Fjórtánda ríma [Jesús Síraksbók í rímur snúin] | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Síraks rímur 14

Fjórtánda ríma [Jesús Síraksbók í rímur snúin]

SÍRAKS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Fornar dreggjar, Friggjar öl
bls.408
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Rímur

Skýringar

Fyrsta og síðasta vísa hafa skothent rím í 1. og 3. línu, hvor vísa með sínu móti.
Fjórtánda ríma
1.
Fornrar dreggjar Friggjar öl
fjórtánda eg ljóða.
Drykk er ekki á dýrum völ,
dauft því verð eg bjóða.
2.
Mér er ekki mærðin kennd
meistarans undir vendi,
Eddan mín er ofan send
almáttugs af hendi.
3.
Vissa eg mína veika mennt
að vanda ræðu slíka,
hefði mér eigi herrann sent
hjálpar gáfu ríka.
4.
Til áræðis anda sinn
einn Guð mér til lagði.
Hólastiktis herra minn
hróðrar efnið sagði.
5.
Af þeirra trausti tók eg magn,
tæpan dug að herða,
vild eg bæði gaman og gagn
gumnum mætti verða.
Þrítugasti og fimmti kapituli
6.
Enn þó gefist offur prýtt
af rangfengnum auði,
andstygglegt og öngvu nýtt
aktast það hjá Guði.
7.
Illra gjöf er ógleðlig
fyr augum herrans sæta,
ekki láta syndir sig
með soddan gáfum bæta.
8.
Fer þeim eins er fórnir gefur
af fátæks eignar baugum
og þá soninn sæfðan hefur
sjálfs fyrir föðurs augum.
9.
Lítið brauð hinn aumi á
einum sér að veita,
hvör það tekur hér fyrir má
hans morðinginn heita.
10.
Næring lífs ef nökkur tekur
náungans frá munni,
í hans dauða að ei sé sekur
aldrei verjast kunni.
11.
Hvör sem vogar verðug laun
verkmanni að neita,
blíðu lofar en bregst í raun
blóðs má hundur heita.
12.
Þá mann byggir efnið eitt
og aftur gjörir að brjóta,
þar af kann ei annað neitt
en erfiðið sjálft að hljóta.
13.
Nýta bón þó biðji mann
ef bölvar strax á móti,
síst er von að sjálfur hann
sinnar bænar njóti.
14.
Þeim um dauðan þreifar mann
þvottur gildir valla,
ef sá verður enn um hann
aftur strax að fjalla.
15.
Sá fyr syndir þunga þraut
þreytir föstu langa,
ónýt strax ef aftur braut
er þeim skriftin stranga.
16.
Herrans boð að halda rétt
helst er offrið besta,
mikils akta orðsins stétt
ástarfórnin mesta.
17.
Þakkar Guði sá er semur
sætleiks fórn það heitir,
hann sem miskunn manni fremur
mektugt offur veitir.
18.
Aflát synda góð gjörð er
og Guðs þjónustan manna,
rangindum að hafna hér
hlífðar offrið sanna.
19.
Tómhentur ei hæfir þér
herra að birtast þínum,
honum í öllu hlýða ber
í helgum ræðum sínum.
20.
Offur helgra auðgan gefur
altarinu stærsta,
sætan ilm og álit hefur
í augliti hins hæsta.
21.
Offurs gjafir guðlegs manns
góða hylli bíða,
almáttugum útlát hans
aldrei úr minni líða.
22.
Með glöðum augum gef þú dýrð
Guði sem þér bæri,
útlát þín með öngva kyrrð
og ei sem skortur væri.
23.
Alltíð sért í gjöfum glaður,
gjarn og fús til náða,
eftir því sem ert til maður
efnin hljóta að ráða.
24.
Hýrleg gjöf má helga mann
og höllum launum valda,
Guð vill síðar sæma þann
og sjöfalt endurgjalda.
25.
Í útlátum varast víst
vesælingur að heita,
af offri þínu allra síst
orðlofs þér að leita.
26.
Sumum herrann hefndin er
en hjálpin aumra manna,
augum hans ei aktast hér
álit persónanna.
27.
Föðurlaus þá fallinn grætur
fús vill Drottinn hlýða,
ekkna bænir ekki lætur
andsvars lengi bíða.
28.
Ekkju tár af augum þrátt
þó ofan renna hljóti,
þau kalla upp í himininn hátt
heiptar manni í móti.
29.
Guðs þénari góðfúsligur
geðjast Drottni næsta,
þeim mun bænin sækja sigur
send í loftið hæsta.
30.
Bæn hins auma gengur greitt
í gegnum skýin þröngvö,
þar til hún er heyrð og veitt
hnekkir fær í öngvö.
31.
Mun þá Drottinn dæma rétt
og dvelja ei að gjalda
þessum straffið þeygi létt
er þjáning aumra valda.
32.
Ranglátra hið ríka vald
reiður fellir herra,
hvörjum einum greiðir gjald
gjörðum eftir þeirra.
33.
Fólks síns hefnir herrann sætur,
hörðu steypir mengi,
Guðs náð hina gleðjast lætur
grát sem þoldu lengi.
34.
Rótin þurr má regni best
