Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Lagabrotsvísur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Lagabrotsvísur

Fyrsta ljóðlína:Hæstur guð í himna rann
bls.241–245
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBBccB
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
1.
Hæstur Guð í himna rann
hefur oss visku setta.
Hyggi að því hvör eð kann
hönum að gjalda þetta
og forðast fár og pretta.
Heldur hef eg séð það síð
að setja mig frá lastasmíð
og synda líf að létta.
2.
Man eg ei alla mína sekt,
mun eg því verða að þegja,
lifandi Guð með lífsins mekt
láti mig alla segja
áður en eg skal deyja.
Svo ganga mætta eg glæpum frá
og girnast aldrei oftar á
mig til ills að hneigja.
3.
Fárlega hafa mig feðgin tvö
flæmt í burt frá náðum
og er sá villtur elskar þau
og öllum sviptur dáðum,
af Satans svikaráðum.
Eiturdrekinn, dóttir hans,
dregst í brjóstið hvörs þess manns
sem þeim vill þjóna báðum.
4.
Mildum föður seg eg mína sekt
og mætum Guðs orðs klerkum.
Sárlega hefur mig Satan blekkt
og svikið með vélum sterkum,
það játa eg Jesú merkum.
Heilagur andi, hlýttu mér,
hvað eg glósa nú fyrir þér
af lífs míns lastaverkum.
5.
Eg vandist á þegar vitið fékk
og varla eg mæla kunni
með sögur og kvis að semja hvekk,
syndalífi eg unni,
eg spillta spektar brunni.
Orð og verk með öfund og háð,
eiturbland og falskleg ráð
eg lærða af lasta grunni.
6.
Með ári hvörju illskan mér
eflast tók í brjósti,
fyllda eg lífsins flærðum ker,
fári og grimmdar hrjósti,
hatri og heiftarþjósti.
Gáða eg lítt um Guð né sál
og girntist alllítt skriftamál,
fyrir sáru synda ljósti.
7.
Rán og stuld og róstuverk
og raskan helgra tíða,
lygar með smán og lýtin sterk
mig lysti oft að smíða,
sá eg á svallið víða.
Galinn er sá hann gjörir sem eg
og gengur í burt af réttum veg
í fjandans fjötur hinn stríða.
8.
Losta girnd með lífið ljótt
löngum vilda eg efna,
hvatti mig sú skemmdin skjótt
að skylda eg óvænt stefna,
með leti og langa svefna.
Og girntist þennan glæpinn á,
gjarnan vilda eg allt til ljá
meir en eg mátta nefna.
9.
Forneskjur eg framda þrátt
og fór svo stundir lengi,
eg dvalda úti um dökkva nátt
með djöfulsins rúnastrengi,
í burt frá öðru mengi.
Eg girntist af því gullasbrú.
Hún gaf mér þar til sína trú,
mér unni æðri enginn.
10.
Þá saurlifnaðarins girndar gráð
gjörir til mannsins falla,
fundin verða þá falskleg ráð
við fljóðin mjúkt að spjalla,
þó vel sé komið valla.
Þá vífin að mér víkja kært
þá verður lífið galið og ært
og blekkir með blíðu alla.
11.
Dró eg það allt með flærð eg fékk
af fullríkum og snauðum,
eg leiddunst frá með lasta hvekk
að líkna Drottins snauðum
og þeirra þungum nauðum.
Veit eg það að syndin sár
sálu minni kveikir fár,
dugða eg alllítt dauðum.
12.
Lá eg oft glaður með lýtin flest,
latur á föstu og söngva,
eg kveikta róg og reiði mest
og rækti siðuna öngva,
fylltist svo flærðar slöngva.
Og er þess von fyrir ónýtt verk
að á mig falli hefndin sterk
í mein og myrkrið þröngva.
13.
Dró eg á þetta lífið ljótt,
lýða hvörn eg kunni,
fyllta þenna flokkinn skjótt,
fárlegum löstum unni.
Eg talaði með tungu og munni
oftast það sem ei var gott,
eiða og blót með dár og spott
eg kveikta af klungurs runni.
14.
Umlestur með lygi og last
lét eg mig einatt henda,
ofneysluna elskaði fast
allt mitt líf til enda
og öðrum svo illsku kennda.
Vafði mig öllum vömmum þeim
sem virða dregur í myrkvan heim
og fá mun illan enda.
15.
