Fimmta sunnudag eftir þrettánda | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 18

Fimmta sunnudag eftir þrettánda

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Eftirlíking þeim Jesús tér
bls.21
Bragarháttur:Hymnalag: aukin samhenda
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Sálmar
Fimmta sunnudag eftir þrettánda
Evangelíum Matt. xiij (24–30)
Hymnalag
1.
Eftirlíking þeim Jesús tér
aðra að himnaríki er
þeim manni líkt sem sáði sér
sæðisakur á jörðu hér.
2.
Góðu sæði að sáði sá
í sagðan akur sem heyra má
en illgresi lét hans óvin hjá
allt fólk meðan í svefni lá.
3.
Þá akurinn sá sinn ávöxt bar
illgresið með sig lýsti þar.
Þénara[r]nir, sem vonlegt var,
vildu að sækja herrans svar.
4.
Einn þeirra spurði svo um sinn:
sáðir þú ekki, herra minn,
eðla sæði í akurinn þinn,
illgresi nóg eg þar þó finn.
5.
En hann svarar og sagði bert:
Sæðið vil eg ei væri skert
eða fyrir það nökkur fengi snert,
fjandmaður vor hefur þetta gjört.
6.
Enn þeir spurðu í annan stað
ef að hann vill þeir prófi það
úr að tína það illa sáð
ef honum virtist þetta ráð.
7.
Þar við segir hann þverlegt nei
því hann vill hveitið spillist ei:
Látið hvörtveggja hér með frí
haustvinnu bíða akri í.
8.
Kornskurðartími kemur víst,
kænlega skuluð þá allra fyrst
illgresi bera á eld sem kvist,
inn í kornhlöðu hveitið best.
9.
Sannlega gjörist nú svefna öld,
svikaraslægðin þúshundföld.
Jesús, þú ber fyr oss þinn skjöld,
öðlast lát mig hið besta kvöld.
Amen.
Vísan
1.
Guðs orð glíkist sæði
en grund við hjörtun undir.
Sofa menn (Jesús innir)
illgresi kemur þar milli;
Fjandinn fær þó blindað,
fyllir af synd og villu;
flokk þann fyrst skal brenna
en flytja í kornhús hveiti.
2.
Biðjum þig, Guðs son góði,
að grandi ei hjartans landi
svefn vor svo að nú döfnum,
sæði þitt brjóstin græði.
Kornskera nálgast nærri,
níðingur því meir stríðir;
flyt í hlöðuna hveiti
en hindra þann sem oss blindar.
(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 21–22)