Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Píslarminning | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Píslarminning

Fyrsta ljóðlína:Hinn helgi Pálus hefur það kennt
bls.106--110
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaccB
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
1.
Hinn helgi Pálus hefur það kennt
að hvör mann skyldi læra
og kenna öðrum mjúka mennt,
minna á hvörn sem má
með andlegum kvæðum kynna frá
Kristí lofinu skæra.

2.
Þessu næst í nafni Krists
að nema það allt og vinna
hvað vér gjörum með hreinnri list;
fyr heillir þær þökkum vær
að oss var gefinn Jesús kær,
ei skal lofinu linna.

3.
Lofkvæði mig langar þér,
lausnari minn, að færa
því þú leiðst í heimi hér
harða neyð, písl og deyð;
það gjörði mín synd og saurgan leið,
sé þér lofið og æra.

4.
Eg minnist á það mildi verk
og mikla elskuna þína
þá þín hjálpar höndin sterk
háði stríð eina tíð
við dauðans kvalir og grimmdar gríð,
Gyðingar sárt þig pína.

5.
Vitnis menn þú valdir tólf
að verki og orði þínu
og vildir þeirra visku gólf
og veikan mátt styrkja þrátt
svo ástsamlega á allan hátt
áður en þú gekkst til pínu.

6.
Svo innileg vóru orðin þín
og elsku bænin klára
þá þú líka minntist mín
en meinið bar hjartað þar
sem af orðönum þínum augljóst var
og angurtreganum sára.

7.
Í grasgarðinum þú gjörðir bæn
með gráti og hugarins móði,
þín var hjartans hlýðnin væn,
en hryggðin kann veikja mann,
svo að af holdi sjálfs þíns rann
sveitinn niður með blóði.

8.
Fyr blóðugan sveita, bæn og tár
og benjar allar þínar;
fyr þyrnikórónu og síðusár,
sjáðu mig, beiði eg þig,
elskan föðursins innilig
eymdir bæti mínar.

9.
Undan falla flestöll mein
í frásögn pínu þinnar
því að eg vil þau orðin ein
inna hér, hjálp þú mér
sem á krossi þínum talar og tér,
traust er sálar minnar.

10.
Með bæn og angri bjóstu þig til,
blessaður Jesús góði,
þíns embættis því að eg skil
þú hefur kennt mér það tvennt
þó ódyggð hafi mig hvörn dag hent;
það hefur þú grætt með blóði.

11.
Af föðurnum varstu valinn og sendur
og vígður af helgum anda
á altari kross með klárar hendur;
kennimann elska eg þann
sem fyrir sinn lýð svo fórna kann
og frelsa af öllum vanda.

12.
Þinn kennimanns skrúði kostulegur
kaupist ei með verði;
það er þó lýðsins lausnarvegur,
líkaminn þinn, hárið og skinn,
blóðugur allur, biskup minn,
bót fyrir syndir gjörði.

13.
Þessi skrúði þínum föður
þó hlaut best að líka;
hugsa eg um það hvörn mann skeður
ef hans er barn sært með járn,
þó leið skaparinn gæskugjarn
fyr glataða hrelling slíka.

14.
Hafinn og strengdur á harðan kross
var herrans búkurinn hreini,
fullur af ást með faðm og koss;
fórnin dýr sig til býr
að taka við þeim sem til hans flýr,
því talar hann sem eg greini.

15.
Í fyrsta orði föðurinn bað:
Fyrirlát kvölurum mínum;
þeir vita ei hvað þeir hafast nú að;
hjartað þitt gefi það kvitt,
hér græddi Jesús meinið mitt
með mjúkum orðum sínum.

16.
Mín hafa dárleg verkin víst
valdið Jesús dauða;
hans hendur og fætur og hjartað níst,
hörmung sár síð og ár,
fyrir það skyld eg fella tár
að flóði blóðið rauða.

17.
Við postulann Jón og Máríu mey
mælti hann öðru sinni:
Sjá þú móðir, syrg þú ei,
sonur þinn er þar hjá þér.
Postulanum hann tjáir og tér:
Taktu við móður þinni.

18.
Andleg meining orða hans
er sem hér skal greina:
Kirkjan er móðir kennimanns;
kærlega bað nú um það
að hún skuli fóstra hann í stað
því hennar er læknir meina.

19.
Við ræningjann þú ræddir blítt
sem réði til þín að venda;
er það þriðja orðið þitt;
Jesús hér þanninn tér:
Í paradís þá skaltu með mér
á þessum deginum lenda.

20.
Hér gefst öllum huggun merk
sem höfuðið missa verða
fyr ódáða illsku verk
ef iðrast hreint þó það sé seint;
þetta orð, sem hér var greint,
þeirra trú skal herða.

21.
Það fjórða orð í fullri nauð
til föðursins Jesús kallar:
Því yfirgafstu mig Guð, minn Guð;
gætum að í annan stað,
manns náttúruna þreytti það
að þola fyr syndir allar.

