víst
vægðar njóta,
hana lét þá
með sonunum sínum
sér til yndis
samt þar vera.

127.
Víst er ei finnist
víða dæmi
að svo margt ár
með sambúð góðri
vandalaust hafi
verið samlyndi
sem hún og Óluf
höfðu jafnlega.

128.
Einar var kjörinn
yfirmann klerka
í prófasts stétt
á prestafundi
og síra Þorvarður
samt til ráða
annar frómur
í fjörðum niðri.

129.
Björn Gunnarsson,
Guðs vin sanni,
festi við Einar
fullar ástir.
Sá var tekinn
af sýsluráðum,
umskipti þau
Einar sturluðu.

130.
Það bar til
á þessum vetri
að faðir Ólufar
andast hafði.
Herra Oddur þá
hjúin afgreiddi,
auratjón fékk
af ódygð þeirra.

131.
En systur Ólufar
sem þar voru
herra Oddur lét
hjá sér vera
og síra Sigurður
sem þá hafði
á Breiðabólstað
sinn búskap reistan.

132.
Því Erasmus,
Guðs ástvin sanni,
frá þeim stað
í friði sofnaði
en ekkjan hans
og arfar líka
gáfu sig frá
með góðan vilja.

133.
Síðan komust
þau systkin líka
með Ólafi austur
á því sumri
því bæði hann
og bræður fleiri
foreldra sína
finna vildu.

134.
Herra Oddur
þá hóf að nýju
bónorð sitt
með bestu ráði
til *Holtastaða
í Húnavatnsþingi
við þau heiðurshjón
Helgu að festa.

135.
Herra Guðbrandur
hönum lið sýndi
en Jón Björnsson
var ástvin biskups.
Guðs forsjá skal
þetta þakka
því Helgu mun jafnan
heillin fylgja.

136.
Í fyrstu bónorðsreið
fékk því keypta
herra Oddur
þá Helgu frómu.
Drukku biskupar
báðir handsalsöl
en sæmdarbrúðkaup
var sett að hausti.

137.
Svo riðu
með sæmd og heiðri
í æskilegt brúðkaup
yfirmenn frómir
þeir af bóndanum
boðnir voru
en bestu fylgdarmenn
með brúðguma.

138.
Einar kom þá
með synina sína
til Hóla að finna
feðga báða,
föður Guðbrands
og fróman herra,
fagnaðaröl þar
fékkst að drekka.

139.
*Fylgdust svo
sem félagar góðir
Einar og biskup
í hóf þetta,
fylla vildu
flokk brúðguma
svo allir komu
á einu kvöldi.

140.
Setið var hóf
með sæmd og heiðri,
blíðum friði
og bestu föngum
en með kærleika
allir skilja,
glaður kom hvör þá
heim til sinna.

141.
Herra Oddur
þá hélt með sigri
heim í Skálholt
með heiðurskvinnu
en Einar, faðir hans,
í Austfjörður
að Eydölum heim
í hvíldar sæti.

142.
Einar heyrðu það
oft menn mæla
hann þá minntist
á heillir sínar
að Guð hefði best
gefið uppheldi
Oddi og líka
afbragðs kvinnu.

143.
Því Helga reyndist
sú höndin hægri
Oddi og fleirum
Einars niðjum
sem faðir hennar
oft, frægur, áminnti
að mestan skyldi þeim
manndóm sýna.

144.
Heiman bjuggu fyrst
hjónin bæði
syni Einars tvo
til siglingar,
Gísla og Ólaf,
í æðra skóla,
með höfuðsmanni
þeir héldu úr landi.

145.
Áður var Gísli
í Kaupenhafn
með herra Oddi
þar eitt ár fyrri
en nú sótti hann
sér til uppheldis
veitingarbréf
fyrir Vatnsfirði.

146.
Fór svo heim þá
að fengnum sigri,
síðan giftist þar
suður á landi
sæmdarstúlku
að sínum vilja,
nefnd er Þórný sú
Narfadóttir.

147.
Veik með henni svo
til Vatnsfjarðar,
blessun hrepptu
og barnagróða;
öfundarmenn
þó ætti lengi
úr háska öllum
fékk hjálp af drottni.

