Fimmta sunnudag eftir trínitatis | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 53

Fimmta sunnudag eftir trínitatis

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Í þann tíð fólk dreif flokkum að
bls.58
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aBaBccB
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Sálmar
Fimmta sunnudag eftir trínitatis
Evangelíum Lúk. v (1–11)
Með tón: Væri nú Guð oss ekki hjá
1.
Í þann tíð fólk dreif flokkum að
svo frelsarans kenning næði;
hjá Genesaret í greindum stað
græðarinn stóð við flæði.
Skip sá hann fram við fjörðinn tvö,
fiskimenn net á landi þvo;
heilagt var herrans æði.
2.
Jesús sté þá á þetta skip;
því á Símon að stýra;
bað hann frá landi lítinn svip
láta það síðan hræra;
sat þar og kenndi sögðum lýð
sannleiksins orð á þeirri tíð
sem þá lysti að læra.
3.
Síðan biður hann Símon þá,
er sinni ræðu hætti,
draga fram lengra fjörðinn á
til fiski með netjadrætti.
Herra, kvað Símon, næstu nótt
nógu lúnir vorn þjáðum þrótt
þó ei neitt aflast mætti.
4.
Enn skal eg samt við orðið þitt,
ansar Símon að bragði,
netið út greiða aftur mitt,
Jesú, svo sem þú sagðir.
Sem þeir það gjörðu nægð var nóg,
netið rifnaði af þessum plóg;
hitt skipið hjálp þeim lagði.
5.
Báðu sér liðs af báti þeim,
bendandi sér til greiða,
að fiskiskipunum fullum tveim
fengu þeir nægtir veiða
því þeir hlóðu þau harla mjög
hart nær sukku á skömmum veg
þar eð til lands þau leiða.
6.
Símon Petrus nú sem það sá
á sín hné fram réð falla;
við herrann talar af hræðslu þá,
henni sló á þá alla:
Vík frá mér herra strax í stað,
stórbrota manni, satt er það,
góðs er eg verður varla.
7.
Herrann svaraði: Hræðstu ei,
hjartans sonurinn kæri;
við syndugum ekki segi eg nei,
síðan vilda eg þú værir
valinn til þess að veiða menn.
Þeir vóru í fylgd hans allir senn,
skildu við skip sem bæri.
8.
Enn þó að löngum ofþungt sé
erfiði skyldu minnar
drag þú ei, herra, hjálp í hlé,
heilla njóti eg þinna.
Af orði þínu eg ávöxt finn,
óstyrk þú Jesú græðir minn,
lætur ei huggun linna.
Vísan
1.
Pétur bernsklega breytir,
beiddi Krist því hann mjög hræddist
að víkja frá sér veikum;
við rétti Guð þetta,
biður að hann ei hræðist,
héðan af skuli menn veiða;
Jesú fylgja fúsir,
fiskibát eftir láta.
2.
Veikur og sár, hinn sjúki,
í syndum hef eg mjög blindast,
þó gleður mig, Guð, þín ræða,
gjarnan þigg eg rétt barna
til þín og hjá þér hænast,
hvörgi reit frá þér leita;
ástin Jesú Kristí
ört smýgur mitt hjarta.
(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 58–59)