Síraks rímur - Ellefta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Síraks rímur 11

Síraks rímur - Ellefta ríma

SÍRAKS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Ellefta skal Austrar far
bls.398
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur
Ellefta ríma
1.
Ellefta skal Austrar far
enn úr nausti hræra,
fyrra brag þann fallinn var
á fætur reisa og næra.
2.
Æ við þessi vísna störf
vaxi Drottins æra,
mörgum hygg eg mikla þörf
menntan slíka að læra.
3.
Því eru Síraks sætu ráð
sett í rímu fræði,
að upp frá þessu af sé máð
Afmors fornu kvæði.
4.
Hirting þessa heyri drótt,
hér mun kostur mengi
um sig finna frítt og ljótt
frá þó nefnist engi.
Tuttugasti og áttundi kapituli.
5.
Hvör sem gjörir að henda stein
og hátt í loftið senda,
hann má þeim með hættleg mein
í höfði sjálfum lenda.
6.
Hvör sem umsát öðrum vann
og einatt bruggar pretti,
í þá gröf er gjörði hann
get eg að sjálfur detti.
7.
Ætli maður á annan víst
ólukku að fella,
allt mun það þá uggar síst
yfir hann sjálfan skella.
8.
Spjátrungar með spott og háð
spara ei fram að ganga
uns þá höndlar hefndin bráð
hart sem ljónið stranga.
9.
Hvör sem einhvörs andlegs manns
óförum vill fagna,
eymdin mun fyr afgang hans
angur í brjósti magna.
10.
Reiði stór og grimmlegt geð
gunna lýtir næsta,
óguðræknum oftast með
er sú syndin stærsta.
11.
Hvör sem er til hefnda bráður
herrans straff mun líða,
glæp hans lætur Guð sem áður
geymdan lengur bíða.
12.
Gef það til af góðri dyggð,
þó garpar við þig brjóti,
svo fær þú að synda styggð
sé þín kvitt á móti.
13.
Hvör sem heift og hefndar þrá
heldur fast við annan,
hvörnin kann að hitta sá
herrans vinskap sannan?
14.
Vilji argur illsku frekur
öðrum náðar neita,
hvör mun þeim eð svo er sekur
syndakvittun veita?
15.
Lít á það hvar lyktast má,
lát því reiði falla,
hennar vegir hallast á
heljar neðstu palla.
16.
Heiftar kífi halt þig frá,
heft svo syndum þínum,
kveikir margur kapp og þrá
með köldum deilum sínum.
17.
Gjarnan sturlar guðlaus þegn
góðra vina lyndi,
ertir þá þó ástar megn
áður með sér bindi.
18.
Vindur gjörir að vaxi eldur
og verði loginn hærri,
mjög svo líka magtin veldur
að manns sé reiðin stærri.
19.
Auðugum manni allmjög felst
ef á hann gjörir að svífa,
því lengur sem heiftin helst
heitari vill hún blífa.
20.
Upp kveikir sá eld til meins
sem oft deilir af móði,
verður af slíku efni eins
úthellt mörgu blóði.
21.
Vindur af munni valda má
að vaxi af neista eldur,
en ef hann þú hrækir á
hygg eg að slokkni heldur.
22.
Þetta kemur þurrt og vott
af þínum eigin munni,
einn svo bæði illt og gott
öðrum mæla kunni.
23.
Falsmunnur sem fer með lygð
fordæmdur má heita,
hann sturlar frið en steypir tryggð
og stofnar eyðing sveita.
24.
Tungan ill hjá ýmsum veldur
ósamþykki stóru,
margur var svo meinlaus felldur
menn af landi fóru.
25.
Borgir sterkar brýtur niður,
brjálar völdum víða,
þeim er hvörgi hvíld né friður
sem hennar ræðum hlýða.
26.
Svipan gjörir sviða og mein,
sár og benjar meiri,
tungan ill hún brýtur bein
og brákar hlutina fleiri.
28.
Seggi marga sverðið vó
í sóknar éli þungu,
langtum fleiri finnast þó
felldir af illri tungu.
29.
Gott er þeim sem geymdur er
fyrir grimmrar tungu æði,
hennar ok sá ekki ber
og hjá sneiða næði.
30.
Hörð sem járn er hennar kvöl
og hættar snörur af eiri,
plágur verri en beiskast böl
og brunanum heljar meiri.
31.
Undir leggur hún öngvan þann
sem ótta Guðs nam kenna,
aldrei lætur herrann hann
í hennar eldi brenna.
32.
Hinn sem Drottni hverfur frá,
hann mun þar í falla
og brenna svo í beiskri þrá,
að bótin finnist valla.