réttan tíma kjósa,
svo þá neyðin manns er mest
miskunn fær hann ljósa.
Þrítugasti og sjöundi kapituli
35.
Mannsins kviður til sín tekur
tærings fæðu marga,
þó er matur misjafnt frekur
mennsku lífi að bjarga.
36.
Villibráðsins reiddan rétt
reynir tungan hreina,
frá því sanna falsið slétt
forsjáll kann að greina.
37.
Prettvís einn má annan hér
til ófalls stundum ginna,
forsóttur sig vítum ver
og verka gætir sinna.
38.
Móðurin alla elskað getur
arfa sína kæra,
samt má dóttir sonum betur
siðuga hegðun færa.
39.
Kvinnan fríð sú kætir mann
kær yfir hlutina alla,
sé hún gæf og góð við hann
garp má sælan kalla.
40.
Þeim sem hefur holla frú
hægðin skortar eigi,
indæl hjálp og aðstoð trú
er upp á treysta megi.
41.
Bæ sinn enginn brotum ver
í burt ef garður væri,
bresti konu bóndinn er
beint sem viltur færi.
42.
Reyfara þeim er ódyggð ann
enginn gjörir að trúa,
er staða í milli stilla kann
en stöðugur hvörgi búa.
43.
Svo er ódyggð ötluð þeim
sem ekkert hreiður hafði,
leitar þar til húsa heim
er húmið leiðir tafði.
44.
Hollan vin sig heldur títt
hvör í ræðu sinni,
nökkrir bera þó næsta blítt
nafn en rentu minni.
45.
Ef vina í milli þrútnar þrá
af þungu heiftar nauði
seggja enginn sættir þá
sjálfur fyrr en dauði.
46.
Hvað mun valda vondskap þeim
er vex í millum sveita.
Af falsleika sem fer um heim
full má veröld heita.
47.
Einum vin sem allvel gengur
aðrir gjarnan fagna
en sem ekki er auðnan lengur
ótrú við hann magna.
48.
Sitt ógagnið syrgja meir
en sjálfs hans neyð og vanda,
hann þó falli hugsa þeir
hættulaust að standa.
49.
Góðum vin á gleðinnar tíð
gleyma skaltu eigi,
einkum þá þér auðnan blíð
aftur vaxa megi.
50.
Einn svo ráðin öðrum leggur
aldyggur sem væri,
gagn sitt eigið sér þó seggur
sjálfum hvað sér bæri.
51.
Setnings glöggur sjá þú við
soddan ráðaneyti.
Þeirra mun þér lítið lið
líklega þó breyti.
52.
Hann ráðleggur sjálfum sér
sitt gagn vinna vildi,
en fyr byrðum beitir þér
beint svo falla skyldi.
53.
Af þeim þigg þú engin ráð
sem öfund við þig geymir,
óheill öngva drýgir dáð,
dyggðum heldur gleymir.
54.
Hvað mun ráð í randaél,
ragur kunna að leggja,
né kaupmaður virða vel
vöruna ykkar beggja?
55.
Skyldi hann sjálfur setja lag
á sölupeninga þína,
né óþokkinn örleiks hag
öðrum fram að tína.
56.
Hvað skal þessi að þiggja ráð
sem þekkir öngva mildi,
hvörnin maður nýta náð
nökkrum veita skyldi?
57.
Raunar enginn ráðgast þarf
né reisa nökkra sinnu
við leigudreng um dyggðar starf
né dáðlausan um vinnu.
58.
Ræk þú ekki orða hjal,
óráð hollra granna,
gjarnan heldur girnstu tal
guðrækinna manna.
59.
Þeir sem herrans halda boð
og hníga að þínu sinni
samharma og sýna stoð
seggir ef rása kynni.
60.
Hafðu þeirra hentug ráð
helst til gjörða þinna,
ekki muntu æðri dáð
annars staðar finna.
61.
Herrans girnstu hjálpar lið
í hvörri iðju þinni,
gjörðir þínar greiða bið
svo góðan enda finni.
62.
Áður en þú þitt ætlað verk
uppbyrjar að vinna
hentug ráðin holl og merk
haf til gjörða þinna.
63.
Þenktu að hvað sem vinna vilt
víst muni af sér leiða
lof og gott eða last og illt,
líf eða dauðann greiða.
64.
Vel skikkaður oft er einn
öðrum ráð að inna,
heilræðin þó sjálfur seinn
sér til gagns að vinna.
65.
Klókleg hygg eg rekka ráð
raunill verða kunni,
sem hefjast ei af herrans náð
og hreinum viskubrunni.
66.
Sá af reynslu verður vís
og vísdóms safnar föngum
raunar fær af ráðum prís
og rétt á hittir löngum.
67.
Sá sem velur um visku magn
veitir kennslu stærri,
í ráðum mörgum gjörir hann gagn,
getur og flestum nærri.
68.
Mátinn skamtar mönnum fjör
og mundangs tíminn rétti,
annars lífsins eilíf kjör
útvöldum Guð setti.
69.
Maðurinn hygginn heiðurs róm
hefur um sveitir víða,
mannorð hans og minning fróm
mun því varla líða.
70.
Sveitum veitir visku dyggð
vísan prís til handa.
Hrærða mærð í málsins byggð
mæta læt eg standa.
(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 408–412)