Úrsúlukvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Úrsúlukvæði

Fyrsta ljóðlína:Það skal upphaf óðarbands
Heimild:JS 84 8vo.
Viðm.ártal:≈ 1700
Fyrirvari:Á eftir að gera betri grein fyrir handritum og aldri kvæðisins.

Skýringar

Úrsúlukvæði er hér skráð
eftir JS 84 8vo (með hendi Árna Böðvarssonar) og Lbs 1368 8vo. Fyrstu 13 erindin og fram í fimmtu línu 14. erindis er skráð eftir JS 84 8vo en afgangurinn eftir Lbs 1368 8vo.
1.
Það skal upphaf óðar blands,
eftir sögu meistarans,
heiðinn kóngur Húnalands
helga christni deyddi.
Attali hinn illi hét,
engri skepnu vægja lét,
sitt út breiddi svika net,
sauðum drottins eyddi.
2.
Úrsúla hét ágæt frú,
Englands kóngs var dóttur sú,
dávæn, líka dygg og trú,
drottni þjónkan veitti.
Hreinlíf var í hverri grein,
helgum meyjum líkust ein,
í mannkostum so miklum skein,
merkilega breytti.
3.
Ágæt christni efldi og jók,
ellefu þúsund meyja tók,
lærði þær að lesa á bók
og letrin helg að stunda.
Það nafnfræga vífa val
vænan einn þeim byggði sal,
var so stór að tók allt tal
téðra yngis sprunda.
4.
Húsið það var hátt og breytt,
hæst þar byggt í landi eitt,
glæsiliga gulli skreytt,
glóaði vítt um stræti.
Ellefu þúsund sængur senn
sína lét þar byggja menn,
hennar var og umfram enn
ágætt hvílu sæti.
5.
Jómfrúrnar með bjartar brár
báru krans og fléttað hár,
so voru klæddar síð og ár
silki rauðum skrúða,
armhringa og ennisbönd
eyrnaskart af Fofnirs strönd.
Fór af víða fregn um lönd
fljóða skaranum prúða.
6.
Áminnti hún allar mest
ótta Guðs að læra best,
Guðs fátækum góðverk flest
gjöra skyldu tíðum,
þó þær bæri skrúð og skart
skikkanlega og gullið bjart
drambseminnar enga art
aumum veita lýðum.
7.
Allar fylgdu auðar bil
er hún gengur kirkju til.
Söngvarar með simphons spil
soddan prýði jóku,
kóngsins dóttur glöddu geð,
gengu þessum skara með.
Margs kyns leika menn fá séð,
múrar undir tóku.
8.
Mitt í helgu mustere
mildings dóttur féll á kné,
bænagjörð so byrjaðe
blessað Pater noster.
En sem bænin enduð var
auðgrund veik að sæti þar.
Hennar prýddu hugarfar
hvörs kyns dyggða koster.
9.
Sérhvör ein á sína bók
psaltara Davíðs byrja tók.
Hilmirs dóttir hljóðin jók,
helga messu prýðir.
En sem hafði endað það
áfram kraup og fyrir sér bað.
Allar gengu inn í stað
eftir liðnar tíðir.
10.
Upp so fræddi allar þær
eðla jómfrú drottni kær,
allt að tvítugs aldri nær
ei við hana skildu;
elskuðu so auðar Gná
af henni máttu valla sjá.
Lofðungs dóttur ljúfri hjá
lifa og deyja vildu.
11.
Litlu síðar lauka sól
lætur búa skipastól,
sál og lífið sitt hún fól
sjálfum Guði á hendur.
Með henni sigldu meyjarnar,
margur eftir grátinn var.
Síðan veik að söltum mar
svanninn dyggðum vendur.
12.
Í Guðs nafni hún á haf
heldur þegar leiði gaf,
vindur bendir voðar laf,
vaxa byrinn náði.
Hugði drósin hýr í lund
höfnum ná við Frakka grund,
skyld var sjóla seima hrund
sem þar stýrði láði.
13.
Villtust þar um víðan geim,
vondir Tyrkjar mættu þeim;
leituðu illir útum heim
eftir christnum mönnum.
Heiðingjar, sem hér skal tjá,
Húnalandi komnir frá,
Attali hinn illi þá
örgum stýrði grönnum.
14.
Að þeim lagði illsku drótt,
umkringjandi skipin fljótt,
