Á hvítasunnudag | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 43

Á hvítasunnudag

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Hvör sem elskar með allan sann
bls.47
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aBaBccB
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Sálmar
Á hvítasunnudag
Evangelíum Jóh. xiiij (23–31)
Með lag: Hvör sem að reisir hæga byggð
1.
Hvör sem elskar með allan sann
orð mitt á hjartað lagði,
faðir minn einninn elskar þann,
ástríkur, hýr í bragði;
við munum til hans vitja þrátt,
vistast hjá honum dag sem nátt,
Jesús Guðs son svo sagði.
2.
En hvör sem ei vill unna mér
orðræðu forsmár mína
og orð það hvört þér heyrðuð hér
held eg ei mitt alleina
heldur föður míns mjúkast mál,
mig sendi hann að gleðja sál,
birta svo brjóstið hreina.
3.
Mælt hef eg þetta mjög þrátt enn
meðal yðar og kenndi:
Heilagur andi, huggarinn,
hvörn minn faðir að sendir
í mínu nafni mun kenna klárt,
gjöra yður það ljóst og bjart
hvað sagði eg yður og sýndi.
4.
Eg læt minn frið svo yður í té
og gef nú friðinn þann sanna,
ei sem veröldin elskar fé
og ljúgdýrð hefðarmanna;
hryggjunst ekki þá hjörtum í,
heyrðu þér eg lofaði því
afturkomuna að kanna.
5.
Ef þér kunnið að elska mig
orð það víst gleðja mundi
eg fari þann rétta friðarins veg
föður míns leita að fundi,
því faðirinn minn er meiri mér,
mælt hef eg slíkt svo tryði þér,
styttuð svo hryggðarstundir.
6.
Frá þessum tíma tala eg ei
til yðar margt að sinni;
kemur höfðingi heims að því
honum ei neitt þó vinni;
með mig hafa en heimurinn kann,
hér af sjá eg föðurnum ann
og hefi boð hans í minni.
7.
Gef þú, Jesús, eg elski þig,
orð þín vandlega geymi;
heilagur andi huggi mig
í hvörri neyð lífs í heimi;
samviskan jafnan gleðjist góð
af guðdóms friði en hrindi móð,
angri svo öllu gleymi.
Vísan
1.
Heitir Jesús að hljóti
hollan gest sem að hugfestir
og fölskalaust orð sitt elskar
inn í brjóst og sinni,
því hann og faðirinn finni
fræga vist og þar gisti;
sinn frið segist þeim unna,
sætara heims meðlæti.
2.
Vort hið veika hjarta
verka þú með trú sterka,
Jesús minn, að þig hýsum
inni þar hvörju sinni.
Faðir og andi fræði,
um frið þann jafnan biðjum
að ótta heims í hættu,
hugaðir, aldrei bugum.
(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 47–48)