Á barnadaginn sem er fjórði dagur jóla | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 10

Á barnadaginn sem er fjórði dagur jóla

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Þá Heródes það heyra vann
bls.14
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Sálmar
Evangelíum Matt. ij (16-23)
Með lag: Guðs son kallar komið
1.
Þá Heródes það heyra vann
að höfðu vitringar gabbað hann,
fullur með fors og bræði,
sendi hann út með sverð í stað
sveinbörnum veita heljarbað,
geystur af grimmdaræði.
2.
Í Betlehem, þar barn var fætt,
börnin hafa þeim dauða mætt
tvævetur og öll hin yngri
eftir þeim tíma á var sett,
af vitringunum hafði rétt.
Þessi var neyðin þyngri.
3.
Svo fylltist það sem fyrr var spáð
og forðum spámann hafði tjáð.
Heyrast mun kall á hæðum,
regingrátur og raddarhljóð,
Rakel sín grætur börnin góð.
Huggast ei harms af ræðum.
4.
Eftir Heródis illan deyð
engill Guðs kenndi Jósef leið
út af Egyptalandi.
Í draumi bað hann halda heim,
í helju væri þeir sveini þeim
vildi verða að grandi.
5.
Jósef tók svein og Máríu mey
með sér á leið og tafði ei,
fór heim til Júða jarðar.
Arkelás, sá ríkjum réð,
réttvís Jósef hans hræddist geð,
reiði og hefndir harðar.
6.
Vogar því ei að vitja heim;
vitraði Guð í svefni þeim
í Galílea að gista.
Náði því byggð í Nasaret,
náðugan svein þar fóstrast lét,
svo var og sagt með fyrsta.
7.
Af spámönnum er það tjáð,
áður til forna svo var spáð,
svo skuli sveinn sá heita,
Nasarenus við nafnið bætt
sem nóg er ljóst og harla sætt
því lausn vill lýðum veita.
8.
Í útlegð gafstu þinn einka son,
eilífi guð, sem veslan þjón
til föðurlands oss að færa.
Óvina hræðslu frelsa oss frá,
fyrir oss þá til heljar slá.
Þér sé lof, eilíf æra.
Vísan
1.
Heródes sveinbörn særir,
sár nauð, öll til dauða;
jafnaldrar Jesú milda,
undan komst hann af stundu
í útlegð og svo flytjast
aftur með guðdóms krafti
sem spáð er að nafnbót næði
í Nasaret þar eð að setjast.
2.
Fyrirsjón Guðs lét færa
foreldrum Krists uppheldi
í útlegð af þeim vitru
áður en viku af láði.
Hér svo að hvör mann læri
sá hefur Krist fær án efa
bæði blessan góða
og brauð í öllum nauðum.