148.
Árin fjögur samt
Ólafur dvaldi
í Danmörk víst
að drottins ráði
þangað til hann var
heim kallaður
skóla að stýra
í Skálholti.

149.
Þriðja Einars son,
Eirek fræga,
svinn hjón best
í sigling búa
í Danmörk þar hann
á þriðja ári
í himnaskólann
var héðan kallaður.

150.
Erkibiskup
hans útför gjörði
heiðurlega
og hann það vottaði
að lærður og frómur
lífið endaði
í ótta drottins
og er í Guðs hendi.

151.
Höskuldur og Jón
heima lærðu,
Einars synir,
í Skálholtsskóla
þar til sérhvör
á sínum tíma
kallaður var
til kennimanns stéttar.

152.
Enn var siðvenja
Einars sona
árlega að ríða
í Austfjörður
til sumarvistar
hjá sínum foreldrum,
á haustin þá aftur
heim til skóla.

153.
Þá Ólafur
hinn auðnusæli
hafði í tíu ár
haldið skóla
giftist hann þar
Guðs að ráði
suður í Odda
sæmdarmeyju.

154.
Kristínu nefni eg
kvenmann besta
Stefánsdóttir
á staðnum Odda,
hann var sonur
herra Gísla
sem áður var biskup
í Skálholti.

155.
Þeim varð auðið
austur á landi
á Kirkjubæ fyrst
búnað reisa.
Í prófasts stétt
Ólaf setti
biskup þar
með bestu ráði.

156.
Síra Höskuldur
sá var fyrri
giftur Úlfeiði
Guðs að vilja,
eystra var hún
víst afbragð kvenna.
Þau settu búskap fyrst
saman í Múla.

157.
Frómur Þorvarður,
faðir Úlfeiðar,
í Vallanesi
var þá prófastur,
vinur Einars
um alla ævi,
en móðir Ingibjörg
Árnadóttir.

158.
Jón Einarsson,
yngstan bræðra,
herra Oddur
og Helga giftu
fósturmeyju
hjá foreldrum hennar,
hún var systrungur
Helgu líka.

159.
Guðrún elskuleg
Árnadóttir
hét sú meyja
hlaðin af dygðum,
menntuð bæði
til munns og handa
svo sem Úlfeiður
og Kristín kæra.

160.
Síra Jón þessi
sótti brúði
allt í Eyjafjörð
inn til Grundar.
Kaupöl hélt þar
fósturfaðir
en heiðursbrúðkaup
heim í Skálholti.

161.
Síðan riðu þau
samt til Grundar
fósturföður
og fólk sitt kveðja,
héldu austur í veg
hjónin ungu
til Eydala og þar
eitt ár gista.

162.
Síðan fengu stað
sér til uppheldis
og auðlegð þar með
allra handa.
Elskuleg börn
þau af sér fæða,
með hógværð og trú
hjúum stýra.

163.
Dætur Einars
með sæmd að sátu,
giftist Sigríður
góðum manni,
Bjarna gullsmið
sem bjó þar nærri,
talin var hún
á tvítugs aldri.

164.
Bæði hjón,
þau Bjarni og Sigga,
með barnaheill
og blessan góða,
hægð búskapar
höfðu jafnan,
gestum veittu þau
greiðann besta.

165.
Samlyndi
var sagðra hjóna
elskulegt sem hvör
óska mundi,
barnaögun
og búsýslan
lukkusamleg
um langa ævi.

166.
Þó Bjarni gullsmíði
best út lærði
hús og skip vildi
heldur vanda,
aflabrögð
og útvegur stunda
því vissi hann sælla
að veita en þiggja.

167.
Sesselja var
samt í Skálholti,
Einarsdóttir,
hjá Oddi og Helgu,
ávallt stundaði
iðjur góðar
þar til hún giftist
góðum presti.

168.
Síra Hallur
hét sæmdarprestur
af einni góðri rót
eins og Bjarni,
með Sesselju
fékk sætið þetta
Bjarnanes hvar þau
bjuggu lengi.

169.
Gátu börn saman
góð og elskuleg
því herra Oddur
hana vel studdi
svo sem allar þær
systur sínar;
menntuðust börn
á margs kyns fræði.

