Kvæði um þann síðasta dag | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði um þann síðasta dag

Fyrsta ljóðlína:Nógu þykki mér nóttin löng
bls.127
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer,- þrí- og fimmkvætt aaaBB
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612

Skýringar

Kvæðið er vikivaki og er viðlagið:

Dimmt er í heiminum, Drottinn minn,
deginum tekur að halla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.
Dimmt er í heiminum, Drottinn minn,
deginum tekur að halla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

1.
Nógu þykki mér nóttin löng,
nýjan vil eg því dikta söng;
myrkva stofan er meiðsla þröng,
mál er héðan að kalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

2.
Myrkur er nóg í heimi hér,
hætt við slysum hvar mann fer;
lifandi Jesús, lýstu mér
og láttu mig ekki falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

3.
Léntu mér þann lukkuslag
með láni og vænum ráðahag
að athuga megi eg þann efsta dag
og á þitt nafnið kalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

4.
Þú hefur talið upp teiknin flest
og trúleg ráðin gefið mér best,
komið er langt, nú kynnist mest
kenningin guðspjalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

5.
Þitt hefur orð um allan heim
áður farið um lönd og geim;
sú heill er svipt frá héröðum þeim
og hingað vildi falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

6.
Hjartaglaður í huganum mín,
herra Jesú, vænt eg þín;
morgunstjarnan skært nú skín,
skaparans orð eg kalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

7.
Sjálf réttlætis sólin skær
með sínum ljóma er hér nær;
því vil eg gjarnan, Guðs son kær,
glaður til fóta falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

8.
Heimur og Satan hamla mér
og holds náttúran spillt í sér;
minn góði Jesú, gef eg mig þér,
get eg mér ráðið varla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

9.
Mér er á öngu meiri lyst
en mætti eg sjá þig nú sem fyrst
og allt það gott sem eg hefi misst
aftur til mín falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

10.
Minn líkams dauði er sætur svefn,
signaður Jesú, heit þín efn,
á óvinum mínum öllum hefn
sem yfir mig vilja falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

11.
Vaki mitt hjarta á hvörri stund
og hugsi um það með góðri lund
nær Drottinn setur þann dýrsta fund,
til dómsins lætur kalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

12.
Upp úr gröfunum allir senn,
illir og góðir, hrökkva menn;
höfuðengilsins hljóðin þrenn
og herrans lúðrar gjalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

13.
Jörðin forn og fjöllin há
í feikna loganum brenna þá;
himnarnir sem heyra má
með hvellum brestum falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

14.
Af innstum rótum eg þig bið,
Jesúm Kristum himna smið,
hjálpa oss þá veikum við,
eg vil þitt nafn á kalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

15.
Jesús kemur með engla sveit,
eftir því sem kristnin veit;
hans mun fylgdin fögur og teit,
fyrir sig lýðinn kallar.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

16.
Svo sem hirðir sauði og kið
sundur skilur hann gjörvallt lið,
góðum skipar á hægri hlið;
heiðurinn má það kalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

17.
Með soddan orðum segir upp dóm
sonurinn Guðs með snjallan róm:
Komi þér, blessuð börnin fróm,
bæði konur og karlar.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

18.
Eg var sjálfur í heimi hér,
í hvörri neyð þér sinntuð mér;
ríkið mitt sem eilíft er
til erfðar skal yður falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

19.
Til vinstri handar víkur hann þá,
voða reiður, kóngurinn sá:
Bölvaðir þér mér flýið frá
á fjandans heljar palla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

20.
Því hungraður var eg bæði og ber,
bjarga vildu þér ekki mér;
í bálið það sem eilíft er
með árunum skulu þér falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

21.
Hvör er nú þvílík hjartans kvöl
sem hugsa um þeirra eilíft böl,
frá augsýn Guðs fyrir utan dvöl
í opið helvíti falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

22.
Um aldir varir það eilíft bál
og engin vægð fyrir líf né sál;
því er oss öllum meir en mál
á miskunn Guðs að kalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

23.
Hjartans Jesús, heillin mín,
harða leiðstu dauðans pín;
bið eg þú stýrir börnum þín
að bæta lífsins galla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

24.
Sá hægri handar flokkurinn fer
fagur og skær sem greini eg hér;
með lausnarans hendi leiddur er
lífs á dýrðar palla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

25.
Engin tungan telja má
tignarvald og æruna þá
sem útvaldir menn allir fá
í yndinu himna halla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

26.
Fyrst þeir skína fegri en sól,
forgleymt mun þá veraldar hjól.
Dýrð og lof fyrir Drottins stól
um dagana syngjum alla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

27.
Auglit Guðs þeir allir sjá,
æðsta kalla eg sælu þá;
af sætleik hans þá saðning fá
að segjast má það varla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

28.
Af þeirra kinnum þurrkar tár
þýðleg Drottins höndin klár;
þá mun horfinn harmurinn sár,
vær höfum þá öngvan galla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

29.
Þar er ei synd né sorgar kvein,
sótt eður nökkur dauðans mein,
eilíf gleði og elskan hrein,
yndi má það kalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

30.
Þú þekkir föður og þínar mæður,
þar með allar systur og bræður,
vegleg þessu viskan ræður,
vini og frændur alla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

31.
Hungur og þorsti er horfinn víst,
hiti og kuldi grandar síst,
guðlegt yndi öllum býðst
svo aldrei náir að falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

32.
Sæti faðir í himna hæð,
við holdið mitt eg öngvu ræð;
með heilögum anda hjartað fræð
um himna gleðina alla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

33.
Alla daga og einneginn nætur
öndin mín í holdi grætur;
mig langar til þín, lausnarinn sætur,
í ljósið himna halla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

34.
Guð minn trúr, fyrir græðarans und
gef mér hæga dauðastund
svo mætt eg þínum fagna fund
friðar um eilífð alla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

35.
Unntu mér þeim arfi að ná
ævinlega að vera þér hjá
svo hvörn dag megi eg þar hugsa á.
Hér skal kvæðið falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 127–129)