Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Máríuvísur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Máríuvísur

Fyrsta ljóðlína:Mjúkast vilda eg mærðarvers
bls.110--113
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaccB
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
1.
Mjúkast vilda eg mærðarvers
móðir drottins vanda;
má hún vel kallast makleg þess
meyjan hrein, fyrir þann svein
sem fæddi hún oss fyrir utan mein
af umbúð heilags anda.

2.
Fornu skáldin fróð og mennt
í fögru versa smíði
hafa svo dýra diktan kennt,
því drottins mær var þeim kær,
en nú varla einn þann fær
sem á þær vísur hlýði.

3.
Mér virðist, ef mætta eg það
fyrir mönnum voga að ræða,
að sitt sé hvörjum siðunum að
í sagðri grein, jómfrú hrein,
ef að nú finnast ekki nein
efnin Máríukvæða.

4.
Hin fornu skáldin fóru villt,
það finnst í þeirra óði;
páfans hefur þeim predikun spillt;
þá prúðu frú báðu af trú
en öngvum heyrði æran sú
utan þér, skaparinn góði.

5.
Nýju skáldin nú eru blekkt,
nálega var eg svo lengi;
eg hugða mesta synd og sekt
ef söng til þess Máríu vers
mann eða kvinna í máli hress
að Máría lofgjörð fengi.

6.
Nú vil eg bæta beggja ráð,
því bið eg þess heilagan anda
að Máríusonarins mjúka náð
mér sé nær og hjartakær
svo móðir þinni, meistarinn skær,
mætta eg hróðurinn vanda.

7.
Gjör þú mig svo góðan smið,
græðarinn elskuríki,
af fornu gulli fægði eg ryð
þar farið var villt og lofinu spillt
en Máríu fengi eg heiðran hyllt
svo himnaföðurnum líki.

8.
Því skilst mér nú að Skriftin hrein
skipi það kristnum þjóðum
heilaga menn í hvörri grein
heiðra víst, en mér líst
hún jómfrú Máría ekki síst
æru verð af fljóðum.

9.
Í þeim dikt hún orti fróð
fyrir innsáð heilags anda
jómfrú Máría mild og góð
mælir *svá, hlýttu á:
Sæla munu mig segja og tjá
sveitir allra landa.

10.
Hvörki tröll né heiðnir menn
hana nú sæla kalla;
því eigum vér kristnir allir senn
efunarlaust af huga og raust,
sem á lausnarann setjum lifanda traust
að lofa hana ævi alla.

11.
Því eigum vér fyrst að athuga hér
í innsta hjartans landi
hvör sú dygðin hæsta er,
himnesk náð að hefur gáð,
lítillæti er soddan sáð,
því sinnti heilagur andi.

12.
Þessa dygð að drottinn sá
af dýrstu himna sæti
sem mjúklynd ræðir Máríá,
minnkar sig þakksamlig,
ambátt sína upphóf, mig,
sá elskar lítillæti.

13.
Þá himnafaðirinn hjartagóður
heiminum lífgan sendi,
syninum sínum mæta móður
megum vér sjá hann valdi þá
sem lýtin öll voru langt í frá,
ljúfari hvörju kvendi.

14.
Meistarar fróðir mæla *svá,
að Máría fjórtán vetra
á ljúfri bæn mun liggja þá,
um lausnarann bað í sínum stað,
þá Gabríel kemur með guðdóms ráð
um getnaðinn öllum betra.

15.
Lúkas glöggt þar greinir frá
hvað Gabríel talar til hennar:
Heil sæl, meyjan Máríá,
með þér er drottinn hér,
full með náð þú blómann ber,
blessuð á meðal kvenna.

16.
Máría varð í huganum hrædd,
hún hugsar um kveðju sanna,
spyr því hún vildi verða frædd:
Vísa þú mér, hvörnin sker
getnaður sá því eg saklaus er
af sambúð allra manna.

17.
Þú fannst hjá Guði fagra náð
og fæðir Kristum hreina;
heilags anda hið hæsta ráð
með helgan sín kemur til þín
en mannsvöld ei né eðlispín
svo öngra kennir meina.

18.
Elísabet, systur þín,
á sjötta mánuði burðar
fyrir almátt Guðs í elli sín
er ólétt nú, Máría frú.
Guðdóms náð, sem gaf þér trú,
gjörir það margan furða.

19.
Ambátt drottins er eg, kvað hún,
orð Guðs við mig fyllist;
á þau legg eg öngvan grun,
er til sanns mátturinn hans
langt yfir skilning skepnu manns;
það skeikar ei né villist.

20.
Eftir skilnað engilsins
jómfrú Máría vendi
til fjallbyggða að frétta hins,
sem fyrri eg get um Elísabet;
frændkonu sinni fagnað lét
þá fundust þessi kvendi.

21.
Elísabet segir þá fyrst:
Sæl ert þú sem trúðir;
af kveðju þinni kenndi eg lyst,
í kviðinum spratt upp barnið glatt;
orð Guðs fyllist á þér satt,
því ertu drottins móðir.

22.
Jómfrú Máría elskufylld
af orðsins hreinu sæði
kviknar öll og kveður með snilld
kurteisligt kvæðið slíkt,
Magnificat, Meistaradikt,
sem minnst var fyrr í kvæði.

23.
Máría lét í ljósi hér
lifandi trúna hreina,
hvörrar art og eðli er
á orðinu best hafa sig fest
þar dygðablómstrin fylgja flest,
fleiri en eg kann greina.