170.
Margrét elsta
Einarsdóttir,
ein með kvenprýði
allra bestu,
á þrítugs aldri
góð giftist presti,
síra Árna
þeim sæmdarmanni.

171.
Úlfeiðar
var Árni bróðir,
kvinnu Höskuldar,
hátt í gildi,
var í Eydölum
veturinn fyrsta
og líka heima
hjá hans foreldrum.

172.
Síðan settu þau
saman bú lítið
á Stöðvarstað
til stuttrar ævi
því að Margrét
á *miðju sumri
af barnsæng var þá
burtu kölluð.

173.
Sex dægur
leið sára mæðu
fram til þess hún
fæða náði.
Að fenginni skírn
fóstrið andaðist
hennar foreldrum
hjá verandi.

174.
Önnur sex dægur
eftir þetta
þjáðist Margrét
hin þolinmóða.
Síðast mælti hún
allra orða:
Minn anda nú
meðtak Jesú.

175.
Maður hennar
og móðir hörmuðu
en Einar faðir
lét útför vanda
hugarsterkur
af herrans orði
um dýrðlegan afgang
dóttur sinnar.

176.
Árni prestur
þá ekki vildi
að liðnu ári
þar lengur búa
heldur fékk sér
með foreldra ráði
sæti ágætt
og sæmdarkvinnu.

177.
Anna hin þriðja
Einarsdóttir
á gjaforðs tíma
giftist manni;
átta um tvítugt
hún þá hafði
er Ketill Ólafsson
keypti brúði.

178.
Síra Ketill
sá var norðan að,
sonur Ólafs
á Sauðanesi,
hafði búið
með allri æru
á Kálfafellsstað
með kvinnu sinni.

179.
Á þeim stað sama
Anna líka
gat börn með þessum
góða presti.
Blessan drottins
þau bæði studdi
búi og börnum
best að stýra.

180.
Ketill og Anna
kenndu líka
hryggðar skóla
af herrans vendi
þó dásamlega
þau drottinn leysti,
svo gleði eftir hryggð
gafst þeim meiri.

181.
Guðrún hin yngsta
Einarsdóttir
góð sat heima,
gladdi foreldra,
þrjú ár fram að
þrítugs aldri,
mesta hjálparhönd
móður sinnar.

182.
Þá Einar prestur
í elli sinni
var sjónlítill
nær sextugs aldri
herra Oddur
fékk honum trúlyndan
kapellán ungan
kominn að vestan.

183.
Gissur Gíslason,
góðrar ættar,
heil tíu ár
hann þar þénti
orði drottins
með iðkun góða,
geðfelldur víst
Guði og mönnum.

184.
Launin drottinn
því lét hann hljóta
sem hann sjálfur
mun sanna helstu.
Guðrún þessi
þá gift var honum
með góðu samþykki
Guðs að vilja.

185.
Því Einar stundaði
um ævi sína
börnum sínum
svo vini að velja
að mannkostum víst
meir en auði.
Guðsblessan veit hann
gulli betri.

186.
Sjálfur þóttist
það sanna mega,
kvaðst þeim öngvum
auði býta
en herra Oddur
öll þau sæmdi
að fé sem nægði,
fremd og heiðri.

187.
En Gissur prest þennan
gjörla reynt hafði
að mannkostum
allra bestu,
dygð og trúskap
í drottins verki,
börnum hans veit því
blessan vísa.

188.
Í Eydölum
þau ungu hjón sátu
þar til auðið varð
þriggja barna.
Síðan hrepptu þau
sess í Múla
en Höskuldur tók við
hans embætti.

189.
Átt höfðu þau sér
unga dóttur,
Einar og Óluf,
*þá er Herdís hét,
tíu vetra var
talin að aldri
þá hún endaði
ævistundir.

190.
Það var vottað
og þó með réttu
að heillabarn mætti
hana kalla,
góð og fróm var
með guðsást sanna,
ljúfri móður
því lengst í minni.

191.
Meiri harmur
var móður góðri
mæta Margrétu
að missa síðar,
Eirek sinn líka
í Kaupenhafn
því elligleði
sér af þeim vænti.

192.
Hraustur faðir
sig hugga vildi
við lukkusamt þeirra
líf í dauða,
sagðist gleðjast
af seinni fundum
endalausum þar
í Guðs ríki.

