Tuttugasta og sjötta sunnudag eftir trínitatis | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 74

Tuttugasta og sjötta sunnudag eftir trínitatis

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Nær mannsins son mun koma
bls.81
Bragarháttur:Níu línur (tvíliður+) þríkvætt AbAbCdCCd
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Sálmar
Tuttugasta og sjötta sunnudag eftir trínitatis
Evangelíum Matt. xxv (31–46)
Með lag: Hæsti Guð herra mildi
1.
Nær mannsins son mun koma
með öllum engla her
í sínum veldis sóma
að sitja dóminn hér,
að sæti hans safnast þjóðir
og sundur skiljast þá
illir menn og svo góðir
eins og hirðirs sauðir
kiðunum klárt í frá.
2.
Setur hann sauði góða
sér á hægri hlið
en víst, sem versin hljóða,
til vinstri handar kið.
Kóngurinn mjúkt þá mælir
við menn hægra veg:
Komið, segir hann, sælir,
sá sem að öngvan tælir
alleins Guðs börn sem eg.
3.
Eignist þann arf og ríki
sem áður tilreiddur er;
eg játa að vel líki
ástverk sem gjörðuð mér;
hungraður fékk eg fæði,
fínan drykk, þyrstur mjög,
nakinn svo nógleg klæði,
nú skal fyrir þau gæði
yðar ei umbun treg.
4.
Gesti veittuð mér greiða,
genguð og til mín þá
hafði eg hryggð að líða,
hrumdur í sóttum lá;
fjötrum læstan mig funduð
fangelsi liggja í;
allvel þar hjá mér unduð
og um mín sárin bunduð;
huggist nú helst af því.
5.
Hvönar sáum þig herra,
helgir menn spyrja að,
vista þurfandi vera
eða vatns svo bættum það,
gest, svo að greiða veittum,
gáfum þér klæði hér,
í sótt og herfjötrum hættum
haldinn svo að vér mættum
veita þjónustu þér?
6.
Kóngurinn glöggt með greinum
gegnir þeim rétt í stað:
Hvað aumum gjörðuð einum
allt veittu þér mér það;
víkur til vinstri handar,
voða reiður, þá sér:
Ómildum eftir vanda
útrekist þér með fjanda
í eilífan eld frá mér.
7.
Mig sótti svengd og þorsti,
saðning ei veittuð mér,
kaldur átti eg ei kosti
klæða þó gengi ber;
gesti ei veittuð greiða,
genguð þá síst til mín,
sáuð mig sóttir mæða
og mein fjötra leiða,
að lina mér langri pín.
8.
Ómildir vænta verra
víkja því svo af sér:
Hvönar sáum þig herra
hungra og þyrsta hér,
gest eða haltan ganga,
geysi mæddan af sótt
eða tekinn til fanga,
tíma haldinn þar langa,
gjörðum þér ekki gott?
9.
Herrann svarar og segir,
svo sem að letrað er:
Hvað aumum veittuð eigi,
ekki gjörðuð það mér.
Þeir fordæmdu fara
fleygðir í eilíft bál;
helgir með himnaskara,
huggun sú mun þá vara
endalaust utan tál.
10.
Nær dómur þinn að dynur,
Drottinn Jesús minn,
heimurinn allur hrynur,
hugurinn styrkist minn
því að eg þessu trúi
þú munir hjálpa mér,
til hægri handar snúi
og hjá þér síðar búi
þar eilíf sælan er.
Vísan
1.
Nær sem nú mun koma
nákvæmur lýð að dæma,
mildur í maktarveldi
mannsins sonur án vansa;
situr í tignarsæti
svo sem hirðir fjár gjörði,
sundur til hægri handar
hliðar sauðum frá kiðum.
2.
Talar svo mjúku máli
við menn á hægra veg þenna:
Komið, blessuð börn, heima
búna tign, ríkið eignist,
en vinstri handar lið hrindist
í heljar glóð frá mér bölvað;
eldur sá slokknar aldrei,
með árum líðið kvöl sára.
3.
Á þeim efsta dómi
álfur heims trú eg að skjálfi;
reiður Guðs son því ræðir
svo ráð er ekki til náða
nema strax nú í tíma
náðin Guðs við oss ráði;
orð þitt, Jesús, verði
og nafn skjól mitt jafnan.
4.
Þó ríði á dómur og dauði
Drottinn firrðir mig ótta,
biður mig hvörgi hræðast,
hann er frelsarinn sanni.
Verði mér að því orði
eftir trú sem eg nú hreppti;
Jesú, eg mig læsi
undir skjól þinnar handar.
(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 81–83)