24.
Lofgjörð sönn af ljúfri ást
og lítillætið góða;
hlýðnin væn með henni sást,
hreinlífs dygð fyrir utan blygð,
dró sér hvörki dramb né styggð
af dæmum heimsins þjóða.

25.
Lofið það Máríu líkar best,
vér lærum hennar dæmi,
þá skaparinn gefur oss gæðin flest,
sitt guðlegt orð og lífsins borð;
hann þiggur á móti þakkargjörð
og þýðlegt dygðanæmi.

26.
Ljúf Máría líkist hér
við lýð þann kristni heitir
sem Jesúm Krist fyrir brjósti ber,
því bræður hans eru til sanns,
kjörinn til hæsta himnaranns
sá hlýðni drottni veitir.

27.
Ævin Máríu eymdum fylld
oss skal vera í minni,
fæðir drottins móður mild
sinn mæta son, lífsins von,
í asnastall sem annan þjón
ung í fátækt sinni.

28.
Eftir það með Jósef hlaut
á Egyptaland að flýja
en síðan kom hún í þyngstu þraut
þegar hún tvist hafði misst
burtu frá sér barnið Krist;
það bölið mun hjartað lýja.

29.
Harmi þrungið hennar brjóst
hans að leita náði;
sem Máría sjálf hún mælir ljóst,
hjá meisturum fann í kirkju hann.
Slíkt kemur oft fram við kristinn mann
sem kvölin í heimi þjáði.

30.
Vér þykjunst og missa þegar í stað
þennan Krist ágæta
þá hrelling kemur oss höndum að,
svo hjartans rann ei gleðjast kann,
í kirkju fáum vér fundið hann
fyrir hans orðið sæta.

31.
Nú skal fylgja fram á leið
um frú Máríu að ræða,
hvörsu hún sára hrelling beið
þá hékk fyrir oss uppá kross
hennar sonur, það sæta hnoss,
og sá hún hans undir blæða.

32.
Ekki fæ eg það orðum tjáð,
því ei vil eg ræðu lengja,
hvörsu hún mundi af harmi þjáð,
en huggun fær blessuð mær;
sjálfur gaf það sonurinn skær
að sorg náði ekki að þrengja.

33.
Sverð það gamli Símeon getur
signað Máríu hjarta
sært og smogið í gegnum getur;
grátið fljóð hjá krossi stóð
en meistarans Jesú miskunn góð
mýkti hryggðar parta.

34.
Sjá þú, þar er sonurinn þinn!
segir hann þá til *hennar.
Jón postula í annað sinn,
elskuligt er að heyra slíkt,
þar er þín móðir, þenktu ríkt
á þýðing ræðu minnar.

35.
Sonurinn leið og móðirin með,
minnstu þýðing sanna:
Kristni góð, sem glöggt var téð,
grætur enn þá vondir menn
Guðsbörn þjá og þvinga í senn
þó þrautir verða að kanna.

36.
Fögnuður Máríu fleiri en hryggð
finnst í helgu letri;
heilags anda hin hæsta dygð
hana huggaði þrátt dag sem nátt;
um drottins móðir mæli eg fátt
nema mey var engin betri.

37.
Dygðaspegill er drottins frú,
þau dæmi gefur oss öllum
af hreinni ástgjöf, hjartans trú,
að heiðra þann Guð og mann
sem blessan gefur og bjarga kann
bæði konum og körlum.

38.
Vorum vér forðum villtir *svá,
að vildum á hana trúa
og tilbiðja einninn þá
alla senn helga menn.
Lof sé Guði hann leyfði oss enn
á lífs veg aftur að snúa.

39.
Nú vil eg heldur nökkurn part
til næmis oss að skýra
hvörninn þeim sé heiðri vart
sem heilögum ber og skyldugt er.
Heilagur andi hjálpi mér
og hans fulltingið dýra.

40.
Í fyrstu skulum vér þakka þeim
sem þá hefur gjört svo fróma,
oss hefur skapað og allan heim,
vor einka Guð, dugir í nauð
sem öngvum vildi og oss forbauð
öðrum gefa sinn sóma.

41.
En fyrst vér heyrum helga menn
hafa svo trúna góða
þá er oss best að biðja í senn
hans blessaða nafn, sem enn er jafn,
að dragist til vor það dygðasafn
sem dæmin þeirra hljóða.

42.
Um afgang Máríu meint var *svá,
hvað múkar villtir gjörðu,
með holdi og öndu himnum á
að hún sé þar í engla skar,
hvað í allan máta órétt var
því hún er hér grafin á jörðu.

43.
En það er mín trú að sálin sæl
soddan helgra manna
kenni hvörki kvöl né væl,
sé komin í frið hjá himnasmið.
Af innstum rótum eg þess bið,
að vér megum þvílíkt kenna.

44.
Því vil eg um alla ævina mín
unna dygðaríkum,
meistarinn Jesú, móðir þín,
og mörgum þeim nú í heim
sem halda þér með höndum tveim,
svo hljóti eg vist með slíkum.

45.
Máría klár, af meyjunum hrein,
var móðirin góð að Kristi;
hennar þenna hreina svein,
hjartans skart, ljósið bjart,
það blessaða hnoss af bestri art,
bið eg að með mér gisti.

46.
Svo lykta eg dikt og ljóðin góð,
lof sé göfugum herra;
þennan kenni eg þjóðum óð;
þrenning enn heiðri menn
sem allt gott veitir öllum senn
og aldrei náir að þverra.

(Einar Sigurðsson frá Eydölum: Ljóðmæli, bls. 35)