Sextánda ríma [Jesús Síraksbók í rímur snúin] | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Síraks rímur 16

Sextánda ríma [Jesús Síraksbók í rímur snúin]

SÍRAKS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Því sextánda þjóðum býð eg þagnarbann
Bragarháttur:Braghent – samrímað eða braghenda samrímuð
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Rímur

Skýringar

Rím stundum aaa
Sextánda ríma
1.
Því sextánda þjóðum býð eg þagnarbann,
iðin höndin auðgar mann,
á það gjörn er vinna kann.
2.
Hvörki vinn eg lof né laun í ljóða smíði,
eðla ráð eg öðrum þýði
engin þó mig sjálfan prýði.
3.
Arkar smiðirnir unnu gagn en aðrir nutu.
Verknað hinum vanda hlutu,
í vatninu þó sjálfir flutu.
4.
Þó eg öðrum kennda kurt í kvæðum reisi,
sjálfs míns geymir syndugt hreysi,
siðanna brest og viskuleysi.
5.
Það má heita hyggindi og hvörs manns æra
í heilræðum annan læra,
einninn sér í nyt að færa.
Fertugasti og fyrsti kapituli
6.
Í orðin allt hvað aflað getur oss að senda
á til hennar aftur að venda,
öll sem vötn í sjónum lenda.
7.
Illa fenginn auður mun til eyðslu falla,
sennleiks blómin sölnar valla,
síðan varir um eilífð alla.
8.
Upp svo þornar óguðræknum auður nýtur,
sem reiðarþrumu regnið brýtur
og raklendi það visna hlýtur.
9.
Guðlausir eru glaðir á meðan gjafir þiggja,
endalokunum að má hyggja;
aumir þeir um síðir liggja.
10.
Afkvæmið þeim öngvan kvist né ávöxt greini,
rót á berum stendur steini,
stoðar ei dögg við slíku meini.
11.
Guðlegt líf hins ljúfa manns er líkt að vanda,
aldingarði er ei má granda,
ævinleg mun miskunn standa.
12.
Hvör sér næring nóga vinnur og nægja lætur
náðugt líf og svefn er sætur,
sjóður telst það harla mætur.
13.
Hann sem borgir byggir upp og börnin getur,
langæða sér minning metur,
mild þó kvinnan langtum betur.
14.
Hjartað gleður hljóðfærið og heilnæmt vín,
þó fær vit og viskan fín
vinsæld þá er síður dvín.
15.
Pípur hljóða heldur vel og hörpu sláttur
en vinskaps orð og elsku máttur
öllum lýst þó fegri háttur.
16.
Margur vitjar víst í neyð til vina sinna,
hvört mun öðru karl og kvinna
kærleikann þó bestan inna.
17.
Bróðir sýnir nökkra náð þá neyð er mest,
miskunn heit í hjarta fest
hjálpa mun þó þeirra best.
18.
Gull og silfur gunnum veitir gott uppheldi,
hentugt ráð sem hygginn seldi,
heldur styrkir mannsins veldi.
19.
Magt og góss til margrar dirfsku manninn hvetur,
ótti Guðs þó öllu betur
er þeim nægð er haldið getur.
20.
Drottins ótti grasgarði er góðum líkur,
Guðs af blessan gjörður ríkur,
girndar fagur er enginn slíkur.
21.
Gjör þú þig ei þurfa mann af þínu brauði,
betri er heldur hægur dauði
en húsgangurinn dyggðasnauði.
22.
Illt er þar að óska brauðs er aðrir borða,
halda sig til hræsnis orða,
hyggnir menn sér þessu forða.
23.
Blygðarlausum blíð og sæt er bónar iðja,
oft þeir fá um ævi miðja
óheilindi er þanninn biðja.
24.
Heljar minning heimskum vekur hugraun stranga,
er sorgarlausir farsæld fanga
og flestallt vill að óskum ganga.
25.
Þeim er dauðinn þakknæmur sem þrautir lýða
og ellikvillar oft á stríða
en einskis hafa þó betra að bíða.
26.
Ekki skyldir hræðast hel en hugsa heldur,
öllu holdi herrann geldur
hegning þá sem syndin veldur.
27.
Ekkert dugir drafl á móti Drottins vilja,
æviskammtinn öngvir kilja
eftir þá er hér við skilja.
Fertugasti og annar kapituli
28.
Börn ómildra erfðaplógs síns alllítt njóta,
last og smán að lyktum hljóta
lagsmenn þeirra er þanninn brjóta.
29.