193.
Angursstundir
oft Óluf reyndi
börn hennar þá
burt langt fóru
en allra sárast
ef þau deyðu
því innri hrellingar
yfir að runnu.

194.
Siðvani Guðs,
ef sætt á skenkir,
súrt lætur þar
saman við blandast,
börn Einars sum
oft það reyndu,
líka Óluf
með lukku góðri.

195.
Hugarstyrkur
hann samt þó væri
við óvildarmenn
átti að stíma.
Drottinn frelsti hann
dásamlega
svo óvin kunni hann
enginn fella.

196.
Einar þóttist
um ævi sína
af valdsmönnum
fá vinbyr lítinn,
sagði þá þess
sjálfa gjalda
og ríki þar fyrir
róflast þeirra.

197.
Nyrðra og syðra
nafnkenndi eg tvo,
Fúsa og Árna,
feðga báða,
sér hefði orðið
samráða best
og langgæða því
lukku fengið.

198.
Óvildarmenn
kvaðst ekki vilja
neina nafnkenna
né þess minnast
heldur vinanna
hrósa dygðum
og heillum þeirra
sem hann elskuðu.

199.
Börn Einars
þá blessan fengu
þau margfölduðust
meðan hann lifði
svo hans barnabörn
honum best unnu
og í hvörjum stað
heiðran veittu.

200.
Elligleði hans
ein var þessi
þá augnaljósið
allt hann missti
að senda um landið
sína kveðlinga
með heillavísum
svo hópinn kveðja.

201.
Gaman hans var það
alla ævi
og dægurstytting
að dikta kvæði,
sagði í raunum
sinn hug gleðjast
vel af kröftugu
vísnaorði.

202.
Einninn þóttist hann
ærna blessan
útvegað geta
öllum börnum
með vel vönduðu
vísnasmíði
því frá ungdómi sig
á það vandi.

203.
Og fyrst hann lifði
svo langa ævi
að sæi hann auðlegð
sinna barna
vildi hann sjálfur
vitni bera
um gifting þeirra
og Guði lof syngja.

204.
Sjálfur Einar
því svo réð mæla
þá seytján ár
yfir sextugt hafði:
Lof sé Guði
fyrir langa ævi,
barnaheill mína
og blessun alla.

205.
Á fæðingardaginn
fyrst vil eg minnast
þá Lutheri kenning
ljóma náði.
Með móðurmjólk rann þá
mér til hjarta
það sæta lífsins orð,
lof sé Guði.

206.
Því brýnda eg það
fyrir börnum mínum
af anda drottins
þeim er mér sendist
að mínar kvinnur
með því náðu
og börn þeirra öll
blessun stórri.

207.
Bestu gifting
öll börnin fengu
og nú að auki þess
náðugt sæti
því sóknarkirkju
þau sjálfráð eiga
og greiða skyldugan
gjöra þar flestum.

208.
Þó snerist nú öll
í snjallar tungur
höfuðhár mín
með hvörju beini
þá gæti eg aldrei
Guði sem bæri
lofgjörð innt
fyrir líf og gæði.

209.
Herrann Jesús
mig hefur um ævi
borið sem móðir
sitt barn í faðmi,
furðulega
mig frelst af voða,
bið eg hann hjálpi
svo börnum mínum.

210.
Bæði súrt og sætt
sem þú skenkir
á vorar skálir
það viljum halda,
hryggðar vatni
fær hvörn dag snúið
í gleðinnar vín
og gefið með síðsta.

211.
Láttu aldrei
af auði blindast,
náðugi drottinn,
niðja mína,
gef þeim daglegt brauð
svo duga megi,
hreinu orði
lát halda þínu.

212.
Allt til enda
svo stöðug standa
í hreinni trú
og héðan svo leiðast
með dýrðlegum
dauðasvefni
svo vér hittunst öll
í himnaríki.

213.
Ævisöguflokk
eg hefi þennan
að beiðni látið skrá
barna minna
svo uppruna vissu
ættar sinnar
og dýrðarverk þau
er drottinn gjörði.

214.
Mun eg við auka
meðan eg lifi
um barnabörnin
hvað ber til sagna.
Þau eru nú
á þessu ári
sjötíu nærri
sögð á lífi.