33.
Þegnar girða þyrnavið
þétt að eignum sínum,
haf þú líka hagleiks snið,
hurð fyr munni þínum.
34.
Gull og silfur girnist þú
á glöggva vikt að færa,
veg þín orð með allri trú,
er það prís og æra.
35.
Um hugsa svo orð og verk
að ekki megir þú falla,
óvini og umsát sterk
yfir að vinnir alla.
Tuttugasti og níundi kapituli.
36.
Náung sínum nauðþurft hans,
ef nökkur lánar gjarna,
góðgjörð er það ein til sanns
og ei má þessa varna.
38.
Þeim sem lét þér lán í té
loforð skaltu halda,
í réttan tíma tilsett sé
trúlega að endurgjalda.
39.
Höndla rétt og hugsa um það
hvað þú skyldir inna,
heldur muntu í hvörjum stað
hjálp í nauðsyn finna.
40.
Fengið lánið feilar margur
og fund sem reiknar granni,
óvild sínum innir kargur
eigin hjálpar manni.
41.
Hann minnist við hans milda hönd
á meðan að hinn vill veita,
auðmjúk eru þá orðin vönd
og umbun stórri heita.
42.
Enn sem gjalda aftur skal,
er þá margt til varna,
flýtur bæði og fánýtt hjal,
fresta vill því gjarna.
43.
En þótt hefði efnin nóg
alla skuld að reiða,
hinum telur hann hæfan plóg
helming láns að greiða.
44.
Efnin gjalds ef engin sé
er þó svik við annan,
þá hefur einn með eigin fé
óvin keypt sér sannan.
45.
Sá bítalar bölvi á mót,
brigsli og skemmdar orðum,
en fyr þakkir þungleg hót
þeim er hann gladdi forðum.
46.
Margur lánar mjög svo tregur,
meinar að verða megi,
að sá sem féeign frá honum dregur
frekt muni launa eigi.
47.
Þó í neyð er nauðsyn mest
náunganum að bjarga,
en á gjaldi góðan frest
gefa um dagana marga.
48.
Fátækum þú fullting greið
fyrir boðorðið stranga,
lát hann síst í sinni neyð
synjanda burtu ganga.
49.
Þínu fé þú farga því
fátæks bróðurs vegna
heldur en felir foldu í,
frá eg það betur gegna.
50.
Himneskum þér safna sjóð,
svo bauð þrenning hæsta,
er sú betri eignin góð
en eðla gullið glæsta.
51.
Ölmösan í einum stað
útvalin svo bíði,
frá ólukku frelsar það
og fær þér sigur í stríði.
52.
Í borgun gengur góðfús maður,
gjarnan leysir vanda,
í útlátum er annar staður
ókvitt lætur standa.
53.
Velgjörð blíð þíns borgunarmanns
bið eg þér fyrnist ekki,
hann í veð hefur sig til sanns
sett fyrir þína hrekki.
54.
Óþakklátan ekki nein
ástar prýðir hreysti,
stofnar skaða, meiðsl og mein
manni þeim hann leysti.
55.
Borgunar sú þunga þraut
þjáð hefur löngum flesta,
auðugur margur af því hlaut
aura tjónið mesta.
56.
Ef sá bregst sem borgun hét,
býður vél og hvekki,
hegningu sem hæfa lét
hann hjá sneiðir ekki.
57.
Hvörjum manni hörmung frá
hjálpaðu eftir megni,
þó við skaða sjálfs þíns sjá
sem fyrir bestu gegni.
58.
Vatn og brauð að vísu tvennt
voru nægir lífi,
þar til klæði og húsin hent,
að hylja menn og hlífi.
59.
Eigið hús með efnin smá
indælla má heita
en gestur að vera gumnum hjá
þó gnóttir hafi að veita.
60.
Lát þér lynda hvört þú hefur
hægð eða skortinn stranga,
hörmung stóra hvörjum gefur
húsa á milli að ganga.
61.
Hvar hann inn að kvöldi kemur
kunnungur manni öngvum,
hryggvan sig með hræðslu temur,
hlýtur að þegja löngum.
62.
Verður sitt að veita á borð
vill hann hvört eða eigi,
þó má ske að þéttleg orð
þar með líða megi:
63.
Rýmdu út með öngvan frest,
ekki fær þú greiða,
eg vil annan æðra gest
inn í húsið leiða.
64.
Víst er þungt þeim vitrum hal
verða slíks að bíða,
að hússins vegna hljóta skal
höstug orð að líða.
65.
Er við brigslum best að sjá
og breytni gæta sinnar.
Hér skal enn sem ætla má
endir rímu minnar.
(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 398–401)