Guðspjallsvísur af þeim sára manni – Guðspjallasálmar Einars í Eydölum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallsvísur af þeim sára manni – Guðspjallasálmar Einars í Eydölum

Fyrsta ljóðlína:Sú er nú ein í hjarta hrein, það höfum vér lært
bls.88–91
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) sex- og ferkvætt aaaa
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Innrímið í kvæðinu er stundum hálfrím.
1.
Sú er nú ein í hjarta hrein, það höfum vér lært,
ástar grein fyrir utan mein að elska kært
lífsins orð, það ljósið skært
sem lausnarinn, Jesús, hefur oss fært.
2.
Drottins ræða fyrst kann fræða fávís börn,
sálina fæða, síðan græða sárleik hvörn;
á móti Satans vélum vörn,
venur hún hjörtun dyggðagjörn.
3.
Sonur Guðs alla sjálfur kallar sæla þá
sem guðspjalla um ævina alla ástum ná.
Hvað hans postular heyra og sjá
hefði kóngana girnt að fá.
4.
Hér með vildi meistarinn mildi minna á
að hvör mann skyldi í hæsta gildi hefja þá,
heill og sælu ef hreppa má;
hér stóð nökkur spekingur hjá.
5.
Lögmáls Njörður, fullur flærðar, fréttir Krist,
að hvörjar gjörðir helst að færðu í himna vist.
Svaraði Drottinn svo með list:
Sjálfur lestu boðorðin fyrst.
6.
Þú skalt unna og elska kunna einn Guð rétt
af hjartans grunni og gæsku brunni í góðri stétt
og náungann sem þig sjálfan slétt.
Það segir hann fyrst í lögunum sett.
7.
Gjör það nú sem greinir þú, að Guðs son tér.
Af ljúfri trú og lifa munt þú sem lofað er þér.
Lögspekingurinn leitar sér
lofs og spyr hvör náunginn er.
8.
Lausnarinn þýður, lyndis blíður, leit þá við:
Á það hlýði allur lýður, eg þess bið,
hvör þeim sára sýndi lið,
svipti neyð og keypti í frið.
9.
Aðburð þann um einhvörn mann, að Jesús tér,
hvör ferðast vann, sem verða kann, í veröldu hér;
frá Jerúsalem ofan hann fer
til Jeríkó sem vegurinn er.
10.
Þessi maður, þeygi glaður, í þeirri för
hreppti skaða, skemmd svo bráða og skálka pör;
klæðum ræntur, kempan snör,
kvaldi og særði reyfarinn hvör.
11.
Í dauðans fári, særður sárum, síðan lá.
Með glettitárum grimmir dárar gengu frá.
Prestur nökkur, sem að hann sá
á sinni leið, þar sneiddi hann hjá.
12.
Levíti annar einn veg kannar og þann sér;
um sára mann ei sinnir hann sem sagt er mér.
Einn samverskur síðast fer,
sampíning í hjartanu ber.
13.
Af fjarlægð kemur og finnur hinn auma á förnum veg,
bindur og saumar sárin sömu ósýnileg;
með víni og óleó mýkir mjög,
mun honum ekki lækningin treg.
14.
Leggur hinn sjúka á sinn eyk og ekur með sér,
lækning mjúka veitir veikum vel sem ber,
til herbergis sem hentugt er,
við húsbóndann hann semur þó gjör.
15.
Tvo peninga frá eg hann fengi í fósturlaun
meðan blíðlingur í burtu gengur að bjarga í raun;
biður hann hugsa um hættleg kaun,
heitir síðan meiri umbaun.
16.
Guðs son spyr þann getið var fyrr af Gyðinga her:
Spekingur dýri, hoskur og hýri, það herm þú mér:
Hvör þeirra þriggja þykir nú þér
þess náungi er særður lá hér.
17.
Sá sem að vann, svo svaraði hann, þeim sára bót,
læknaði þann hinn meidda mann með mjúkleg hót.
Guðs son lagði grein á mót:
Gjörðu slíkt af hugarins rót.
18.
Nú vil eg þýða en þú skalt hlýða á þessi ljóð
hvað meistarans blíða málsnilld fríða merkir góð.
Hann diktaði þessi dæmin fróð,
dulin og myrk fyr Gyðinga þjóð.
19.
Adam faðir er sá maður, eg áður kvað,
hreppti óglaður skemmd og skaða og skilinn með það
frá Jerúsalem náðarstað
til Jeríkó í veraldarbað.
20.
Satan vann að svíkja mann og særa verst,
felldi á hann hið hætta bann og hrakti mest;
fyr syndina gat svo limuna lest,
að lá hann í sorg og hugarins brest.
21.
Ræntur klæðum, góðum gæðum, Guðs ímynd;
í öllum ræðum, firrtur fræðum, fullur af synd;
horfinn sómi en hyggjan blind;
harm nú slíkt hvör mannleg kind.
22.
Líkt sem dauður í langri nauð hann liggur þá,
ærusnauður, elsku trauður, í eymd og þrá.
Prestur og Levíti, sem að hann sá,
segja skal nú hvað þýðum vér þá.
23.
Prests stétt fríð í fornri tíð og fórnir þær
þar Móyses býður lögmál lýð sem lásum vær;
það hjálpar úr dauðanum hvörgi nær,
hér er hinn sári jafnlítt fær
24.
fyrr en kemur og sárin semur ein samversk kind
sem hálfu fremur í hjarta nemur þá hryggðar mynd.
Guðs son, Jesús, gleður með hind,
hann græddi mann af dauða og synd.
25.
Þetta eð sæta lítillæti léttir pín;
vel kann bæta meistarinn mæti meinin mín;
bar hann í sárin veglegt vín,
vísdóms lög og boðorðin sín.
26.
Guðs son smurði ástar orði aumleik manns
svo alheil urðu hneykslin hörðu hjarta ranns;
það óleum góða er til sanns
evangelíum, miskunnin hans.
27.
Eykurinn, frá eg, að merkja má hans manndóms ok;
fyr elskuna þá þeir allir fá góð ævilok
sem herrann sér á herðar tók
til herbergis og lækningar jók.
28.
Þetta húsið er herrans Jesú kirkja klár;
þar er hann fús að þvo og leysa synda sár.
Húsbóndinn er hirðirinn fjár
sem helgidóminum fyrir að stár.
29.
Honum að selur og á hendi felur hinn sára svo,
úr pungi velur og presti telur peninga tvo.
Lögmáls ógn þar undir bjó,
evangelíum gleður hann þó.
30.
Þanninn lætur lausnarinn mætur lækna hann
sem áður grætur í sorgar sæti hinn sári mann;
lofar að heiðra hirðir þann
sem hugula næring veita kann.
31.
Jesú kæri, hjartað hræri, hjálpa mér.
Gef þú eg læri að lifa sem bæri í heimi hér.
Fyr lausn og græðing lofið sé þér.
Svo lykta eg dikt og bragarins kver.
(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 88–91)