Sjötta sunnudag eftir trínitatis | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 54

Sjötta sunnudag eftir trínitatis

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Við lærisveina svo sagði hann
bls.59
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aabbb
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Sálmar
Sjötta sunnudag eftir trínitatis
Evangelíum Matt. v (20–26)
Með lag: Heiðrum vér Guð af huga og sál
1.
Við lærisveina svo sagði hann,
sjálfur Jesús, vor Guð og mann:
Utan það væri og það sé,
æðra hafi þér réttlæti,
en eg sannreyni nú og finn
með yfirgyðingum þetta sinn,
í guðsríki ei gangið inn.
2.
Í gömlum rétti hafi þér heyrt
að hvörgi skyldi manndráp gjört
en sá sem slær með heift í hel
hann mun dóminn sinn finna vel.
En eg ræði um réttinn minn:
Ef reiðist mann við bróður sinn,
mun sektum borinn ei síður en hinn.
3.
Ef nökkur segir af reiði rót
Racha sínum bróður á mót
hann er sekur þess hæsta ráðs
hefndarreiðinnar Drottins Guðs
en hvör sem kallar heimskan glóp
Helvítis eld sá fær í kaup,
svo ekkert dugir þeim undanhlaup.
4.
Vertu samþykkur við hann snart
á vegi sem þig mótstóð hart
að ei selji þig óvin sá
út í dómarans hendur þá
og í dýflissu setjist svá
þar sannlega aldrei kemstu frá
þar til fullt gjald þig frelsa má.
5.
Réttlæti þitt og hlýðnin hrein,
herra Jesú, mín græðir mein;
lækna minn allan lundarbrest,
lifandi Guð, þú veist hann best;
óvildarmönnum frels mig frá,
fyrirgef þeim og lát oss ná
lífsins veginn að leiðast á.
Amen.
Vísan
1.
Ræður Kristur þó reiðunst,
ríkuglega forlíkast,
að felldir ei verðum valdi
og vægðarlaust í pytt fleygðir,
hvaðan enginn útleiðist
um aldir nema fullt gjaldi;
fyr hugmóð heiftir megnar
hefnd Jesús til nefndi.
2.
Herra Jesú hógværi!
hjartalag mitt eg klaga
fyrir þér fullur tára
og finn að óstillt sinni
angrar mig og náungann
enn þó skjótt af renni.
Líknsamur Guð það lækni
og leiði ei yfir mig reiði.
(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 59)