þrælalið um þessa nótt
þjóna Guðs so deyða.
Vífasveitin, *vesæl og aum,
vaknaði ei við góðan draum.
Heyra mátti harmaglaum
þá heiðnir skipin eyða.
15.
Kris[t]nir önga veittu vörn,
vóru þeir eins og reifabörn.
Mildingsdóttir menntagjörn
með þeim öðrum sorgar.
Dag og nætur döpur tér:
Drottinn hjálpi yður og mér.
Hann oss leiði héðan með sér
heim til Síons borgar.
16.
Feginn vil eg, fljóðið tér,
fórna drottni sjálfri mér,
sál og lífið eign hans er,
að því skyldum *gæta. [í hdr skrifað gjata]
Þar sem lifandi ljósið skín
líknarfulla höndin þín
setur uppá sálu mín
sigurkórónu mæta.
17.
Heiðingjar til Húnalands
helgra meyja fluttu krans.
Attala fyrir utan stans
ungar stúlkur færa.
Fyrir sig allar leiða lét,
loddarinn þeim með eiði hét,
ef þær göfga Mahómet,
mest þeim skyldi æra.
18.
Úrsúlam hinn illi mann
inní goða leiddi rann.
Síðan Macon, sagði hann,
sá er prýðilegur.
Vora skaltu taka trú,
tilbið hann með lotning nú.
Viljir hlýða þessu þú
þinn er lukkuvegur.
19.
Meyjan ansar, mil[d] af seim,
mun ég lúta drottni þeim
sem að gjörði himin og heim
og hlutina alla skapti.
Honum einum heiðurinn ber,
af hreinni meyju fæddur er,
klæddist voru holdi hér
hulinn guðdóms krafti.
20.
Ekkert honum megnar mót
magtin þín og tignin ljót.
Upp nam reiða axlar fót
afreks sprakkinn snjalli.
Ekki hún af orku dró,
undir kjaftinn Macon sló.
Honum illa höggið kló,
hálsbrotnar af falli.
21.
Attali varð ólmur þá
er hann goðið brotið sá.
Brennið sagði, bauga Gná
og berjið fyrst með grjóti. [JS 84 8vo tekur aftur við]
Utan þú viljir eiga mig,
ekki skal þá pína þig.
Guð frá slíku geyma sig,
gullskorð bað á móti.
22.
Eg hefi tekið ást við þann
æðsta Guð og líka mann.
Tryggðapant mér tærði hann
tengdaherrann mæti.
Illa mjög þá er um skipt
ef eg heiðnum níðing gift.
Fyrri vilda eg fjöri svipt
falla í dauðans sæti.
23.
Bælið eitt so búið var,
brenna skyldi vífið þar.
Eldurinn skaðar ekki par;
ætlu[ðu] þeir gjörninga.
Logann víða lagði frá,
loddara brenndi marga þá
sem að stóðu sætu hjá;
sumir af hita springa.
24.
Ærast tekur öðling nú,
unga biður að höggva frú.
Fyrst hún vill ei vora trú
vér skulum kaupið greiða.
Tigin gengur tvinna Gná
til aftökustaðar þá.
Allar hinar eftir á
argir bófar deyða.
25.
Christnir grétu gullhlaðs Lín,
greftrun öllum veittist fín;
líkama þeirra lögðu í skrín
þó löngu síðar væri.
Í Englands kirkjum sagt er sé
sett við hæsta altare
með processiu pápiskre
prýðilega so færi.
26.
Díonísíus, faðir fljóðs,
frægur hefndi dóttur blóðs.
Heiðnum þjóðum mjög til móðs
marga rómu háði.
Ákaflega með eld og brand
upp so rætti Húnaland.
Hlutu Tyrkjar heljar grand.
Hilmir sigra náði.
27.
Frakka kóngur frægðasnar
fylkir veitti liðsemd þar
því tvinna Hildi tengdur var
sem Tyrkjar firrtu lífi.
Mannfallið úr máta frekt
milding gjörði hættulegt.
Sjóla heiðinn sinni mekt
sviptu þeir í kífi.
28.
Andlátsdagur Úrsalá,
eftir því sem bækur tjá,
octobris er ætíð sá
einn og tuttugasti.
Efnið þar eg úti tel
alla christna drottni fel.
Hann oss geymi og verndi vel,
vor Guð náðugasti.


Athugagreinar

14.5 Hér tekur Lbs 1368 8vo við af handriti Árna Böðvarssonar, JS 84 8vo.