Huggunarvísur fyrir þá sem syrgja eftir ástmenn sína | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Huggunarvísur fyrir þá sem syrgja eftir ástmenn sína

Fyrsta ljóðlína:Hvör sem eftir ástmann þreyr
bls.125–126
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer- og sexkvætt aabbb
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
1.
Hvör sem eftir ástmann þreyr
og annan þann í trúnni deyr
hugsi hann fyrst um herra þann
er á himnum býr og skapaði mann,
hefur hann vald að heimta hann aftur í himnarann.
2.
Í annarri grein þá hugsa hér
um hvörn þinn vin sem látinn er,
að áður var hann eymdum mæddr
ávallt síðan í heim var fæddr,
situr hann nú hjá sjálfum Drottni sómagæddr.
3.
Í þriðju grein er því svo vart
er þig má hugga nökkurn part,
allir menn og einninn eg
eigum að ganga dauðans veg;
öllum kristnum er sú stundin æskileg.
4.
Í fjórðu grein þú hugsa hér
um heiminn hvörninn hann breytir sér;
óðum spillist mest sem má,
það megum vér bæði heyra og sjá
og er sá sæll sem soddan voðanum sofnar frá.
5.
Í fimmtu grein þig huggi hér
þá himininn ljóst fyrir augum sér;
það er nú orðið heimili hans
þíns hjartagóða elsku manns;
hann líður ei grát né grandið vont nema gleðst til sanns.
6.
Helgi Pálus huggar best
og hér til leiðir dæmin flest
hvörsu að ólík er sú vist
sem eigum vér með sjálfum Krist
hörmung þeirri er hefur oss áður í heimi gist.
7.
Í upprisunni er huggun hæst,
hjartans gleðin og virðing stærst,
annars heims þar öndin mín
aftur klæðist líkama sín
æðri en sól fyrir augsýn Guðs með englum skín.
8.
Forgengilegt hið fyrsta sáð
fellur í jörð svo stendur skráð,
óforgengilegt upp mun stá
svo öngva fyrning líða má;
skæru holdi skrýðist önd sem Skriftir tjá.
9.
Í heimi er mannsins holdið þjáð,
hnigið að elli og missir dáð,
annars heims er öflugt hreint,
aldrei verður að nökkru meint;
fögnuð slíkan fæ eg þó ei með fullu greint.
10.
Þar næst segir hann sáð í mold
saurgað löstum mannlegt hold,
það verður og rís upp vegsamlegt,
vera kann síðan aldrei blekkt;
fríðleik sannan fáum vér aldrei fyrri þekkt.
11.
En það sem verður í veikleik sáð,
að vísu hefur svo Pálus tjáð,
öflugt rís það aftur á fætur,
allar fær á sorgum bætur;
dýrð og heiður Drottni syngjum daga sem nætur.
12.
Líkams hold vér leggjum niðr,
það lífsnæringar þyrfti viðr;
andlegt verður og englum líkt,
ekki hefur það fæði slíkt;
af gleðinni seðst því guðdóms náð svo gengur ríkt.
13.
Hvör er sá ei vill huggast nú,
hvað vill syrgja mann og frú;
eymdin vor er á enda kljáð,
eftir fylgir gleði og náð;
þökkum Guði, það er oss meira þarfa ráð.
14.
Hugga þú allra hjörtun tvist,
herra Guð, fyrir Jesúm Krist;
gef þú oss öllum gleði og náð,
þinn guðdóms anda og hjálparráð;
heilög þrenning heiðrist bæði um hauður og láð.