Níunda ríma [Jesús Síraksbók snúin í rímur] | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Síraks rímur 9

Níunda ríma [Jesús Síraksbók snúin í rímur]

SÍRAKS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Níunda skal Norðrar skeið úr nausti renna
bls.390
Bragarháttur:Braghent – frárímað
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur
Níunda ríma
1.
Níunda skal Norðrar skeið úr nausti renna,
lofast mér ekki lengi að þegja,
lýðum hef eg fleira að segja.
2.
Leiðir og góðir lærdóm fá af ljóðum mínum,
einninn má hér karl og kvinna
kenna dyggðir verka sinna.
3.
Kennslu fólki Kristur sjálfur kraftinn veiti,
að velja gott en vondu hafna,
vammir flýja og dyggðum safna.
Tuttugasti og annar kapituli
4.
Lötum manni er líkt við stein sem liggur í sauri,
hendur þær sem þessum róta
þvost munu síðan aftur hljóta.
5.
Vanheiður er frómum föður að fengnum niðja,
er skikkan öngva skynja kann
en skynsöm dóttir fær vel mann.
6.
Óráðvönd mun heldur hljóta heima sitja,
hún er föðurnum helst að angri,
heimsk og veldur vansemd langri.
7.
Ótímanleg áminning er eins að finna,
sem stilling hljóðs á strengjafæri
sturlar mann þann hryggur væri.
8.
Hvör sem fræðir heimskan mann um hann má segja,
að leirpotts bæti brákað efni
og bregði af manni þungum svefni.
9.
Eins er tal við heimskan haft og hinn er sefur,
eftir ræðu ykkar búna
að spyr hann hvað sagðir núna.
10.
Lýðir syrgja látinn mann er ljósið missti,
en skynlítinn er skylt að eyma
því skilning öngvan hefur að geyma.
11.
Afgenginn mann enginn skyldi of mjög harma,
því hann er kominn í hvíld síns herra
en heimsks manns líf er dauða verra.
12.
Drengir plaga um dagana sjö hinn dauða að harma,
en óguðrækinn heimsku hal
hans sem langt er ára tal.
13.
Fyrir fávísum mæl ei margt og mjög þig vara
umgöng hafa á ills manns vegi
af óþekkt hans svo saurgist eigi.
14.
Heldur vík þú honum í frá svo haldir friði
og þú verðir ei fyrir angri
af athæfi hans og heimsku strangri.
15.
Blý er þungt og það má kallast þegninn heimski.
Létt er járn og salt með sandi
hjá seggnum þeim er fíflskan vandi.
16.
Sterklega bundið stendst vel hús þó stormar blási
og öruggt hjarta í efni hreinu
óttast ei fyrir harki neinu.
17.
Límkast slétt á sléttan vegg er slæst af regni,
á háfjall upp ef garður gengi
get eg að hvörki standist lengi.
18.
Svo mun hjarta hins heimska manns af hræðslu bundið.
Ekki duga í ötlun sinni
enn þó litla skelfing finni.
19.
Af kreistum augum koma út tár svo kappar líta
og ef mann ratar á annars hjarta
augljóst verður um hyggjuparta.
20.
Sá sem kastar í fugla flokk þá flýja lætur,
með háðungu vin sinn víta
vinskap mun það sundur slíta.
21.
Að réttum vin þó rykkir sverði í reiði þinni,
heldur mun það hægt að þýða
en háðung nökkra ef fengi að líða.
22.
Bráðleg heift mun bætast aftur af beggja hendi,
ef langrækni þú lætur falla
og ljúflega við hann gjörir að spjalla.
23.
Menn forlíka hvörja heift en háðung varla.
Trúskaps rof og tálið pretta,
tryggðabandið slítur þetta.
24.
Þínum vin þá vertu trúr ef volaður yrði,
svo með honum mættir fögnuð finna
fátækt hans þá gjörir að linna.
25.
Stattu fast og styð hann vel þá stöpult gengur,
þú munt lof af lýðum hljóta
lukku hans og síðar njóta.
26.
Eins sem reykur áður kemur en eldur logi,
svo mun háðung hefndir greiða
og helling blóðsins af sér leiða.
27.
Skammast ei þinn vinn að vernda og veita fylgi,
ef þú verður af honum felldur
aðrir hann þá forðast heldur.
Tuttugasti og þriðji kapituli
28.
Munn og varir vilda eg kunna vel að læsa
og traust innsigla á þau smella,
að ekki megi mig tungan fella.
29.
Guð, minn faðir, gjafari lífs og góði herra,
frá lastaranna leys mig pínu
og lát ei steypa ráði mínu.
30.
Hér með kjör eg að hafa taum á hugsun minni.
Í meinleysi mér að haga
og með Guðs orði hjartað aga.
31.
Svo ekki byrji eg verkin vond né villu neina,
óvinum mun hæðni herða
ef hér fyr skyldi eg tapaður verða.
32.
Líknar faðir, lifandi Guð og lífsins herra,
álit ljótt og lysting illa
láttu ei mitt hjartað villa.
33.
Synd ofneyslu ekki láttu á mig falla,
við saurlífis verka valdi
varna mér og lastagjaldi.
34.
Munninn lærið ljúfust börn með list að geyma,
sá það kann mun sjá við meinum
og sig ei fella í orðum neinum.
35.
Hrokafullir, háðgjarnir og hirðulausir,
óguðræknir umfram alla
af orðum sínum þessir falla.
36.
Ven þitt ekki munnsins mál á mikla eiða,
né við leggja nafn Guðs hreina
nauðsynlaust við ræðu neina.