22.
Því var græðarinn Guð og mann
svo gæti hann sigrað dauða;
eitt er mest það angrar hann
sem eftir fer, lausnin er
af flestum öllum forsmáð hér;
það fékk honum aflað nauða.

23.
Þessu næst að þyrstir mig,
þá nam Jesús mæla.
Gall og sýran svívirðilig
var sett fyr munn á líknar brunn,
hans þrautar neyð er þæg og kunn
þeim sem búin er sæla.

24.
Hann þyrsti og lysti og langaði mest
á lausn og frelsi þjóða.
Þá var unnin þrautin flest
þegar í stað talar hann það:
Fullkomnað er, frelsarinn kvað,
fórnarverkið góða.

25.
Fórnir og offur forðum tíð
fyrr voru steikt á eldi.
Það þýðir Kristí þrautar stríð;
þanninn fer, hlýttu mér,
af logandi ást sem lýsist hér
hann lífið í dauðann seldi.

26.
Talar hann loks í sjöunda sinn
svo með röddu skærri:
Nú fel eg af elsku, faðirinn minn,
fagra önd í þína hönd
því laus er hún hér við líkams bönd
en lifir í vegsemd hærri.

27.
Hér kenndi Jesús andláts orð
elsku börnum sínum
svo forðist sálin Satans morð
seg þú mann eins og hann
fyr þann sigur eð frelsarinn vann
þá fagna eg dauða mínum.

28.
Eilíft lofið af elsku mátt,
Jesús, vil eg þér vanda,
æru og dyggð á allan hátt,
er þín pín lækning mín,
fyr það aukist frægðin þín
með föður og helgum anda.

29.
Hvað má eg Guði gjalda á mót
fyr gáfuna hvörri meiri
nema hreina ást af hjartans rót;
hjálpa þú nú veikri trú
svo aldrei linni lofgjörð sú
og lokki eg til þín fleiri.

30.
Hér má eg læra, herra minn,
hvað hörð var föðursins reiði,
það kostaði dýran dauðann þinn;
en dugði ei eitt annað neitt
að stöðva skaparans hjartað heitt,
það hefndar gjaldið greiði.

31.
Í annan máta er mér kennt
að eymdum syndar gæta;
eitrið það hefur Satan sent;
svo var römm veraldar skömm
að engill mátti eigi þá vömm
né önnur skepnan bæta.

32.
Í þriðja laginu þyrftum vér
að þakka og minnast lengi
því elskuna hefur þú auðsýnt hér
aumum þræl, þrenning sæl,
þú kenndir í brjóstum barna væl
það bætt gat skepnan engin.

33.
Jesús fann það óskaráð,
fyr oss gaf lífið í dauða;
föðursins hjarta fullt af náð
fram gaf hann saklausan;
það til friðar og frelsis vann
fortapaðra sauða.

34.
Þó reiðin Guðs og réttarhald
sé raunar strangt með öllu
syndin beisk og Satans vald
sagða eg hætt, það er nú grætt,
lausnarinn hefur það ljúfur bætt
og lokið upp himna höllu.

35.
Hvað vill angra hjartað mitt
eða hvað skal á mig bíta
því helgioffrið hefur nú þitt,
sem hér var rætt, fyrir mig bætt;
í augsýn föðursins ilmar sætt
svo enginn má mig lýta.

36.
Láttu mig njóta, lifandi Guð,
lausnarans dýrra unda;
hans heilaga blóð í hvörri nauð
hægi mér, treysti eg þér,
svo megi eg það hvörn dag minnast hér
og mildi verkin stunda.

37.
Láttu vondan veraldar heim
við mig öngvu ráða,
girndir ljótar, gull né seim
svo gleymi eg þér; stýrðu mér
þínum limum að þjóna hér
þeim til styrks og náða.

38.
Þá hjörðu og lýð sem hefur þú mér
á hendi falið að gæta,
minn barnahóp og kvinnu ker
kýs eg nú, bið eg af trú,
góði hirðir geymir þú
fyr gæsku blóðið sæta.

39.
Það er mín trú að þessi pín
og þinn enn bitri dauði
svo sé vörn og verndin mín
að vinna bót glæpa nót,
mín hrekkja vömm og hneykslin ljót
hylur þinn dreyrinn rauði.

40.
Píslarminning, óbreytt orð,
eg vil kenna láta;
þau eru helst fyr þessa gjörð
sem þenkja á mæðuna þá
sem Kristur þoldi krossinum á
svo kynnum vér syndir að gráta.

41.
Svo skal lykta ljóða þátt
með lofgjörð eftir vanda;
hvör það kveður og hugsar þrátt
hljóti hann frið, eg þess bið,
frelsarans aukist frægðin við
með föður og heilögum anda.

(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 107–110)