Á vél og lymsku vandist eg
og vondslegt undirferli,
þrætu og reiði eg þreytta mjög
og þrjósku fram til elli,
af hörðu hugarins svelli.
Með ódyggð allri löstum leynt
og lærðum mönnum sagði seint
dulið í visku velli.
16.
Galt eg rangt fyrir gott og illt
og glataði réttu efni,
andar heilsu allri spillt
oft í vöku og svefni,
víst er von mér hefni.
Mig hafa lokkað lýtin ill
að leika það allt sem fjandinn vill,
hryggur eg nauðir nefni.
17.
Gladda eg lífið en gleymdi sál
með grimmum lasta göllum.
Vítis árinn vefur það tál
og vill í dauðann föllum
með líkamans löstum öllum.
Bruggar hann sín bölvuð ráð
og blekkir oss frá allri náð,
hjálp og heilsu pöllum.
18.
Viskuljósið villir sá
sem vinnur óleyfðar syndir.
Hann gengur allri gæsku frá,
gjörir svo illar myndir
og skilur við eilíft yndi.
Hann fellur í það feiknabað
og finnur öngvan verra stað
sem svartur svikarinn kyndir.
19.
Fjórar systur í svefni fast
sækja gisting að fanga,
þessar auka lífsins last
ef leyft er inn að ganga
og efla allt eð ranga.
Eðla dætur Jesú Christ
oss er betra að taka í vist
og rétta götu að ganga.
20.
Lögmál kirkju lagða eg niður
og letra reglu setta,
líkamans girndir lék eg viður
en leit aldrei á þetta,
lífsins ráð að rétta.
Skúlkandi að því skrattinn hlær,
ef skæðar syndir elskum vær
og efling alls kyns pretta.
21.
Mörgu hef eg gleymt því mér var skylt
mínum Guði að vinna,
deilur kveikt og drambið hyllt,
Drottni þénað minna,
ljót er lífins sinna.
Vér ötlum að felast fyrir augsýn Christs
með ýmsum brögðum, er það víst
að Guð má enginn ginna.
22.
Fölskum hef eg fortölum hlýtt
flærðar smiðsins illa,
heitið Guði en haldið lítt
hlýðni öngri að spilla
og vel hjá vondu stilla.
Ráðvendni Guðs hef eg raskað víst,
rofið hans spekt og séð það síst
að ljót er lífsins villa.
23.
Vonda ótrú varast eg lítt,
vélar heimsins skugga,
fjandans hatur og heimboð strítt
sem hann vill sálunni brugga;
ljótt tekur líf að ugga.
Hæstan Guð þá héðan eg skal,
hann bið eg líkama og sál
að hvíla bæði og hugga.
24.
Drottin minn hef eg daglega reitt
og dregist með þrælum fjanda
og gjört það allt sem búkur hefur beitt
en brotist frá heilögum anda
og elskað illan vanda.
Legg eg bæði líf og sál
á lausnarans náð og öll mín mál;
hann sjái mér hjálp til handa.
25.
Mig blekkir jafnan blíðan heims
sem bragning gæskutrauðan,
auður og völd sem ágirnd seims
allmarga dregur til nauða
virða viskusnauða.
Gáða eg lítt að Guð fyrir oss,
gaf sitt líf á helgum kross
og blessaða blóðið rauða.
26.
Ölmusu hef eg öngvum veitt
í orðlofs lífi léttu,
skuldir víst með skilum ei greitt
og skilað á móti réttu,
varist með vél og prettum,
margan dregið á villtan veg
þann visku hafði minni en eg
og fylgt svo flýtum settum.
27.
Byrði synda batt eg mér
fyrir brek hins forna fjanda;
vin má öngvan verra sér
velja neinn til handa,
þeim voða vill hann til standa.
Lifandi Guð fyrir líknarmál,
hann leysi fjötur af minni sál
með hjálp hins helga anda.
28.
Fjórar hafa mig fjandans dætur
fastlega dregið í voða:
Öfund og vél, með ágirnd lætur
ódyggð jafnan ráða
og síst fljótt til náða.
En réttvísi og friðsemi frá,
fagra miskunn eg nefni þá,
sannindi dýrra dáða.
29.
Með galdra vélum galarinn slær
og gjarnan vill oss fanga
og alls kyns snörur hann egnir þær,
hann ætlar þeir skuli í ganga
sem efla ósiðu ranga.
Hann býr þeim kvalir og bölvaða vist
sem bregða trú við Jesúm Christ,
plágu og pínu langa.