37.
Eins og þrællinn þrástrýktur er þakinn benjum,
svo er hlaðinn syndum seggur
sem Guðs nafnið oft við leggur.
38.
Oftlega syndgar seggur hvör er sver sig tíðum,
því mun ekki þrautin stranga
þessa manns af húsi ganga.
39.
Samt hann syndgar eiðsins afl þó ekki skilji,
en ef veit og sver ei síður
sökin tveföld hefnda bíður.
40.
Til ónýtis sá sem sver er syndlaus ekki,
því mun húsið þeirra manna
þungar hefndir verða að kanna.
41.
Heiðið blót er hvörgi nærri helgum mönnum,
kristna geymir Guð vor herra,
svo gjöri ei slíkt né annað verra.
42.
Ven þig ei með orði hvörju eið að leggja,
soddan art og illur vandi
af óguðrækni hygg eg standi.
43.
Foreldranna fræðing góð þér fyrnist ekki,
hjá svinnum muntu sætin prýða
og seggjum ekki úr minni líða.
44.
Heimskan svo ei þjái þig og þar til neyði,
að bölvi þínum burðardegi
og biðjir værir fæddur eigi.
45.
Háðgjarn seggur sig ei bætir um sína ævi,
annað sinn mun óhegnt valla
en á þriðja hefndir falla.
46.
Garpur hvör sem girndar bruninn gjörir að fanga,
ekki hættir örva spennir
inntil þess sig sjálfur brennir.
47.
Lostasamur litla ró á líkama sínum
hefur þar til hirðir gagna
hyrjar tundur gjörir að magna.
48.
Saurlífum er sætur að finna sérhvör matur,
fyrr ei hættir fleina meiðir
en fullgjört er hvað lystin beiðir.
49.
Ef sá halur er hórdóm drýgir hugsar þetta:
Hvör sér mig þá myrkrið dimma
mína byrgir athöfn grimma.
50.
Hússins veggir hylja mig en hvað má granda?
Hæstur Guð á himni sínum
hyggur ei að syndum mínum.
51.
Hann svo forðast hölda sjón en hugsar ekki,
að augu Drottins öllu beinni
eru skærari sólu hreinni.
52.
Þau sjá allt það aðhefst hvör í öllum heimi,
leyndarfylgsnin líka skoða,
launung slík mun öngvan stoða.
53.
Eru og honum allir hlutir alkunnugir
áður en til efnis fóru
eins og þeir er gjörðir vóru.
54.
Sá mun hitta hefndar straff svo hvör mann sjái,
óvart líka eyðir sverða
í ódyggð sinni fanginn verða.
55.
Eins er það ef ektafrú sinn eigin bónda
yfirgefur giftur svanni
en getur börn við öðrum manni.
56.
Hún svo fyrst við herrans boðorð hlýðni brýtur,
ótrú sínum eignarmanni
elur börn í hórdóms banni.
57.
Soddan víf úr samkundu mun sveitin drífa,
er börnum gjörir brigslin valda
og breytni hennar hljóta að gjalda.
58.
Hennar kvistir öngvan ilm né ávöxt færa,
minning vonda menn það kalla
og misgjörð hennar fyrnist valla.
59.
Út af þessu afkomendur allir læra,
að ótti Guðs sé efnið besta
og orð hans sér í brjósti festa.
Tuttugasti og fjórði kapituli
60.
Vegsamlega viskan sig hjá virðum prísar,
í Guðs söfnuði gjörir sig ljósa
gæðum sínum þanninn hrósa.
61.
Eg er, segir hún, orðið Guðs og allt um skoða,
í upphæðum á eg heima,
um alla staði mun eg svo sveima.
62.
Bæði um himinn, hafsins djúp og heiminn víðan
eg fer einn með umsján góða
og allra á meðal mennskra þjóða.
63.
Hjá þeim öllum hef eg mér leitað hvíld að finna,
skaparinn allra skjóli mínu
skipaði vist hjá fólki þínu.
64.
Upphaf mitt er eilífðin en endir engi,
herrans sett í hæsta gildi,
helgun hans eg þjóna skyldi.
65.
Minn uppvöxtur við má líkjast viðunum dýrstu,
ávöxt góðan eg svo bæri
sem eðla tré þau bestan færi.
66.
Hingað komi hvör sitt girnist hjartað seðja,
samtal mitt er sálargrunni
sætara en hunang munni.
67.
Æ mun sá sem á mér kennir eftir langa,
hvörki fær hann skömm né skaða
er skilning minn vill að sér laða.
68.
Sú er Drottins sáttmálsbók er sjálfur gjörði,
lögmál hans sem lýðnum góða
lofsæll gjörði Móyses bjóða.
69.
Uppspretta sem út af flýtur andlega viska,
sem vatnsföll stærst á vorin renna
með vexti þeim er fæstir kenna.
70.
Aldrei nokkur er sá til er út má læra,
viskumegn og menntan hærri
miklum sjó er öllu stærri.
71.
Lækir af mér ganga greitt í grasgarðana,
yfir döggva eg engjar mínar
ávöxturinn síður dvínar.
72.
Minn lærdómur ljómar vítt sem lýsi dagur,
spádómsorðin af mér fljóta,
þau eilíf síðan standa hljóta.
73.
Er því sýnt að ei fyrir mig eg erfiðaði
heldur þeim til hollrar skyldu
er hreinan vísdóm girnast vildu.
74.
Lof sé þeim sem lýðum veitir lærdóms gæði.
Þar með læt eg leita að enda
ljóðagjörð af munni senda.
(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 390–394)