Vondur faðir vítur barna verður líða,
því fyrir hans fólsku stríða
foraktan þau löngum bíða.
30.
Þeim er vei sem ekki aktar orð hins hæsta,
þessir lífs og liðnir næsta
líða verða bölvan stærsta.
31.
Allt sem verður aftur jörð sem af henni kom,
illfús fær svo forboðs róm,
fyrirdæmingar síðan dóm.
32.
Mótgangur oft endast þar til ævin þrýtur,
nafn ómildra afmást hlýtur,
enginn finnst þeim heiður nýtur.
33.
Hafðu kapp að halda megir heiðurs nafni,
það óspillt er fyr hundi og hrafni
og hvörju betra fjárins safni.
34.
Einn þó kunni indælt líf og auðlegð fanga,
skammvinnt mun á grunn þó ganga
en gott nafn varir dagana langa.
35.
Aðgætið, mín elsku börn, þá allvel gengur,
að Guðs ótta því geymið lengur,
góðs þarf ekki að skammast drengur.
36.
Einn sín skammast oft um það sem ekki skyldi
og samþykkur því verða vildi
er veit ei nema síðar gildi.
37.
Hjónin sér það haldi skamm að hórdóm drýgi,
höfðingi ef leggst í lygi
og lögsegjandi að réttinn flýi.
38.
Alþýðan fær ærubrest af óhlýðninni,
góður vin ef grand hann vinni
en granni manns af þýfsku sinni.
39.
Blygðast þú á borði brauð með höndum hylja,
klárt þinn reikning kunna ei skilja
og kveðjanda ei gegna vilja.
40.
Skammast þín að skyldir eftir skækjum leita,
ellegar í nauðsyn neita
náskyldum þér lið að veita.
41.
Eiganda með órétti frá arfi víkja,
eiginkonu annars svíkja,
ambáttar við sæng að snýkja.
42.
Vin og bróður blygðast skyldir brigsli að finna,
eftir leita né áminna
umbun hans til gjafa þinna.
43.
Skammast þín að herma hvað sem heyra náðir,
leyndra orða ekki að gáðir
einkamál ef mörgum tjáðir.
44.
Hvör með skynsemd skammast sín og skúfar meinum
prýddur kallast heiðri hreinum
og hylli sæll í mörgum greinum.
45.
Góðra líka gæta skyldir gjörða hinna
er skammast ættir ekki þinna
og einskis vegna rangt að vinna.
46.
Til réttinda góðan granna gjarnan styðja
við tryggðamann þinn trútt að iðja
og til arfskiptis vinum ryðja.
47.
Vigt og mæling métra rétt og mátann finna,
hógværð geymi hjartað svinna
hvört þú aflar meira eða minna.
48.
Rétt handtéra heimsins auð þótt hugsir græða,
börn með alúð upp að fæða
og argan þræl með vendi hræða.
49.
Vondri konu verja þitt er vill þig æsa,
fyr ódyggðum allt að læsa,
að ekki síðar þurfir þræsa.
50.
Vega og telja allt hvað ættir öðrum hjá,
inntektir og útgjöld smá
uppskrifa sem glöggvast má.
51.
Gömlum, heimskum góðan lærdóm gjarnan kynna,
við ungmenni ekki sinna,
orðstír má svo hvör sér vinna.
52.
Velskikkaður virðist sá því venjast kunni
greindum kostum gjarnan unni,
getur sér lof af hvörjum munni.
53.
Föðurnum eykur andvökur hans ógift meyja,
hér til verður hugsun hneigja
og heilar nætur svefnlaus þreyja.
54.
Gullskorð uggir gamlist fyrr en giftist manni,
til ekta gefin að óvild kanni
eða sé spillt í föður ranni.
55.
Bónda sínum bundna trú að bregða megi,
börn við honum engin eigi
óbyrja svo lífið þreyi.
56.
Dóttur þína óbljúga ef ögun þrýtur
æru kostinn af sér brýtur,
óhróður þú sjálfur hlýtur.
57.
Kosta ei að keppast eftir konum fríðum,
hjá þeim vertu varla tíðum,
varna svo við háska stríðum.
58.
Motti kemur klæðum úr með krankdóms slagi.
Má svo falla margur bagi
manni til af kvenna lagi.
59.
Háska minna athvarf er hjá illum manni
en kalls að líða í kvenna ranni,
kært þó láti við þig svanni.
60.
Hafni illu, höndli gott sá heyrir kvæði,
heilræðanna hentugt fræði.
Hér mun mál að standa næði.
Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 417–419)