30.
Vörunst því heimsins vélasmíð
og vinnum það oss stæði,
Jesús Christus árla og síð
oss efli og styrki bæði,
að forsóma falsklegt æði.
Flest er lán í veröldu valt,
víst er dauðans heimboð kalt
þá líf vort leikur á þræði.
31.
Skyldur er hvör sem mæla má
meyjar soninn að beiða
um mildi og náð þá mest liggur á,
miskunn sína tilreiða,
nær mors tekur menn að meiða.
Drottinn minn fyrir dauðans pín,
drag mína sál í flokki til þín
í lífsins borg allbreiða.
32.
Með iðranartárum ættum vér
akur lífsins að vanda.
Ágætan gef oss ávöxt hér
öðling heims og landa,
hann eyðir ódyggð fjanda.
Hjartað vort frá syndasull
sonur Guðs gjörir skærra en gull
fyrir mýkt hins helga anda.
33.
Bakmáll var eg til bragna þrátt
um breytni þeirra og æði
og mjög þann hatað sem minna hefur mátt
með orð og hótan bæði,
og veitt ei voluðum fæði;
veslega hrellt með vont mótkast,
um valdsmenn skjalað með leyndar last,
þeir stýrðu ei lögum sem stæði.
34.
Yrkt hef eg níð um aðra menn
og ýki fært í kvæði,
hrópyrðunum hrósað enn
með hól og hæðni bæði,
og stutt ei lög sem stæði;
hórdóm drýgt en hjúskap spillt
og hjálpargötuna fyrir mér villt,
af hörðu hugarins sæði.
35.
Lagði út Guðs son líf fyrir mig,
sem lýsir sólar palla,
af dauða reisti hann sjálfur sig,
þar syngja af smiðir guðspjalla,
og leysti svo lýði alla.
En glæpafaðir grimmur og skæður,
frá Guði villtist sem heimi ræður,
í kvalir helvítis hallar.
36.
Hugskotsblindur hvörgi fetur
þó heil skuli augun heita,
veginn að gá þann viskan hvetur
og voldugs skaparans leita,
elskarann engla sveita.
Lifandi Guðs son lýsir þeim,
líknargötu í Paradís heim
sem illsku andskotans neita.
37.
Hnýi þér mínar hurðir fast,
segir hilmir allra dáða.
Fyrir þeim skal eg láta upp lífsins past,
sem leitar minna náða
og skilur við syndir sáða.
Meyjar son talar við manninn skýrt:
Mitt skuli þér finna heimboð dýrt
sem ills gjöra iðran bráða.
38.
Magn og spekt sem minni og líf
má vel skuggsjón kalla,
en aðra stund í eymdar kíf
sem illir hljóta að falla
á hryggva heljar palla.
Að brögnum kemur sá bragðarefur,
bráður dauði og andar krefur,
varast má þetta valla.
39.
Þá dauðinn fær mig dapur með hryggð,
dregið á heljar slóðir,
leið önd mína í líknar byggð,
lausnarinn Jesús góði,
þá leystir með þínu blóði.
Hjálpa mér Christur, keisari skír,
kóngur heilagur, Drottinn dýr,
þá upp rísa allar þjóðir.
40.
Væri mér skylt fyrir lífið ljótt
að leggja umbót alla,
ræð eg því til með skilning skjótt
á skapara minn að kalla
og hönum til fóta falla.
Bið eg mér líkni lausnarinn hreinn,
lifandi Guðs son þrennur og einn,
og hefji á hjálpar palla.
41.
Lögbrotsvísur læt eg nú
ljóðin þessi heita.
Fyrir sköpun og fæðing, skírn og trú
skal eg til föðursins leita,
að hreinsa hyggju reita.
Herrann Jesús, hjálpar hnoss,
og heilagur andi veri með oss,
huggarinn allra sveita.
42.
Himnakóngurinn, heyr mig nú,
hjálparbrautin skæra,
Drottni vil eg af dyggð og trú
diktinn þennan færa,
með hjartans hyggju kæra.
Lifandi Guð fyrir líf og sál
láti mér snúast í skripta mál
og þeim sem lesa og læra.
43.
Föður og son bið eg frelsi mig
og fyrirláti órækt alla.
Heyr þú nú, eg heiti á þig,
herrann himna halla,
af hjarta eg til þína kalla.
Duga nú þessum þrælnum við,
þrennur og einn Guð árla og síð
og hér skal fræðið falla.