Þriðja sunnudag í föstu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 25

Þriðja sunnudag í föstu

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Út rak Jesús fornan fjanda
bls.29–30
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt AbAbAb
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Sálmar
Þriðja sunnudag í föstu
Evangelíum Lúk. xj (14–28)
Með lag: Tunga mín af hjarta hljóði
1.
Út rak Jesús fornan fjanda
frá þeim manni er mállaus var
en þegar sá missti illan anda
orðsnjallur þá gaf þeim svar.
Undrast fólk það eftir vanda,
ill að sumra meining var.
2.
Fyr Belsebub, þann allra ára
yfirhöfðinginn kenndur er,
sögðu þeir sem Drottin dára
að djöfulinn út hann ræki hér;
hinir þriðju með hræsni klára
heimta teikn til fremdar sér.
3.
Hugsun þeirra herrann kenndi,
hér í móti svaraði sá:
Ríki hvört, sem sundurlyndi
í sjálfu sér vill til sín slá,
eyðast skjótt svo títt hús mundi
yfir annað fram svo fellt í strá.
4.
Ef Satan verður í sínu veldi
sundurlyndur hvörsu kann
hans ríki standa svo sig héldi
segi þér mig fyr Belsa þann,
herrann djöfla, hvað sem gildi
hyskið þeirra fært í bann.
5.
En skylda eg fyr bannsett býti
Belsebubs útdreifa þá
yðrir synir af öðrum hlyti
einhvörn þann styrk að fá;
úrskurð þeirra þér því vitið
þó að móð viljið á mig slá.
6.
En fyrst eg rek út fjandans ára
með fingri Guðs, sem víst það er,
ríki Guðs eð krafta klára
kemur þá yður að hendi hér;
þér haldið mig sem heimskan dára,
hyggið að hvað eftir fer.
7.
Nær einherjinn ver andyr sínar
alvopnaður hann stríða kann
meðan máttur ei né megnið dvínar
með mak er allt hvað eignast hann
nema styrkri kappi reyndrar raunar
ræni og svipti öllu þann.
8.
Hvör sem mér er ei með í neinu,
mótfall er mér af þeim víst,
sá sundurdreifir allt að einu
að mér dregur hann líka síst;
sá finnur það sem fær þá skeinu
að fjandmaðurinn við illu býst.
9.
Nær andskotinn fer út af manni
um þurrlendi ráfar hann,
leitar hvíldar sér með sanni,
síst í kyrrðum verða kann,
aftur svipar að sínum ranni
ef sópað hreint það finnur hann.
10.
Verri anda sér þá sækir,
síðan kemst í húsið inn;
þeir fá þar gist með forna klæki
og fyrir sig reisa varðhöld stinn;
ef þess manns seinna tíma tæki
trú eg sé langtum verra en hinn.
11.
Þá Jesús lyktar lærdóm fríðan
ein ljúfleg kona talaði svá:
Sá kviður er sæll sem bar þig blíðan
og brjóstin sem þú mylktir þá.
Henni svarar herrann síðan:
Heill má aðra betri fá.
12.
Hvör sem Guðs orð heyra kunni
í hjarta sínu og geymdi best,
eg tel þann sælan sem því unni,
sú er nú gæfan allra mest;
sá fær af þeim sæta brunni
sjálfur að smakka gæðin flest.
13.
Frá hertekning hins forna fjanda
frels mitt, Jesús, líf og önd;
hans umsát lát mér aldrei granda,
af mér leys þú syndabönd;
styrk með mér þitt orð og anda,
yfir oss sé þín verndarhönd.
Vísan
1.
Þá svartur flýr Satan burtu,
sannlega út af manni,
um þurrlendur fer fjandi,
fær ei hvíld þar nærri,
leiður tekur sjö síðar
með sér anda, þó verri,
kemst þar inn, er þeim manni
öll verr hætt en fyrri.
2.
Voði er enginn meiri
en athugalausir rata;
þeir gefa illum ári
inngang tvisvar sinnum;
þar koma fleiri fjandar
í ferð og sinnið herða.
Drottinn ráð vort rétti
og reki burt svefn of frekan.